Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 14:20:01 (6030)


[14:20]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 841 um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við samninginn frá 2. maí 1992, um Evrópska efnahagssvæðið.
    ( Forseti (SalÞ) : Má biðja um hljóð í salnum?)
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var samþykkt í Brussel 21. mars 1994. EES-samningurinn tók gildi eins og kunnugt er þann 1. jan. 1994. Í viðaukum við samninginn voru þær EES-gerðir sem tekið höfðu gildi fyrir 1. ágúst 1991 og samið hafði verið um að ná skyldi til alls efnahagssvæðisins. Allt frá upphafi hefur verið ljóst að til þess að ná markmiði samningsins þyrfti stöðugt að halda við því samræmingarstarfi sem hófst með EES-samningnum og tryggja samræmdar reglur á efnahagssvæðinu með viðeigandi breytingum og viðbótum.
    Við gildistöku EES-samningsins skapaðist tækifæri EFTA-ríkja til þátttöku í mótun nýrra ákvarðana á öllu EES-svæðinu en sérstaklega verður að taka á þeim textum sem samþykktir hafa verið frá 1. ágúst 1991 fram að gildistöku EES-samningsins 1. jan. 1994, þ.e. svokallaðan viðbótarpakka milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins. Með þessari þáltill. er verið að leita eftir samþykki Alþingis til að heimila ríkisstjórninni að fullgilda umræddan viðbótarpakka sem taka á gildi samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þann 1. júlí nk.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var fullgiltur með heimild í lögum nr. 2/1993. Þær gerðir sem eru í viðbótarpakkanum fela ekki í sér breytingu á þeim meginreglum sem í samningnum felast. Um tveir þriðju hlutar gerðanna varða vöruviðskipti. Flestar snerta þær breytingar og viðbætur vegna

reglugerða og tilskipana um heilbrigði dýra og plantna annars vegar og tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottorð hins vegar. Ísland hefur undanþágu frá samræmingu reglna um heilbrigði dýra. Aðrir textar sem vöruviðskipti varða fjalla um upprunareglur, ríkisaðstoð, opinber útboð og viðurkenningu höfundarréttar.
    Þær gerðir er varða þjónustu og fjármagnsviðskipti sem féllu undir EES-samninginn við gildistöku hans tryggðu staðfesturéttinn og settu grundvallarreglur fyrir þjónustustarfsemi á mörkuðum EES. Fyrir flesta þætti þjónustuviðskipta næst fullur markaðsaðgangur fyrst með viðbótarpakkanum. Þær reglur viðbótarpakkans sem fjalla um frjálsa för launafólks hafa að geyma löggjöf sem ætlað er að styrkja hinn sameiginlega vinnumarkað. Þar má helst nefna viðbótarreglur um samstarf á sviði almannatrygginga, gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina og starfsvottorða fyrir þá hópa sem ekki hafa langskólanám að baki. Markmið þessara reglna er að greiða götu launafólks og þeirra sem starfa á eigin vegum.
    Í flestum tilvikum er um að ræða gerðir sem fela í sér einfaldar, efnislegar breytingar á eldri gerðum. Mikilvægasta undantekningin frá þessu er tilskipun frá 1992 sem felur í sér gagnkvæma viðurkenningu á fleiri tegundum starfsréttinda en hingað til. Í tengslum við þessa tilskipun stóðu Ísland og ESB að sameiginlegri yfirlýsingu varðandi störf í byggingariðnaði á Íslandi. Í yfirlýsingunni er m.a. kveðið á um að farandlaunþegar í byggingariðnaði sem starfa á Íslandi verði að fullnægja kröfum íslenskrar byggingarreglugerðar og brot á þeim reglugerðum geti leitt til þess að beitt verði viðurlögum innan greinarinnar og/eða refsiákvæðum.
    Hvað varðar svokölluð jaðarmálefni eru nýjar gerðir í viðbótarpakkanum helst á sviði umhverfismála, félagsmála og hagsýslugerðar. Á sviði félagsmála má nefna að EFTA-ríkjunum býðst að taka þátt í nýju samstarfsverkefni um aldraða og stöðu þeirra. Þá er í pakkanum að finna gerðir sem miða að því að bæta öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Á sviðum umhverfismála hafa verið samþykktar mikilvægar gerðir er fjalla um eftirlit með flutningi á hættulegum úrgangi og takmörkun hávaða frá ákveðnum flugvélategundum. Með EES-samningnum opnuðust EFTAríkjunum möguleikar til þess að taka þátt í margvíslegum áætlunum ESB og í viðbótarpakkanum er að finna nýja áætlun sem miðar að því að bæta viðskiptaumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og samkeppnisaðstöðu þeirra á svæðinu.
    Ferðamál eru mikið til umræðu hér á landi og í viðbótarpakkanum opnast í fyrsta skipti möguleiki fyrir Íslendinga til að taka þátt í ferðamálaáætlun bandalagsins. Hún miðast aðallega við óhefðbundna ferðaþjónustu, þ.e. vistvæna ferðaþjónustu og ferðaþjónustu í sveitum. Ávörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. mars sl. ásamt 20 viðaukum við hana er birt sem fskj. með þáltill. Þær gerðir sem vísað er til í ákvörðuninni eru síðan prentaðar í fylgiriti sem dreift hefur verið á borð þingmanna. Í athugasemdum við þáltill. er ítarlegt yfirlit yfir efnisþætti viðbótarpakkans og vísast til þess.
    Mér er kunnugt um að utanrmn. hefur undirbúið sína umfjöllun með því að fara yfir þessi efnisatriði fyrir fram þó að þau séu fyrst nú lögð fram og rædd á Alþingi. Mér er einnig kunnugt um að utanrmn. hefur boðað fulltrúa ýmissa hagsmunaaðila fyrir sig og rætt við þá til undirbúnings þessari afgreiðslu.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að í þessum viðbótarpakka er verið að færa Íslendingum aukin réttindi og aukna möguleika sem EES-samningurinn að viðbótarpakkanum frátöldum færir þeim ekki einn út af fyrir sig. Ég leyfi mér því að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.