Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:01:36 (5987)


[11:01]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það vekur athygli mína í ljósi forsögu málsins og yfirlýsinga stjórnarliðsins um það hversu mikilvægt þetta mál er hversu fáir þeirra sjá ástæðu til að vera viðstaddir þessa umræðu og er ég satt að segja dálítið undrandi á því að ekki skuli vera meiri kraftur í stjórnarliðinu til að fylgja þessu stóra máli sínu meira eftir en raun ber vitni. ( SJS: Sjálfstfl. hefur ekki mikinn áhuga á því.) Það er ekki mikið af þingmönnum Sjálfstfl., það er rétt, það er vakin athygli á því. (Gripið fram í.) ( SJS: Og einn að lesa blöðin, það er rétt.) ( IP: Þeir eru nú svo fáir.) (Forseti hringir.) ( SJS: Hlutfallslega fáir.) Hlutfallslega fáir, já.
    Virðulegi forseti. Ef við víkjum að efnisatriðum frv. þá vil ég láta það koma strax fram af minni hálfu að ég tel að það þurfi að athuga ýmsa þætti þess nokkuð ítarlega í nefndarstarfi. Það er hins vegar enginn ágreiningur um það markmið að lækka framfærslukostnað heimila, sérstaklega þeirra heimila sem eru tekjulág. Um það hefur ekki verið deilt heldur meira um leiðirnar sem fara á til að ná því fram. Ég sé strax í þessu frv. að það eru mótsagnir í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ná fram þessu markmiði hvað varðar þá leið sem lögð er til í frv. um húsaleigubætur borið saman við aðra leið sem er í gangi um vaxtabætur. Í þessu frv. er í raun greinargerð sem hafnar vaxtabótaleiðinni, að nota ríkissjóð sem millifærslukerfi til þess að færa peninga milli aðila í þjóðfélaginu eftir upplýsingum úr skattframtölum. Það kemur fram á bls. 11 í greinargerðinni svo dæmi sé tekið, með leyfi forseta: ,,Það fyrirkomulag sem nú er, einhæf aðstoð til íbúðarkaupenda í formi vaxtabóta, getur virkað sem hvati til ótímabærrar fjárfestingar.``
    Í þessari greinargerð sem ég vitna hér til og reyndar annars staðar í þessum texta kemur með öðrum orðum skýrt fram að höfundar frv. og þeir sem að því standa líta svo á að sú aðferð að færa til peninga í þjóðfélaginu sem notuð er með vaxtabótaleiðinni sé ekki nógu góð og velja þess vegna aðra leið sem er dregin upp í þessu frv. um húsaleigubætur. Þarna er um að ræða tvær ólíkar leiðir við að færa peninga til á milli þjóðfélagsþegna eftir efnum og ástæðum og þær eru mjög ólíkar.
    Ég verð að segja að ég held að menn þurfi að íhuga rökin í þessu frv. gegn vaxtabótaleiðinni alvarlega áður en menn afgreiða þetta mál því að afgreiðsla þess felur í sér að menn hljóta að ætla sér að breyta því kerfi í kjölfarið ef þetta frv. verður samþykkt. Því að ekki gengur upp að vera með tvö ólík endurgreiðslukerfi eða tekjujöfnunarmillifærslukerfi í skattalögum. Það gengur ekki upp. Menn verða að hafa eina almenna stefnu í þessum efnum en ekki tvær ólíkar sem ganga hvor í sína áttina.
    Reynsla mín gegnum árin af beinu endurgreiðslukerfi ríkissjóðs er þannig að því miður eru meiri líkur á misnotkun í slíku kerfi heldur en í öðru kerfi sem tengt er endurgreiðslu í gegnum skattkerfið. Það er því miður reynsla sem ég held að menn geti ekki mótmælt. Ég hefði að sumu leyti hallast meira að því að skoða frekar það sem áður var við lýði um nokkurra ára skeið, að leigutekjur yrðu endurgreiddar í gegnum álagningu skatta, rétt eins og menn eru að endurgreiða ákveðinn húsnæðiskostnað, þ.e. hluta af vaxtakostnaði í gegnum skattkerfið með svokölluðu vaxtabótakerfi. Ég hygg að það sé ástæða til þess að a.m.k. íhuga þetta vandlega. Mín niðurstaða af reynslunni er sú að ég tel meiri líkur á misnotkun á þessu í gegnum beint endurgreiðslukerfi eins og húsaleigubætur sem hér er lagt til fremur en hitt kerfið sem er vaxtabótakerfið. Þetta þurfa menn bara einfaldlega að skoða. Það er hægt að leggja mat á þetta og fá tölulegar upplýsingar um þetta frá fjmrn. og ég tel að menn ættu að setjast yfir það verkefni.
