Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 14:27:07 (6031)


[14:27]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hefði að sjálfsögðu verið heppilegra ef hæstv. utanrrh. hefði mælt fyrir þessu máli og eðlilegra og að honum er mikill sjónarsviptir en hann er ekki ómissandi svo að ég felli mig við það að hæstv. iðnrh. mæli fyrir þessari tillögu. Þetta er að vísu fremur yfirlætislaus tillaga. Hún hljóðar svona:
    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við samning frá 2. maí 1992 um Evrópska efnahagssvæðið sem samþykkt var í Brussel 21. mars 1994.``
    Þetta var tillgr., frú forseti.
    Svo óheppilega vill til að það er ekki um annað að ræða fljótt á litið en samþykkja þessa tillögu. Það er nýlunda hér á Alþingi að við verðum að samþykkja svona gerning og fáum engu orði hnikað. Að vísu segir frá því í 2. gr. stjórnarskrárinnar að löggjafarvaldið skuli vera hjá Alþingi og það er ekki í samræmi við það sem hér er að gerast þar sem Alþingi hefur bundnar hendur í þessu máli. Þetta var umræðuefni og ágreiningsefni hér í fyrra og ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. En mér sýnist að þessi gerningur taki af öll tvímæli um það að við sem töldum að hér væri ekki farið eftir íslenskri stjórnarskrá höfðum rétt fyrir okkur.
    Hvað er svo verið að samþykkja? Það er verið að samþykkja tilskipanir frá Brussel útgefnar á tímabilinu 1. ágúst 1991 til 1. jan. 1994, um það bil 500 að tölu. Þar af a.m.k. 416 bindandi. Við fengum fyrst í gær texta að hluta af þessum tilskipunum. Þessir textar sem bornir voru á borðin okkar í gær þekja um það bil 2.500 blaðsíður. Enn eigum við eftir að fá væntanlega um 500 blaðsíður þannig að þetta eru um

3.000 blaðsíður að magni og við verðum að samþykkja þetta bindandi. Það er ekki nóg með það. Við eigum enn eftir að hrinda í framkvæmd eða fullgilda um 80 tilskipanir frá gamalli tíð sem við samþykktum að undirgangast með lögum nr. 2/1993, þ.e. þegar við samþykktum EES-samninginn. Þær eru margvíslegs efnis, t.d. um dráttarvélar og útbúnað þeirra, margar um dráttarvélar. Og mér varð nú hugsað til traktoranna minna á Höllustöðum, að eitthvað muni þeim vera áfátt ef þessar tilskipanir eru allar komnar í gildi. En svo vill til að við höfum lögreglulið úti í Brussel sem er að passa okkur, þ.e. eftirlitsstofnun EFTA sem á að gæta þess að EFTA-ríkin fari eftir tilskipunum. Hún hefur kvartað og bent okkur á að flýta okkur að fullgilda þessar tilskipanir eða koma þeim í framkvæmd. Þetta hundrað manna lögreglulið, sem EFTA-ríkin hafa sett á stofn þarna úti í Brussel til að passa sjálf sig og kostar 1 milljarð á ári að reka, á að sjá um það að við stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart Evrópusameiningunni. Í þessu 100 manna lögregluliði eru 11 Íslendingar og einn af lögreglustjórunum er Björn Friðfinnsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri. Þeir gera ýmislegt annað þarna úti en passa okkur því sumir þeirra eru býsnir iðnir við að senda blaðagreinar í Morgunblaðið þar sem þeir benda á nauðsyn þess að innlima Ísland í Evrópusameininguna í framtíðinni. Þar fyrir utan höfum við EFTA-dómstól sem á þá að skera úr ef mál eru rekin svo langt og veita forúrskurði. Þar er kominn einn af fjórmenningum hæstv. utanrrh. sem gaf út umdeilanlegt álit í fyrra um það að EES-samningurinn sneiddi ekki að stjórnarskránni nema þá að mjög litlu leyti á afmörkuðum sviðum. Hér á ég við prófessor dr. Þór Vilhjálmsson sem nú er kominn á Evrópskt efnahagssvæði og er einn af dómendum í þessum dómstóli.
