Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:42:15 (5993)


[11:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að fagna þessu langþráða frv. um húsaleigubætur. Það er vissulega þó seint sé ástæða til því betra er seint en aldrei. Hér er á ferðinni, held ég, að mörgu leyti ótvíræð réttarbót og mikil framför í þeim efnum að menn verði sæmilega jafnsettir í skattalegu og fjárhagslegu tilliti án tillits til þess hvort þeir eru að eignast eigið húsnæði og njóta til þess stuðnings ríkisvaldsins í formi vaxtabóta eða hvort þeir leigja og hafa þá sæmilega sambærilega stöðu í gegnum greiðslu húsaleigubóta. Auðvitað hefur sú mismunun sem húsnæðisformunum hefur verið sýnd í gegnum núverandi ástand sem alllengi hefur ríkt í raun verið óþolandi og óréttlætanleg. Það standa engin rök til þess að ríkið styðji beint við einkaeignamyndun manna í húsnæði og auðveldi þeim þannig og lækki hvort tveggja í senn hjá þeim húsnæðiskostnaðinn en jafnframt auðveldi þeim eignamyndun í því sambandi en á sama tíma skuli þeir sem leigja húsnæði og skaffa þar af leiðandi öðrum tekjur með leigugreiðslum sínum einskis stuðnings njóta til þess. Fyrir nú utan það að hér er gjarnan á ferðinni sá þjóðfélagshópur eða tekjuhópur sem í hvað mestri eða ríkastri þörf er fyrir einhvern stuðning. Þetta segi ég almennt séð og út af fyrir sig ætti að vera óþarfi að standa hér og rökstyðja í löngu máli hvers vegna rétt og tímabært sé að taka upp húsaleigubætur, og þó fyrr hefði verið. Og þó, maður veit aldrei, því að staðreyndin er sú að fyrir þessu máli hefur verið þvælst með alveg ótrúlegri elju af ákveðnum stjórnmálaöflum í landinu. Það er auðvitað engin tilviljun að hér er Sjálfstfl. afar þunnskipaður þó það séu út af fyrir sig mikið góðmenni sem frá þeirri sveit er hér viðstödd umræðuna. En hér sést enginn ráðherra Sjálfstfl. og enginn af þeim þingmönnum sem í reynd hafa dregið lappirnar og þvælst fyrir því að teknar yrðu upp húsaleigubætur og yfir höfuð að nokkuð yrði gert til hagsbóta leigjendum í landinu og veri fjarvera þeirra íhaldsmanna hér rækilega undirstrikuð af minni hálfu.
    Hitt er svo auðvitað mikið miður, hæstv. forseti, hversu ákaflega seint þetta hefur gengið og að gildistaka þessa frv. á ekki að verða fyrr en um næstu áramót þannig að í raun verður þetta kjörtímabil liðið að heita má og sennilega komin ný ríkisstjórn hvort sem er þegar þessi lög taka gildi um næstu áramót. Ekki er ég nú að sýta það þ.e. að komin verði önnur ríkisstjórn og kjörtímabilið u.þ.b. liðið. En hitt er náttúrlega mjög slæmt að leigjendur þurfa þá að bíða enn um sinn eftir því að njóta réttarbótanna af þessu frv.
    Nú man ég ekki til að rifja upp fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála um húsaleigubæturnar en það er eins og mig minni að það standi einhvers staðar í annarri hvorri þunnu bókinni frá Viðey eða hvítu bókinni frá því um haustið að það eigi að taka þetta upp strax á næsta ári. Hæstv. félmrh. kann þetta sjálfsagt betur en ég en í öllu falli er alveg ljóst að það hefur orðið mikill dráttur á efndunum hvað þetta snertir. En vissulega ber að fagna því að þetta er þó í sjónmáli og við skulum vona að það verði nú ekki gerðar frekari tilraunir til að bregða fæti fyrir þetta og málið nái hér afgreiðslu fyrir þinglok og þá dugar það vonandi til þess að jafnframt verði lagðir til fjármunir á fjárlögum næsta árs til að greiða þessar bætur. Þar eru í sjálfu sér ekki stórkostlegir fjármunir á ferð borið saman við það sem til þessa málaflokks rennur í heild sinni þegar lögð eru saman framlög til byggingarsjóðanna eða Byggingarsjóðs verkamanna og það sem fer til greiðslu vaxtabóta svo eitthvað sé tekið. Hitt er svo aftur atriði, hæstv. forseti, að það skiptir miklu máli að vel takist til þegar þessi löggjöf er nú loksins sett. Reyndar sé ég að því er hnýtt hér aftan við í ákvæði til bráðabirgða að lögin skuli endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku, þ.e. ef frv. verður að

lögum. Það er svo sem ekkert nema gott um það að segja en e.t.v. bendir það til þess að menn reikni ekki með að þau séu alveg gallalaus.
