Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:01:00 (5994)


[12:01]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta frv. Ég tel að af þeim megi draga þá ályktun þó fram hafi komið ýmsar ábendingar og athugasemdir að það sé allvíðtækur stuðningur fyrir húsaleigubótum á þinginu. Það kom fram í máli sumra ræðumanna að þeir gagnrýndu að frv. sé seint á ferð. Ég get vissulega tekið undir að það hefði verið æskilegra að málið hefði komið fram fyrr á hv. Alþingi en þetta var tíminn sem það tók að undirbúa málið og ná samkomulagi um einstök atriði í því. Reyndar er það svo eins og þingmenn þekkja að húsaleigubætur hafa lengi verið til umræðu á hv. Alþingi, voru það í tíð síðustu ríkisstjórnar m.a. þar sem nokkuð var fjallað um húsaleigubætur og framkvæmd þeirra og áður en til síðustu kosninga kom þá kom fram á þingi frv. um húsaleigubætur þannig að þetta er búið að vera alllengi á döfinni. En ég hygg að flestir skilji að hér er um mikla réttarbót að ræða og það verði ekki með það beðið að koma á húsaleigubótum til þess að jafna kjör og aðstöðu milli leigjenda og eigenda á húsnæði.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, nefndi það að í hvítbók ríkisstjórnarinnar væri ákvæði um það að húsaleigubætur hefðu átt að koma á á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar. Það er svo orðað í hvítbók ríkisstjórnarinnar, ef ég man rétt, að aukin aðstoð við leigjendur átti að koma á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar til að lækka húsnæðiskostnað þeirra. Ég tel ýmislegt hafa verið gert til þess að bæta hag leigjenda á þessu kjörtímabili. Ég hygg að aukið framboð á leiguhúsnæði, verulega aukið framboð á

leiguhúsnæði á þessu kjörtímabili hafi skipt miklu máli fyrir leigjendur og til þess að gera húsaleigumarkaðinn skaplegri. Það eru nokkur hundruð leiguíbúðir sem hafa bæst við á undanförnum árum sem er töluvert miklu meira heldur en var á árunum á undan. Við höfum verið að fjalla um frv. um húsaleigusamninga sem vissulega bæta réttarstöðu leigjenda og við erum núna að fjalla um þetta frv. um húsaleigubætur.
    Virðulegi forseti. Ég vil fara yfir nokkrar af þeim athugasemdum og ábendingum sem hér hafa komið fram.
    Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir nefndi framkvæmdina á 2. gr. Ég hefði kosið að þetta væri almennur réttur leigjenda að uppfylltu ákveðnu skilyrði að húsaleigubætur væru almennari en hér er gert ráð fyrir en þetta var niðurstaðan eftir umræður við Samband ísl. sveitarfélaga, að það væri í sjálfsákvörðunarrétti hvers sveitarfélags að ákveða hvort þeir tækju þátt í þessu eða ekki. Á það var fallist þó ég hefði kosið hina aðferðina, að rétturinn væri almennari gagnvart leigjendum. Þegar við erum með framkvæmdina með þeim hætti að ákvörðunarrétturinn er hjá sveitarfélögunum þá verðum við að setja ákveðnar leikreglur í því sambandi þannig að réttarstaða fólks sé ljós í þessu sambandi. Og þess vegna er þessi tímafrestur ákveðinn að það er sveitarstjórn sem ákveður fyrir ákveðinn tíma, fyrir áramótin, hvort hún taki þá þátt í þessu og síðan þarf hún að tilkynna það fyrir ákveðinn tíma gagnvart leigjendum í sínu sveitarfélagi og gagnvart þeirri áætlun sem þarf að gera fyrir komandi ár. Þess vegna er þetta nú með þessum hætti sett hér fram eins og raun ber vitni.
    Þinglýsinguna hefur nokkuð borið á góma, m.a. hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur og fleirum sem hér hafa talað. Ég tel að það felist nokkuð öryggi í að hafa þessa þinglýsingu fyrir hendi. Auðvitað verður það félagsmálanefndar að meta hverju hún mælir með í þessu efni en þeir sem að málinu hafa komið hafa mjög skoðað þetta atriði og mæla eindregið með því að þinglýsing verði sett sem kvöð fyrir húsaleigubótum, telja það mikið öryggi og það geti frekar girt fyrir málamyndagerninga. En þetta er vissulega félagsmálanefndar að skoða eins og önnur ákvæði frv.