    Ég vil láta þess getið að Íslendingar hafa hvergi komið að undirbúningi þessara 500 tilskipana sem við erum að fjalla um í dag. Það er að vísu að komast á fót fremur vanmáttugt apparat, sameiginleg þingmannanefnd Evrópusambandsins og EFTA sem á að fá að fylgjast með í framtíðinni og frétta af undirbúningi svona tilskipana en eins og kunnugt er þá eru þingmenn valdalitlir í evrópsku samstarfi og það eru fyrst og fremst kontóristarnir sem ákveða hvað þarna er gert.
    Hvað felst svo í þessum tilskipunum sem við erum að fjalla um? Nú veit ég ekki, hvort hv. alþm. hafa verið svo hraðlæsir í nótt að þeir hafi lesið þessar 2.500 blaðsíður sem þeim voru færðar í gær og ég veit ekki hvort þeir eru alveg orðnir heima í því hvað í þeim felst. Ég er það a.m.k. ekki en mér sýnist að það megi skipta þeim í nokkra flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða sjálfsagða hluti sem við mundum ekki fara að gera neitt veður út af og eru reyndar margir komnir hér þegar til framkvæmda. Ég nefni af handahófi dæmi, t.d. eins og það, frú forseti, að ,,salerni karla og kvenna skuli vera aðskilin eða notkun þeirra aðskilin``. Þetta tel ég vera alveg sjálfsagt mál, enda er það tíðkanlegt hér á Íslandi og hefur verið nokkuð lengi, a.m.k. að notkunin sé aðskilin, þ.e. fólk fari á salerni hvort í sínu lagi. Þetta heyrir undir dæmi um sjálfsagða hluti sem hagkvæmt er að hafa í heiðri. Síðan eru atriði sem eru óþarfi, ég vil ekki segja tittlingaskítur eins og ráðherrarnir segja, en bera vott um smásmygli, geta þó verið til óþæginda í vissum tilfellum. Ég nefni sem dæmi úr stjórnartíðundunum. Þar er fjallað um lágmarkskröfur um öryggi og hollustu eins og um getur í 10. gr. þessarar tilskipunar. Það eru sameiginlegar lágmarkskröfur sem gilda um vinnustaði á landi og hafi úti. ( Gripið fram í: Á hvaða blaðsíðu er þetta?) Þetta er á blaðsíðu 378 í bók 5. Þar segir:
    ,,Er starfsmenn vinna utan húss skal vinnustöðin eins og kostur er skipulögð á þann hátt að:
    a. þeir séu í skjóli fyrir veðrum og ef með þarf varðir fyrir hlutum sem falla, . . . ``
    Ég hygg nú að hér á Íslandi sé erfitt að fullnægja þessu með skjólið fyrir veðrum í öllum tilfellum. D-liðurinn er um það að þess er krafist að ekki sé ,,hætta á að starfsmennirnir renni til eða detti``. Í lið 3.3 segir:
    ,,Þegar starfsmenn eru staddir á vinnustöðum sem ekki eru venjulega mannaðir skal koma fyrir viðeigandi samskiptakerfum til nota fyrir þá.``
    Ég veit ekki hvernig ég á að fara með fjárhúsin, hvort við erum að undirgangast að setja síma í fjárhúsin eða hvort dugir að útbúa starfsmenn með talstöð.
    Síðan eru í þessu tæknilegar viðskiptahindranir sem settar eru upp til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja í Evrópubandalaginu gagnvart fyrirtækjum utan Evrópusameiningarinnar og í fjórða lagi er verið að setja hér upp tæki til hagræðingar fyrir auðhringa í Evrópu. Ég vitna til þskj. á bls. 5. Þar segir um viðauka XIV, um samkeppni og ég vitna orðrétt í þskj.:
    ,,Með reglugerð er stórfyrirtækjum gefið meira svigrúm til samráðs til að auðvelda hagræðingu við framleiðslu, nýtingu niðurstaðna úr sameiginlegum rannsóknum og við þróun og útbreiðslu tækniþekkingar.``
    Einhvern tíma vorum við að tala um hringamyndun en hér sýnist mér að sé unnið í nokkuð aðra átt.