    Ég verð að segja alveg eins og er að við tiltölulega fljótan yfirlestur á þessu frv. þá hef ég efasemdir um nokkur atriði og þau hafa svo sem verið nefnd hér, sum hver a.m.k. af öðrum ræðumönnum og ég ætla því tímans vegna ekki að fjölyrða um það mikið.
    Ég vísa líka til þess sem ég sagði hér í ræðu fyrr í vikunni þegar til umræðu var frv. til húsaleigulaga. Þá gerði ég nokkurn samanburð á þessum tveimur frv. og undirstrikaði nauðsyn þess að þau yrðu skoðuð saman. Ég þakka þær undirtektir sem það fékk af hálfu hæstv. félmrh. og ég treysti hv. félmn. fullkomlega til að reyna að vinna þessi mál bæði þannig og þá saman að úr þessu verði eitt heildstætt smíðaverk. Þau atriði sem ég vil sérstaklega nefna og undirstrika og óska eftir að verði skoðuð eru í fyrsta lagi ákvæðin í 5. gr. þar sem fjallað er um almennan rétt til húsaleigubóta. Það þarf að athuga greinilega hvort þessi skilyrðislausa tenging við lögheimilisfang í viðkomandi sveitarfélagi er þannig úr garði gerð að hún e.t.v. útiloki hópa eins og t.d. námsmenn sem hafa undanþágu frá lögheimilislögunum, ef ég man rétt, á grundvelli þess að þeir stunda tímabundið nám í öðru sveitarfélagi en sínu eigin. Það þarf að sjálfsögðu að tryggja að samræmi sé líka að þessu leyti milli löggjafarinnar. Það getur ekki verið ætlunin að útiloka námsmenn frá húsaleigubótum sem eru að leigja á hinum almenna markaði. Það liggur í hlutarins eðli að svo má ekki vera. Á hinn bóginn þarf svo aftur að líta á það hvernig það þá kemur við námslánakerfið og námslán en á því er sá grundvallarmunur að sjálfsögðu að húsaleigubæturnar eru framlag, óafturkræfur stuðningur við viðkomandi en námslánin lán og þess vegna er það auðvitað ekki jafngilt að menn hafi lánsmöguleika út á húsnæðiskostnað og hitt að þeir njóti húsaleigubóta.
    Síðan gerði ég að umræðuefni um daginn ákvæði húsaleigusamninga á grundvelli húsaleigulaganna um tímalengd samninganna. Þar er annað atriði sem bersýnilega þarf að athuga, þ.e. lengd eða tímabinding húsaleigusamninga. Það þarf að vera alveg ljóst að ótímabundinn leigusamningur um íbúðarhúsnæði flokkist sem samningur til sex mánaða eða lengri tíma. Húsaleigubótaákvæðin í þessu frv. eru þannig úr garði gerð að það er skilyrði fyrir húsaleigubótum að samningurinn sé a.m.k. til sex mánaða. Húsaleigulögin eru á hinn bóginn þannig að þar skulu allir húsaleigusamningar teljast ótímabundnir sem ekki eru með beinum tímasetningarákvæðum. Ótímabundinn húsaleigusamningur um íbúðarhúsnæði er hins vegar þannig að hann er ótímabundinn auðvitað, samkvæmt orðanna hljóðan, en uppsagnarfrestur er sex mánuðir. Það er að mínu mati ekki sjálfgefið að þessi sex mánaða uppsagnarfrestur sé fullnægjandi gagnvart tímalengdarákvæðum húsaleigubótafrumvarpsins. Þetta þarf að bera saman og athuga og ég held að það sé langeinfaldast að eyða allri óvissu um þetta í eitt skipti fyrir öll í byrjun og í upphafi þannig að ekki þurfi að fara að kalla á lögfræðingaherskarann og borga honum kaup við að skila greinargerðum út og suður og lenda svo kannski í dómsmálum og enda með því að naumur meiri hluti Hæstaréttar útskýri lögin að lokum, á búvörulagavísu, heldur sé það skýrt frá upphafi að ótímabundinn húsaleigusamningur með sex mánaða uppsagnarfresti teljist í skilningi húsaleigubótalaganna samningur til sex mánaða eða lengri tíma og þar með er það mál leyst. Nefndin gæti þá í nál. látið þessa lögskýringu koma fram eða einhvern veginn má leysa það.