    Þá finnst mér hlutur sveitarfélaga í þessu máli vera nokkuð óljós. Það hefur verið dregið fram að þau leggi af mörkum nú þegar, það er lagt mat á það hvað þau leggja af mörkum nú þegar, til niðurgreiðslu á húsnæði fyrir einstaka íbúa í sínum sveitarfélögum og komist að þeirri niðurstöðu að það séu um 250 millj. kr.
    Mér sýnist á uppsetningu þessa frv. að sú upphæð sé tekin að viðbættu framlagi ríkisins sem er 400 millj. og frv. sé ætlað að setja reglur um ráðstöfun á 650 millj. kr. Ég fæ ekki betur séð en þetta þýði aukin útgjöld fyrir sveitarfélög því þau munu auðvitað ekki þrátt fyrir þetta frv. losna við útgjöld sem hafa borið fram til þessa nema þá að nokkru leyti. Alls ekki að fullu og ég hygg að að mestu leyti muni húsnæðiskostnaður sem sveitarfélög bera nú þegar vera áfram á þeim. Ég tel rétt að menn geri sér ljóst að frv. er að íþyngja sveitarfélögum. Menn geta haft þá skoðun að það kunni að vera rétt. Ég er ekki að segja að það sé rangt að sveitarfélagið leggi meira fram í þessu skyni en það er grundvallarstefna t.d. hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að sveitarfélög taki ekki á sig nýjar kvaðir nema tekjustofnar fylgi á móti til að mæta þeim útgjöldum sem fylgja kvöðunum. Ég sé ekki betur en að með þessu frv. sé verið að auka útgjöld sveitarfélaga um kannski allt að 200 millj. kr. á ári án þess að tekjustofnar komi á móti. Það er rétt að menn séu meðvitaðir um það og að það gengur gegn stefnu sveitarfélaga sem telja það grundvallaratriði að taka ekki við nýjum verkefnum nema þau hafi tekjur á móti þeim til þess að geta uppfyllt þau verkefni.
    Þá vil ég víkja að fáeinum atriðum sem ég vil vekja athygli á og tel að menn þurfi að íhuga einnig. Það er í fyrsta lagi um formið. Hér er ekki um að ræða skilyrðislaust réttindafrumvarp. Það er háð ákvörðun sveitarstjórna á hverjum stað hvort íbúar þess eigi rétt á þessum greiðslum eða peningum. Sveitarstjórnin þarf ekki að hafa nein rök fyrir sinni ákvörðun hvort sem það er með eða á móti því að veita þennan rétt. Þannig getur sveitarfélag samkvæmt þessum texta ákveðið að húsaleigubætur verði ekki við lýði og þarf ekkert sérstaklega að rökstyðja það. Þarna er því ekki um að ræða réttindamál sem er lögfest og gildir fyrir alla þegna landsins óháð búsetu. Hér er um að ræða verulega breytingu að mínu mati á því hvernig menn nálgast hluti af þessu tagi.
