Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:22:44 (5999)


[12:22]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þegar að er gáð í þessu frv. er um ákaflega óvenjulega lagasetningu að ræða hvað varðar réttindamál. Það er farið að skipta landinu upp í sveitarfélög varðandi réttindi til þeirra bóta sem á að fara að lögfesta. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti sem menn fara þá leiðina. Það má vel vera að Samband ísl. sveitarfélaga vilji hafa það þannig að Ísland sé ekki eitt ríki gagnvart þegnunum heldur 200. En er ástæða fyrir félmrh. í ríkisstjórn Íslands til þess að fara að þeim skoðunum? Eða með hvaða rökum flytur ráðherra málið með þessum hætti en ekki eins og hún segist sjálf vilja hafa haft það? Er það með þeim rökum að það var ekki stuðningur við það meðal stjórnarþingmanna að við byggjum hvað þetta varðar allir í sama landi?
    Ég vara mjög við lagasetningu af þessu tagi þar sem menn eru af einhverjum pólitískum ástæðum að ákvarða réttindi manna eða bótarétt manna, hvort sem það eru húsaleigubætur, það geta verið atvinnuleysisbætur eða eitthvað annað, að menn fari að tengja þau réttindi við lögheimili og ákvörðun sveitarstjórna. Ef ríkisvaldið er þeirrar skoðunar, eins og kemur fram af því að það flytur þetta frv., að svona eigi að vera, þá er orðið illt í efni. Þá er orðið illt í efni, segi ég. Þá á ríkisvaldið bara að leggja til að

sveitarfélögin taki við þessu verkefni en ekki að vera sjálft að grautast með það ef það treystir sér ekki til þess sjálft að leysa úr því þannig að jafnræðis sé gætt með þegnunum.
    Þetta ákvæði er alveg ótækt og ég hef fremur styrkst í þeirri skoðun minni sem ég tæpti á hér áðan að menn ættu fremur að skoða alvarlega að fara þá leið að tengja réttindi af þessu tagi við álagningu skatta eins og menn gera hvað varðar vaxtabætur.
    Ég vil vitna til bls. 6 í grg. til að svara þeirri gagnrýni hæstv. ráðherra að ekki hafi verið færð rök fyrir þeirri skoðun sem ég setti fram að hætta væri á meiri misnotkun á húsnæðisbótaleiðinni en vaxtabótaleiðinni. Ég vil bara vitna í grg. með frv. sjálfu og láta hana tala sínu máli. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Við athugun nefndarinnar á því hvaða leiðir kæmu helst til álita við að koma á laggirnar sérstökum húsaleigubótum til handa leigjendum voru einkum tveir kostir taldir álitlegir. Annars vegar að húsaleigubætur verði greiddar með áþekkum hætti og vaxtabætur, þ.e. í gegnum skattkerfið. Hins vegar sá möguleiki að fela sveitarfélögum framkvæmdina m.a. vegna þeirrar reynslu sem þau hafa af greiðslu húsaleigustyrkja og lána til fyrirframgreiðslu á húsaleigu innan félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Nefndin athugaði þann möguleika að jafna húsnæðiskostnað leigjenda fyrir milligöngu skattkerfisins með svipuðum hætti og íbúðareigendur fá vaxtabætur. Sú aðferð felur í sér að greiðsla bótanna til leigjenda kæmi óhjákvæmilega mun seinna en greiðsla leigunnar. Til að húsaleigubætur nái markmið sínu er nauðsynlegt að útborgun þeirra falli sem næst leigugreiðslunni. Að öðrum kosti þurfa leigjendur e.t.v. að taka lán út á væntanlegar bætur sem getur verið erfitt viðureignar og kostnaðarsamt.``
    Þessi röksemdafærsla er í frv. sjálfu. Ef menn taka hana góða og gilda þá eru menn með þessari sömu röksemdafærslu að hafna vaxtabótaleiðinni í gegnum skattkerfið vegna þess tímamunar sem er á greiðslu vaxta og endurgreiðslu vaxtabóta. Um þetta segir í grg. með frv. að þessi tímatöf á útgreiðslu þess sem á að fá bæturnar og sá tími sem líður þar til hann fær þær endurgreiddar sé sá galli sem verði til þess að menn hafna þessari leið en velji að borga húsaleigubæturnar með öðrum hætti þannig að þær geti komið fyrr. Og þá velja menn sveitarfélagaleið sem er svo aftur sérafbrigði. Þannig er í frv. ráðherrans sjálfs allur sá rökstuðningur sem ráðherra kvartaði yfir að væri ekki fyrir hendi gegn þessari leið.
    Megingagnrýni mín snýr að því að fara með þetta yfir í sveitarfélögin, ég gerði það í fyrri ræðu minni og að hluta til núna aftur, en ég ítreka það að ef menn fara svo með málið til sveitarfélaganna, hvort sem ég er sammála því eða ekki, auðvitað geta menn gert það, þá eiga menn að fylgja almennum reglum og stefnu um sjálfstæði sveitarfélaga um ákvörðun í eigin málum þegar menn eru búnir að ákveða að þetta eigi að vera málefni sveitarfélagsins. Þá á ríkið ekki eða einhver undirnefnd sveitarstjórnarinnar að ákvarða hlutina. Það er meginreglan að ákvörðunarvaldið eigi að liggja í sveitarstjórninni sjálfri og það er ekki hægt að ganga gegn því. Þess vegna er gagnrýni mín fram komin að ef menn á annað borð ætla að gera þetta að verkefni sveitarfélagsins þá á sveitarfélagið að hafa vald á verkefninu, sveitarstjórnin sem ræður sveitarfélaginu en ekki undirnefnd sveitarstjórnarinnar og ekki félmrh. En frv. er þannig samið að sveitarstjórnin hefur bara ákvörðun um það hvort það eigi að greiða bætur eða ekki en að öðru leyti liggur ákvörðunarvaldið um meðferð málsins og ákvörðun einstakra þátta þess í höndum annarra aðila en sveitarstjórnarinnar, þ.e. félagsmálanefndarinnar og félmrh. en ekki sveitarstjórnarinnar. Þetta tel ég gagnrýnivert.
    Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherra að það sé ekki meiningin að menn hafi rétt til húsaleigubóta af námsmönnum þegar svo stendur á að þeir stunda nám annars staðar en í sinni heimabyggð en þá þarf líka að breyta greininni svo að það verði ekki niðurstaðan.
    Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir benti á einn galla málsins að setja það svona upp í gegnum sveitarstjórnirnar eða sveitarfélögin að það tryggir ekki rétt námsmannsins til bótanna vegna þess að það er háð ákvörðun sveitarstjórnarinnar hvort bætur eru greiddar eða ekki greiddar. Þá eru menn ekki að tala um réttindamál heldur skilyrt réttindamál óháð efnum og ástæðum en það er auðvitað grundvöllur þess að menn grípa til jöfnunaraðgerða að menn eru að vigta það út frá efnum og ástæðum. Nýjungin sem hæstv. félmrh. kemur með inn í þingið og virðist vera einhver málamiðlun milli Sjálfstfl. og Alþfl. er að menn ætla ekki lengur að einskorða réttindamál við efni og ástæður eins og verið hefur heldur við búsetu líka eða ákvörðun sveitarstjórnar. Þetta er alveg fáheyrt og að mínu viti ótrúleg vitleysa sem ætti ekki að eiga sér stað að þingið gleptist inn á að samþykkja.
    Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga að sinni, það er svo sem margt hægt að segja um þetta frv. en það gefst tækifæri til þess síðar eftir meðferð málsins í nefnd og vonandi lítur það þá betur út en það gerir núna.