    Í þriðja lagi nefndi ég ákvæði um daginn, og ætla að gera aftur, ákvæði 8. gr. um skilgreiningu á íbúðarhúsnæði. Ég óttast mjög að sú skilgreining sé of þröng. Ég er sannfærður um að það á eftir að koma í ljós ef þessi skilgreining er höfð svona afdráttarlaus og einhlít þá muni koma í ljós að talsvert af standsettu leiguhúsnæði í kjöllurum og annars staðar þar sem menn hafa standsett litlar íbúðir til útleigu í húsnæði sem kannski var upphaflega ekki teiknað sem íbúð, mun þá ekki ná inn undir þessa skilgreiningu. Það hljóta einhverjir fleiri en ræðumaður að þekkja t.d. íbúðir í kjöllurum þar sem húsnæði hefur verið breytt í íbúð og tvær litlar íbúðir eru jafnvel með sameiginlegri eldunaraðstöðu eða sameiginlegri baðaðstöðu eða öðru slíku. Samkvæmt orðanna hljóðan í 8. gr. mundu slíkar íbúðir ekki ná inn undir húsaleigubæturnar. Það á auðvitað ekki að vera þannig. Á mörgum stöðum er mikil húsnæðisekla, ekki síst skortur á leiguhúsnæði og þar hefur víða verið leyst úr þörfinni með því að standsetja húsnæði af ýmsum toga í aðstöðu sem ekki var endilega beinlínis hönnuð sem slík og þá mundi í mörgum tilvikum, fullyrði ég, eitthvað af þessu eiga við, að eldunarstaða væri sameiginleg, að snyrting eða baðaðstaða væri sameiginleg eða einhvern veginn þannig væri þetta úr garði gert að með þröngri lagatúlkun félli það utan skilgreiningar húsaleigubótalaganna á íbúðarhúsnæði og það á auðvitað ekki að vera svo. Það er væntanlega ekki ætlunin að mismuna mönnum eftir því sem kannski hefðu jafnbágan efnahag og allt það, nákvæmlega hvort það húsnæði sem þeir hafa fengið inni í er alveg fullkomið frá sjónarhóli skipulagshyggjunnar og arkitektúrsins sem þrauthannað íbúðarhúsnæði. Annars veit ég í raun og veru ekki hvað er verið að fara með þessu, hvort það á að gera það að kröfu að þarna séu alveg athugasemdalaust samþykktar íbúðir eða hvað vegna þess að ég lít svo á að þetta sé efnahagsleg og félagsleg ráðstöfun en ekki ráðstöfun sem snýst um arkitektúr eða ástand íbúðarhúsnæðis eða annað því um líkt. Þetta er félagsleg aðgerð, jöfnunaraðgerð og það á að ganga út frá því við skilgreiningu á aðgengi manna að þessum ráðstöfunum en ekki einhverjum arkitektúr. Með fullri virðingu fyrir honum auðvitað. Að þessum hlutum þarf að hyggja og ég er ekki alveg viss um að menn séu á réttu spori eins og þetta er sett upp þarna, t.d. í 8. gr.
    Í fjórða lagi, hæstv. forseti, vil ég nefna að lokum, og það held ég að fleiri hafi gert, skilyrðin eða fylgigögn sem þurfa að fylgja umsóknum. Það vakti strax athygli mína að gert var ráð fyrir því að það væri

ekki nóg að leggja fram leigusamning þó hann væri fullnægjandi eða gerður á grundvelli húsaleigulaga og væri þannig úr garði gerður að hann uppfyllti öll ákvæði II. kafla húsaleigulaganna um gerð leigusamnings, væri sem sagt skriflegur og væri á staðfestum eyðublöðum, í honum kæmu fram allar þær upplýsingar sem 6. gr. gerði ráð fyrir, nöfn, heimilisföng, kennitölur, lýsing á hinu leigða o.s.frv., að þetta væri samt ekki nóg því síðan skyldi hver einstök umsókn um húsaleigubætur byggja á þinglýstum leigusamningi. Og það væri aukakvöð sem lögð væri á leigjandann í hverju einasta tilviki sem hann ætlaði að sækja um húsaleigubætur að framvísa þinglýsingu á leigusamningi. Nú er út af fyrir sig þinglýsing ekki stórmál, upplýst var að hún kostaði 1.000 kr. En þúsund kall er þúsund kall og fólk sem er ekki með fullar hendur fjár og býr í leiguhúsnæði munar um hverja krónu. Það er auk þess líka spurning hvort ástæða er til að vera að leggja svona kvöð og þessa fyrirhöfn á menn í hverju einasta tilviki. Þetta mundi gilda um jafnvel bara skammtímaleigusamning þó hann væri ekki nema til sex mánaða eða sjö mánaða sem væri fullnægjandi tímalengd til að menn ættu rétt á húsnæðisbótum en samt skyldu menn labba með slíkan pappír og þinglýsa honum.