    Í utanrmn. hefur farið fram töluverð vinna um þetta verkefni og fjölmargir aðilar hafa verið kvaddir á fund nefndarinnar til þess að lýsa verkefninu og kynna fyrir nefndarmönnum hvað felist í þessum tilskipunum. Betra hefði verið að hafa bækurnar 6 við höndina og texta tilskipananna. Þá hefðum við getað spurt markvissar heldur en við gerðum. Við höfum einungis upptalningu, heiti tilskipananna, og urðum að reiða okkur á það sem okkur var sagt.
    Í þeim ágæta hópi sem hitti okkur var mikið mannval og ég vildi, frú forseti, fá leyfi til að víkja að borði mínu og sækja tilheyrandi gagn. Í þessu mikla mannvali var lið sem kom og fræddi okkur. Á fund

utanrmn. hafa komið allmargir gestir og þessi mál hafa verið þar til meðferðar síðan 21. febr. og mig langar, með leyfi hæstv. forseta, til að nefna þá gesti sem til nefndarinnar komu vegna þess að á þá höfum við orðið að reiða okkur. Það er í fyrsta lagi Erlendur Lárusson frá Tryggingaeftirlitinu sem fjallaði um tryggingamál. Fram kom að öll þau atriði sem breyta þarf í íslenskum lögum vegna viðbótarpakkans á þessu sviði eru þegar í frv. sem liggur fyrir Alþingi. Ragnhildur Hjaltadóttir frá samgrn. fjallaði um samgöngumál. Fram kom að það er ekkert í viðbótarpakkanum sem varðar flug og siglingar sem kallar á lagasetningu. Varðandi landflutninga þarf hins vegar lagasetningu t.d. varðandi fjárhagskröfur flutningafyrirtækja. Finnur Sveinbjörnsson frá viðskrn. fjallaði um fjármagnsviðskipti. Fram kom að á bankasviðinu kallar viðbótarpakkinn ekki á lagasetningu. Gera þarf hins vegar breytingar á lögum nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti og verður frv. lagt fram næsta haust. Dögg Pálsdóttir frá heilbr.- og trmrn. fjallaði um almannatryggingar. Fram kom að viðbótarpakkinn kallar ekki á lagabreytingar. Gunnar Sigurðsson frá félmrn. fjallaði um frelsi launþega til flutninga. Fram kom að gert er ráð fyrir breyttum lögum um atvinnu- og búseturéttindi. Aðalheiður Jóhannsdóttir frá Náttúruverndarráði og Þórir Ibsen frá umhvrn. fjölluðu um umhverfismál. Fram kom að til óverulegrar lagabreytingar þyrfti að koma vegna viðbótarpakkans. Gylfi Kristinsson frá félmrn. fjallaði um vinnurétt og öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Fram kom að breyta þarf lögum um hópuppsagnir. Hörður Lárusson frá menntmrn. fjallaði um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Fram kom að gera þarf breytingar á lögum um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun sem samþykkt voru á síðasta þingi. Sólrún Jensdóttir frá menntmrn. fjallaði um jaðarmálefni. Fram kom að ekkert í viðbótarpakkanum á þessu sviði kallar á lagasetningu. Gunnar Sigurðsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins fjallaði um fóður, sáðvörur og áburð. Fram kom að þegar liggur fyrir þinginu frv. er varðar þetta svið. Sverrir Júlíusson og Þórunn Erhardsdóttir frá iðnrn. fjölluðu um tæknilegar viðskiptahindranir. Fram kom að setja þarf lög um öryggi framleiðsluvöru eða almennt vöruöryggi og frv. um það efni liggur hjá stjórnarflokkunum. Áslaug Guðjónsdóttir frá fjmrn. og Ásgeir Jóhannesson frá Ríkiskaupum fjölluðu um tóbak, áfengi, ríkisaðstoð og opinber innkaup. Fram kom að líklega verður engin þörf á lagasetningu. Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir fjallaði um atriði er varðar dýr. Jón Gíslason og Ástríður Sigurðardóttir frá Hollustuvernd ríkisins fjölluðu um matvæli, hættuleg efni og snyrtivörur. Eyjólfur Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins fjallaði um gastæki, þrýstihylki, persónuhlífar, vélar og sprengiefni til almennra nota. Sigurður Axelsson og Gísli H. Friðgeirsson frá Löggildingarstofunni fjölluðu um mælitæki og fram kom að ekki er þörf á sérstakri lagasetningu. Georg Ólafsson frá Samkeppnisstofnun fjallaði um samkeppnisreglur. Fram kom að ekki er þörf á lagasetningu. Ásta Valdimarsdóttir frá iðn.- og viðskrn. fjallaði um hugverkaréttindi. Fram kom að ef nýr GATT-samningur tekur gildi fyrr en áætlað er þarf að gera lagabreytingu. Ólafur Walter Stefánsson og Guðni Karlsson frá dómsmrn. fjölluðu um vélknúin ökutæki og töldu að ekki þyrfti að koma til lagabreytingar. Einar Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir frá heilbr.- og trmrn. fjölluðu um lækningatæki. Fram kom að það EES-frv. sem nú liggur fyrir þinginu nær yfir allar þær breytingar sem viðbótarpakkinn kallar á. Bergur Jónsson frá Rafmagnseftirliti ríkisins fjallar um heimilistæki og rafmagnsvörur.