    Þá er gengið inn á ákvörðunarrétt sveitarstjórna. Og það er gegn yfirlýstri stefnu félmrh. sem hvað eftir annað segir að það sé stefna hennar, ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að auka sjálfstæði sveitarfélaga. Þetta frv. dregur úr því þar sem það felur undirnefnd sveitarstjórnar að taka ákvörðun um útfærslu máls sem á að vera í höndum sveitarstjórnarinnar sjálfrar. Þar vil ég nefna ákvæði í 2. gr. frv. og í 11. gr., þar sem segir t.d. í 2. mgr. 11. gr., með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálanefnd viðkomandi sveitarfélags ákvarðar um bótarétt.`` Þarna er verið að taka valdið úr höndum sveitarstjórnarinnar og færa það undirnefnd sveitarstjórnarinnar. Það er verið að ganga inn á valdsvið sveitarstjórnar sem er gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga, sem er gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og sem er gegn 11. gr. laga um hlutverk félagsmálanefnda í lögum um félagsaðstoð sveitarfélaga. Menn verða að hafa samræmi í þessum hlutum í lagasetningu milli laga. Það verður líka að vera samræmi í lagasetningu við stefnu ríkisstjórnarinnar fyrst ríkisstjórnin á annað borð er að fást við það að koma þeirri stefnu sinni í lagabúning. Ég tel að þetta ákvæði þurfi að lagfæra.
    Þá geri ég athugasemdir við rökstuðninginn um að sveitarfélögin eigi að hafa þetta verkefni með höndum umfram ríkisvaldið eins og er almennt í lagatextum um réttindamál af þessu tagi. Það segir á bls. 7 í greinargerðinni að það sé starfsfólk sveitarfélaganna sem hafi góða þekkingu á húsnæðismarkaðnum og þess vegna eigi það að hafa málið með höndum. Af hverju á þá ekki þetta sama starfsfólk að sjá um útborgun vaxtabóta og ákvörðun þeirra? Það eru sömu rökin. Menn verða að gæta að því að hafa rökstuðninginn fyrir málinu þannig að hann skjóti ekki annað mál út af borðinu.
    Þá bendi ég á að ósamræmi er í lagatextanum í 4. gr. frv. og í greinargerð á bls. 13 um meginatriði frv. en í 4. gr. segir að þegar fyrirsjáanlegt sé að endurgreiðsla ríkisins verði hærri fjárhæð en fjárlög kveða á um þá eigi að gera um það tillögu til félmrh. að ákvæði reglugerðar um fjárhæð húsaleigubóta verði endurskoðuð. Og þá væntanlega með það í huga að þær verði lækkaðar. Hins vegar segir í greinargerðinni á bls. 13 að það eigi að endurskoða ekki bara fjárhæðina heldur líka útreikning húsaleigubótanna. Það þarf að vera ljóst hvort á að vera, hvort á að gilda í þessum efnum.
    Þá er galli á þessu frv. sem kemur fram í 5. gr. að námsmenn eru útilokaðir frá húsaleigubótum

ef þeir stunda nám annars staðar en þar sem þeir eiga lögheimili. Ég veit ekki hvers landsbyggðarmenn eiga að gjalda í þessu máli. Mér er auðvitað ljóst að félmrh. er þingmaður Reykvíkinga en ég hef nú talið að ráðherra ætti að gæta þess að vera ráðherra landsins alls. Það er óþolandi að ganga frá lagasetningu sem mismunar fólki eftir búsetu eins og þarna er augljóslega gert auk þess sem ég er ekki sammála því að ef menn á annað borð ætla sér að taka upp bótakerfi af þessu tagi þá eigi að útiloka námsmenn frá þeim bótum. Námsmenn eru líka fólk og þeir eru líka með fjölskyldur og þeir búa í íbúðum alveg eins og aðrar fjölskyldur. Ég sé ekki af hverju þeir eiga að vera undanþegnir rétti til bóta fremur en aðrir, aðrar fjölskyldur, ef þeir að stunda nám hér á landi annars staðar en í sinni heimabyggð.
    Þá er eitt atriði enn sem ég hef skrifað niður hjá mér sem mér finnst rétt að sé athugað. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því að menn geti fengið húsaleigubætur í íbúðum, t.d. í almennum kaupleiguíbúðum eða öðrum leiguíbúðum sem félagasamtök eða einhverjir byggingaraðilar byggja og leigja út. Þetta þýðir hvað varðar t.d. almennu kaupleiguíbúðirnar að fyrir sveitarfélögin bætist þarna hugsanlega við útgjaldaliður til viðbótar því sem áður er ákveðið í lögum. Í dag er það þannig að þegar byggðar eru almennar kaupleiguíbúðir, jafnvel þó að það sé ekki sveitarfélagið sjálft sem byggir heldur einhver svokallaður framkvæmdaraðili, þá ber sveitarfélaginu að greiða 3,5% af byggingarkostnaði, þannig að það greiðir niður byggingarkostnaðinn og þar með greiðir það niður leigugjaldið. Með því hugarfari að leigugjaldið eigi að duga fyrir rekstrarkostnaði íbúðarinnar þá er sá kostnaður lægri þegar sveitarfélagið hefur greitt niður sinn hluta af stofnkostnaði.