    Ég hefði talið að það ætti að láta það nægja eða athuga það a.m.k. vel hvort það væri ekki fullnægjandi að gera það að skilyrði að framvísað væri leigusamningi sem uppfyllti öll skilyrði húsaleigulaganna um gerð leigusamnings. Ef mönnum finnst það ekki einu sinni nóg þá má velta því fyrir sér hvort það ætti að taka viðbótarákvæði inn í húsaleigubótalögin um þá einhver enn frekari skilyrði sem slíkir samningar þyrftu að uppfylla ef það nægði þá til þess að leysa menn undan þessum 1.000 kr. í hverju tilviki og því að þurfa að vera að labba með þetta til fógeta og kaupa á það þinglýsingu.
    Það mætti nefna ýmislegt fleira, hæstv. forseti, en ég sé ekki ástæðu hér við 1. umr. að hafa um þetta mörg orð eða fleiri. Það sem á eftir kemur, nái þetta frv. afgreiðslu og verði hér að lögum, er svo auðvitað það að leggja fjármuni til þessa verkefnis þannig að þetta nái tilgangi sínum og að húsaleigubæturnar verði slíkar í upphæðum og í framkvæmd að þær tryggi það jafnrétti milli hópa sem hlýtur að vera markmiðið að stefna að með samræmdu skipulagi að þessu leyti. Húsaleigubótum fyrir leigjendur og vaxtabótum fyrir þá sem eru að koma sér upp íbúðarhúsnæði í eigin eigu. Það hlýtur að vera markmiðið.
    Auðvitað er þetta orðið dálítið margbrotið þegar svo er haft í huga að allt íbúðarhúsnæði í eigu ríkis, sveitarfélaga og stofnana á vegum sveitarfélaga á að falla utan húsaleigubótakerfisins, þar með er að mínu mati augljóslega verið að velta yfir á eigendur húsnæðisins þeirri kvöð að þeir stilli þá leigunni þannig hóf að þessir hópar verði ekki lakar settir en þeir sem njóta húsaleigubóta eða vaxtabóta. Það hlýtur að vera þannig sem málið er hugsað. Það er auðvitað spurning hvað sveitarfélögin sem eru í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika eigendur leiguhúsnæðisins og sveitarfélögin eru leigjandinn gagnvart þeim aðilum sem þar eiga í hlut og verða utan hvort tveggja, húsaleigubótanna og vaxtabótanna. Það mun þýða að sú krafa kemur upp að húsaleigan verði þá lægri sem því nemur í grófum dráttum til þess að allir þessir hópar séu jafnsettir. Það er atriði sem þarf líka að skoða og þess vegna hlýtur að koma til kasta félmn. að fara yfir þetta mál rækilega með sveitarfélögunum, hv. formaður félmn., þ.e. að hafa sveitarfélögin rækilega með í ráðum þegar farið verður yfir þessi mál vegna tengingar þeirra við húsnæðismálin á vegum sveitarfélaganna og stöðu t.d. sveitarfélaganna sem leigusala í stórum stíl á húsnæði til þeirra sem ekki koma til með að njóta húsaleigubóta, og hvaða hugsanlegar kvaðir eða íþyngjandi þrýsting a.m.k. þetta kann að leggja á sveitarfélögin.
    Ég vona að hv. nefnd, þó tíminn sé svo sem ekki mikill, reyni samt að vinna þetta vandlega því það er mikið í húfi að vel takist til um þessa lagasetningu þá loksins að hún kemst á dagskrá.