Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:14:01 (5984)


[19:14]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þar greinir okkur nú á, mig og hv. ræðumann, um það. Ég held að Alþb. (Gripið fram í.) Ég held að Alþb. geti verið prýðilega sátt við það sem það gerði í því efni og þá ekki síður framhaldið, því það er auðvitað glæsilegt hvernig það fyrirtæki hefur byggst upp ( PP: . . . að Grandi skyldi eignast restina.) og skilað góðum árangri. Það er svo aftur ekki á okkar ábyrgð, alþýðubandalagsmanna, salan á þessum restum til Granda.
    Um þessi mál að öðru leyti mætti svo sem margt segja. Ég held að niðurstaðan af þessum orðaskiptum sé einföld. Hún er sú --- og það er rétt að hæstv. ríkisstjórn er auðvitað ekki treystandi til að fara með þessi mál. Þess vegna batnar málið við það að hún fær þó ekki heimild til að selja nema helminginn af fyrirtækinu. Það er alveg augljóst mál. Hitt er svo álitamál hvort það sé eftir sem áður nóg til þess að rétt sé að standa að því, m.a. vegna þess að einstakir hv. þingmenn stjórnarliða hafa haft tilhneigingu til að snúa þá út úr skilyrtum stuðningi okkar við málið með því að þar með værum við að skrifa eitthvað upp á þeirra einkavæðingu. Það er ekki svo. Og þess vegna hélt ég m.a. hér nokkra ræðu til að þvo það rækilega af mér að ég tæki einhverja ábyrgð á því hvernig þeir hafa hegðað sér í þessum málum.