Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:22:21 (5988)



[11:22]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var fróðlegt að fá að hlýða á yfirferð hv. 5. þm. Vestf. Ég veit að hann hefur farið mjög vel yfir þetta mál og það mun gagnast okkur vel þegar við förum að vinna það í nefnd. En það er einungis út af þeim staðhæfingum sem komu fram hjá þingmanninum um að það væri verið að hverfa frá ákveðinni aðferð, endurgreiðsluaðferð og vísaði þá til vaxtabóta, með því að fara inn í aðrar greiðslur. Það er þess vegna sem ég vil sýna hér viðbrögð. Það er hægt að nefna endurgreiðslukerfi í skattinum, t.d. barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur. Ég minni á að áður hafði ríkið þann hátt á að það greiddi niður almenna vexti í húsnæðislánakerfinu beint í gegnum vexti hjá sjóði Húsnæðisstofnunar ríkisins og það var alveg óháð tekjum og eignum viðkomandi fengju þeir á annað borð lán. Og þegar verið var að breyta yfir í vaxtabætur þá var það einmitt rætt hvort það væri vont eða gott skref, hvort það yrði til þess að þessi góða fyrirgreiðsla við eignamyndun mundi hætta. Tryggingin átti nú að vera sú að allir flokkar væru með ákveðna eignastefnu. Hins vegar erum við með námslánakerfi þar sem eru niðurgreiddir vextir. Þar er stuðningur til námsfólks í gegnum lánasjóð, þar erum við ekki með endurgreiðslur á einhverjum markaðsvöxtum í gegnum bætur heldur greiðum við beint niður vextina í lánasjóðnum og það hefur enginn talað um að það væri einhver höfnun á vaxtabótakerfinu, það er bara önnur aðferð við að greiða niður eða veita annan stuðning ríkisins.
    Húsaleigubæturnar eru mjög afgerandi nær verkefni sveitarfélaga að mínu mati sem hef unnið í sveitarfélagsmálum. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Þar liggur fyrir félagslega húsnæðið og stuðningur við það. Þar sem sveitarfélögin sjá um leiguíbúðir, en innan þeirra er oft ákveðin niðurgreiðsla og fjárhagsleg fyrirgreiðsla á almennum markaði þá er afar mikilvægt að stuðningur við leigu sé í gegnum sveitarfélögin og stuðningur til sveitarfélaganna frá ríkinu.