Alþjóðasamþykktin um öryggi fiskiskipa

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:33:03 (6000)

[12:33]
     Viðskiptaráðherra ( Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Með þáltill. sem hér um ræðir er þess farið á leit að hv. Alþingi heimili fullgildingu Torremolinos-bókunarinnar frá 2. apríl 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa frá 1977.
    Torremolinos-alþjóðsamþykktin var fullgilt fyrir Íslands hönd árið 1986 en hefur enn ekki öðlast gildi aðallega vegna þess að ýmis ákvæði samþykktarinnar voru of ströng til að sum ríki með stóran fiskveiðiflota gætu fullgilt hana. Sl. fjögur ár hefur á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verið unnið að breytingum á samþykktinni með það að markmiði að hún gæti öðlast gildi innan mjög skamms tíma. Bókunin sem hér um ræðir var samþykkt á alþjóðaráðstefnu sem haldin var í Torremolinos á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
    Alþjóðasamþykktin er sú fyrsta sem fjallar sérstaklega um öryggi fiskiskipa. Hún fjallar um kröfur varðandi hönnun, smíði og búnað nýrra þilfarsfiskiskipa sem eru 24 m að lengd og lengri, einnig um skip sem vinna eigin afla. Bókunin nær ekki til eldri skipa, nema að því er varðar neyðaráætlanir, siglingatæki og fjarskiptabúnað þeirra, þar á meðal fjarskiptabúnað sem er hluti af björgunarbúnaði.
    Aðalbreytingarnar eru þær að IV., V., VII. og IX. kafli gilda fyrir fiskiskip sem eru 45 m að lengd og lengri í stað fiskiskipa 24 m og lengri.
    Nýmæli er að skv. 5. tölul. 3. gr. er gert ráð fyrir að ríki, sem liggja að ákveðnum hafsvæðum, geri með sér svæðisbundið samkomulag um samræmdar lágmarkskröfur fyrir fiskiskip sem eru 24 m að lengd og lengri, en styttri en sem nemur þeirri lengd sem gildissvið IV., V., VII. og IX. kafla nær til.
    Bókunin mun öðlast gildi 12 mánuðum frá þeim degi er eigi færri en 15 ríki hafa fullgilt hana enda ráði þau sameiginlega yfir a.m.k. 14.000 fiskiskipum sem eru 24 m að lengd og lengri sem er u.þ.b. 50% af fiskiskipastóli heimsins. Flest ákvæði þessara bókunar hafa nú þegar verið sett inn í íslenskar reglur fyrir skip, t.d. reglur um stöðugleika og öryggi fiskiskipa. Nýjar íslenskra reglur um loftskeytabúnað skipa verða gefnar út á næstunni en þær eru að verulegu leyti byggðar á hinum alþjóðlega staðli um þráðlaus fjarskipti.
    Loks má geta þess að verið er að endurskoða reglur um vélbúnað og eldvarnir í fiskiskipum.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.