    Ég vil víkja nokkrum orðum að því sem fram kom hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem ég verð að segja að eru nokkrir útúrsnúningar af hálfu þingmannsins. Hann talar um að það sem höfundar frv. setja fram á bls. 11 varðandi vaxtabæturnar, að með þeirri tilvitnun sem þar er þá sé raunverulega verið að hafna vaxtabótaleiðinni. Þetta eru náttúrlega ekkert annað en útúrsnúningar, hv. þm. Í grg. stendur: ,,Það fyrirkomulag sem nú er, einhæf aðstoð til íbúðarkaupenda í formi vaxtabóta, getur virkað sem hvati til ótímabærrar fjárfestingar. Þannig hefur fólk ráðist í íbúðarkaup án þess að hafa haft nægilegar forsendur til eigin sparnaðar og lent síðan í greiðsluvanda.`` Þetta er bara raunveruleikinn og staðreyndirnar sem við stöndum frammi fyrir. Málin eru einfaldlega þannig vaxin að við verðum að hafa valkosti á húsnæðismarkaðnum og ef við höfum ekki valkosti í formi t.d. leiguíbúða og nægilegs framboðs á þeim og húsaleigubóta, valkosti í félagslegu húsnæði, þá neyðist fólk kannski til þess að fara út í fjárfestingu sem það ræður ekki við. Ef við hefðum þennan möguleika varðandi skaplegan leigumarkað með húsaleigubótum þá er miklu frekar að það væri svigrúm fyrir leigjanda að mynda ákveðinn sparnað til þess að koma sér síðar upp eigin húsnæði.
    Mér finnst þingmaðurinn alls ekki færa rök fyrir því þegar hann heldur því fram og ber saman hvort skynsamlegra sé að hafa húsaleigubæturnar gegnum skattkerfið eða í því formi sem hér er lagt til, þ.e. að sveitarfélögin séu framkvæmdaraðilar, þá finnst mér þingmaðurinn ekki færa rök fyrir því þegar hann talar um að misnotkunarhættan sé meiri með þessari leið heldur en í gegnum skattkerfið.
    Ég er þeirrar skoðunar að ef eitthvað er þá sé það miklu affarasælla að hafa húsaleigubætur hjá sveitarfélögunum heldur en í skattkerfinu vegna þess í fyrsta lagi að eins og fram hefur komið þá eru sveitarfélögin þegar með inni í sínu kerfi ákveðna aðstoð fyrir leigjendur með lágar tekjur á almennum markaði. Því er mikilvægt til þess að hafa heildaryfirsýn yfir þetta að framkvæmdir séu þá hjá sveitarfélögunum varðandi þetta atriði. Það er tekjulægsta fólkið á markaðnum sem er í leiguhúsnæði, oft fólk sem þarf að leita til sveitarfélaganna með ákveðna aðstoð, t.d. fjárhagsstyrki vegna framfærslu. Síðan þarf að sækja um húsaleigubæturnar þannig að það er farið yfir hverja umsókn en þetta kemur ekki sjálfvirkt eins og í vaxtabótakerfinu. Hér vil ég taka fram að með þessu er ekki verið að segja að það standi til einhverjar breytingar á vaxtabótakerfinu, að hafa það í öðru formi heldur en gegnum skattkerfið, það er einfaldlega ekkert samhengi þarna á milli.
    Og af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um að þetta mundi auka útgjöld fyrir sveitarfélögin og þau mundu ekki losna við útgjöld sem þau hafa borið til þessa þá er hugmyndin á bak við þetta, og það hefur verið reiknað út af Sambandi ísl. sveitarfélaga, að það megi áætla að fjárhagsstyrkir sem nú renna frá sveitarfélögunum til leigjenda á almennum markaði með lágar tekjur séu um 240--250 millj. kr. Og það er það sem er áætlað að sveitarfélögin leggi fram til húsaleigubóta.
    Ég er alveg sannfærð um að þegar við erum að auka svona húsaleiguaðstoð í formi húsaleigubóta eins og gert er með þessu frv., við erum að setja til viðbótar þeim 240 millj. sem nú fara í þetta um 400 millj. þannig að fleiri eiga þarna möguleika, þá hygg ég að það komi í ljós að það geti dregið úr fjárhagsstyrk sem sveitarfélögin hafa lagt fram í mörgu skyni til tekjulágra hópa þannig að ég hygg að fjárhagsstyrkir sveitarfélaga sem eru nokkur hundruð milljónir, kannski 600--700 millj. á ári, að það gæti hugsanlega komið fram í minni þörf þar þegar við erum komin með víðtæka aðstoð í gegnum húsaleigubótakerfið.
    Mér fannst líka að þegar þingmaðurinn gagnrýndi í annarri setningunni að réttur leigjanda sé ekki skilyrðislaus samkvæmt frv. heldur sé það sveitarfélaganna að ákvarða það, þá stangaðist það á við það sem hann sagði á eftir þegar hann var að tala um að það væri gengið gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga varðandi ákvæði sem hann nefndi. Þingmaðurinn vísaði þar í 2. gr. frv. og síðan í 11. gr. þar sem félagsmálanefndir ákvarða bótarétt. 2. gr. kveður á um að það er sveitarstjórnin sjálf sem tekur ákvörðun um það fyrir tilskilinn tíma hvort hún greiði húsaleigubætur næstkomandi ár eða ekki. Síðan þegar sveitarstjórnin sjálf hefur tekið ákvörðun um það þá er það félagsmálanefnd viðkomandi sveitarfélags sem ákvarðar hverjir eigi bótarétt. Ég held að það sé eðlilegt fyrirkomulag að það sé með þeim hætti.