    En til viðbótar þessu sýnist mér að nú sé gert ráð fyrir því í þessum íbúðum að um geti verið að ræða að sveitarfélög þurfi þar að auki að greiða hluta af leigugjaldinu. Það þarf ekki að skoða mjög lengi tölur um byggingarkostnað og lánskjör og annað slíkt í almennum kaupleiguíbúðum til að átta sig á því að útleiga á þeim er það há að hún fellur ríflega undir ákvæði þessa frv. Við getum þar að auki verið með annan íbúðalánaflokk sem eru félagslegar kaupleiguíbúðir þar sem lánin eru til mjög langs tíma með 1% vöxtum, þ.e. niðurgreiddir vextir af ríkisvaldinu. Maður spyr sig: Eigum við að bæta því við að auk þess sem ríkið greiðir niður vextina og þar af leiðandi húsaleigukostnaðinn, þá eigi ríkið svo að greiða niður húsaleiguna sjálfa og sveitarfélögin? Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að um það gæti orðið að ræða. Ég nefni sem dæmi t.d. Búsetaíbúðir sem eru á þessum kjörum, með 1% vöxtum, eru með niðurgreiddu fé í raun frá ríkissjóði. Ætla menn að bæta við þessa niðurgreiðslu? Á hún að koma þá úr tveimur eða jafnvel þremur áttum ef sveitarsjóðirnir leggja til hluta af niðurgreiðslunni líka? Er þá ekki betra að hugsa málið betur og finna einn farveg fyrir styrkveitinguna heldur en að taka hana í svona mörgum bútum? Ég óttast að það verði ekki nægilega markviss ráðstöfun á peningunum með þessum hætti.
    Þá sýnist mér það vera töluvert snúið að fella niður rétt til húsaleigubóta, þ.e. fylgjast nægilega með hvenær sá réttur fellur niður eins og hann er ákvarðaður í 16. gr. Ég held að sveitarfélög eigi eftir að verða í verulegum vandræðum með að hafa nægjanlega gott eftirlit með því að menn séu ekki að ná peningum út úr ríkinu og sveitarfélaginu að ástæðulausu.
    Þá þykja mér ákvæðin um að það þurfi að þinglýsa leigusamningi óþörf. Í raun og veru eru þau ákvæði ekkert annað en auglýsing fyrir það sjónarmið að menn telja að um misnotkun geti orðið að ræða og eru að reyna að fyrirbyggja misnotkun með því að setja inn í lagatextann ákvæði um að það þurfi að þinglýsa þessum samningi. Ef menn telja að um misnotkun geti verið að ræða þá sýnist mér að menn þurfi að skoða þetta mál nokkuð betur. Því það er ekki nægjanlegt til að koma í veg fyrir misnotkun í málinu að þinglýsa samningi um leigu á húsnæði.
    Almennt er því miður ástæða til að taka undir áhyggjur manna um það að greiðsla peninga með þessum hætti geti stuðlað að því að hækka húsaleigu. Það er því miður ekki hægt að loka augunum fyrir því að það eru þó nokkur rök í þeirri gagnrýni. Ég sé ekki að þetta frv. komi með útfærslu sem er nægilega sannfærandi.
    Fleira ætla ég nú ekki að segja um þetta mál að sinni, virðulegi forseti. Það gefst tækifæri til að fara yfir málið í nefnd. En ég legg áherslu á að ef hæstv. ríkisstjórn hefði verið full alvara með því að ætlast til þess að þetta mál ætti góðar líkur á að fá afgreiðslu á þessu þingi þá hefði frv. þurft að koma miklu fyrr fram. Ríkisstjórnin hefur sjálf teflt framgangi málsins í tvísýnu með því að vera svona lengi að leggja frv. fram. En við sjáum hvað setur með það.