    Það hefur nokkuð verið fjallað hér um námsmenn og rétt þeirra til húsaleigubóta. Námsmenn eiga rétt samkvæmt þessu frv. til laga um húsaleigubætur. Hvaða áhrif húsaleigubæturnar hafa síðan á framfærsluna og útreikningana hjá Lánasjóði ísl. námsmanna verður bara að koma í ljós en þeirra réttur á að vera tryggður samkvæmt þessu. Ef það er svo varðandi námsmenn sem eiga lögheimili úti á landi en stunda nám annars staðar að vegna ákvæðanna um lögheimilisskylduna þá girði það fyrir að þeir námsmenn fái þessar húsaleigubætur, þá er það alls ekki meiningin. Ef svo er þá verður nefndin að skoða það þannig að jafnræðis sé gætt í því efni. Hitt er svo annað mál að það er vandamál sem hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir nefndi varðandi þá sem eiga íbúð úti á landi og þurfa að leigja annars staðar af því að það fara ekki saman vaxtabætur og húsaleigubætur.
    Varðandi niðurgreiðsluna í félagslegum íbúðum þá var nokkuð nefnt hvernig með það yrði farið. Það kom fram í mínu máli að nefndin skoðaði það og taldi rétt að stefna ætti að því að búa til eitt heildstætt kerfi þar sem m.a. leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga væru líka inni í því kerfi þannig að þetta yrði raunverulega þannig að niðurgreiðslan sem núna er hjá sveitarfélögunum yrði færð upp í kostnaðarleigu og síðan kæmu húsaleigubætur til þeirra sem væru innan tilskilinna tekjumarka. Ég hygg að það sé eðlilegt að stefna að því með þessum hætti en það var talið mjög erfitt að fá fullnægjandi upplýsingar frá sveitarfélögunum til þess að hægt væri að fella þetta inn í slíkt heildstætt kerfi. Ég hygg því að í þeirri endurskoðun laganna, ef þetta frv. verður að lögum, sem fram á að fara að tveimur árum liðnum eftir gildistöku laganna þá verði þetta atriði sérstaklega skoðað enda má segja að þeir sem eru í félagslegum íbúðum hjá sveitarfélögum fái sérstaklega niðurgreidda leigu. En ástæða þótti til að taka félagasamtök inn. Sveitarfélögin hafa ákveðnar skyldur gagnvart sínum íbúum varðandi húsnæðismál sem félagasamtök hafa ekki. Þau hafa minni tök á að greiða niður leiguna þannig að það þótti rétt að félagasamtök, SEM-samtökin, Öryrkjabandalagið og fleiri aðilar sem leigja sínum skjólstæðingum íbúð, ættu möguleika á húsaleigubótum.
    Ýmis atriði sem hér hafa verið nefnd varðandi framkvæmdina um að skilyrði sé sex mánaða leiga, ákvæðin sem gilda varðandi skilgreiningu á hvað sé íbúðarhúsnæði, þetta verða væntanlega atriði sem nefndin mun skoða sem fær málið til umfjöllunar. Ég nefndi þetta nokkuð í mínu máli í gær að ég tel að það ákvæði í húsaleigulögunum sem kveður á um sex mánaða uppsagnarfrest ótímabundinna samninga ætti að nægja til þess að það væri ekki verið að girða fyrir húsaleigubótarétt gagnvart leigjendum með ótímabundna samninga. Eins varðandi skilgreiningu á því hvað sé íbúðarhúsnæði, þá var nokkuð leitað í smiðju í sænsku lögin varðandi þetta atriði sem hafa búið við húsaleigubætur um margra áratuga skeið og þar hefur þótt ástæða til þess að hafa nákvæma skilgreiningu á því hvað telst til íbúðarhúsnæðis og var nokkuð skoðað það atriði til fyrirmyndar en væntanlega mun nefndin skoða þetta einnig.
    Virðulegi forseti. Í lokin þá var skattlagning húsaleigubóta nokkuð nefnd. Um það var virkilega fjallað í félmrn. og fjmrn. og hjá þeim aðilum sem að þessu máli koma. Um þetta voru skiptar skoðanir, þetta var niðurstaðan, að hækka húsaleigubæturnar, húsaleigustyrkina fremur heldur en að hafa þetta skattfrjálsa og var m.a. vitnað til þess að almennt eru fjárhagsaðstoð og fjárhagsstyrkir sveitarfélaga, þó vissulega megi um það deila, skattskyldir. En þetta varð niðurstaðan en þó með þeirri mikilvægu undantekningu að húsaleigubætur skerða ekki bætur úr tryggingakerfinu. Einnig var útkoman sú að með þessari leið komu þeir hópar betur út sem lægstar hafa tekjurnar, eru undir skattfrelsismörkunum og greiða ekki skatt, þeir komu betur út úr þessu heldur en áður þannig að það eru ýmis sjónarmið í þessu efni.
    Virðulegi forseti. Í lokin vil ég segja að þó að ég geri mér grein fyrir því að nefndin hafi stuttan tíma til að fjalla um þetta mál þá vænti ég þess að hægt verði að gera þetta frv. að lögum fyrir þinglok.