    Nú hef ég lesið listann um þá sem komu til utanrmn. á fund og því gerði ég það, frú forseti, að við verðum að reiða okkur talsvert mikið á þetta fólk og það ber verulega ábyrgð á afgreiðslu þessa máls og það er fullkomin ástæða til þess að festa nafn þess í Alþingistíðindum. Sumt af þessu fólki skildi eftir minnisblöð og það er ekki tækifæri til að fara ítarlega yfir þau en það er hins vegar alveg ljóst að það er verulegur kostnaður fyrir þjóðfélagið í því fólginn að yfirtaka eða öllu heldur ætti ég að segja að láta yfir sig ganga þessar tilskipanir.
    Ég nefni t.d. lækningatæki. Það kom fram á fundi utanrmn. að heildarverðmæti lækningatækja á spítölunum er í kringum 2,7 milljarðar. Jafnframt var þess getið að verulegur hluti þeirra uppfyllti ekki þessa staðla. Nú er ég ekki með upplýsingar um hvort það þarf ný tæki fyrir 1 milljarð eða 2 milljarða eða einhvers staðar þar á milli en endurnýjun þeirra hefur í för með sér verulegan kostnað. Eitthvað af þessu er sjálfsagt úrelt og þarf að endurnýja hvort sem er en sumt af því er vafalaust þannig til komið að framleiðendur lækningatækja í Evrópu eru að tryggja markað fyrir sín tæki og koma þeim í gagnið á Evrópsku efnahagssvæði.
    Ég drep á þetta hér vegna þess að þetta var ekki með í umræðunni í fyrravetur þegar við deildum sem mest um ágóðann af því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Lyfjalög taka verulegum breytingum og það alls ekki að öllu leyti til bölvunar. T.d. þarf að uppfylla þar ýmis skilyrði. Ég nefni t.d. atriði hvað varðar auglýsingu og kynningu á lyfjum. Samkvæmt þessu eru mútur lyfjafyrirtækjanna til lækna ekki lengur heimilar og þeir mega í mesta lagi gefa læknunum penna. Íslenskir læknar geta ekki legið í heimsreisum á kostnað lyfjafyrirtækja lengur því að það brýtur í bága við góða hætti og gott siðferði á Evrópsku efnahagssvæði. E.t.v. kemur þetta illa við einhverja þeirra sem hafa ferðast hvað mest og setið hvað bestu veislurnar á undanförnum árum og áratugum, en þetta bindur að vissu leyti hendur lyfjafyrirtækjanna. Því hefur reyndar verið skotið að mér að það sé ekkert í þessum reglum sem banni lyfjafyrirtækjunum að leigja læknunum gott og þægilegt húsnæði undir lækningastofur þannig að e.t.v. geti þeir rétt hlut sinn í því efni.
    Mikið af þessu er um tæknilegar viðskiptahindranir sem settar eru upp til að veita framleiðslu á Evrópsku efnahagssvæði forgang fram yfir framleiðsluvörur annars staðar að. Það er nokkuð fróðlegt að

fylgjast t.d. með hvernig ökutæki eru meðhöndluð og það kemur tvímælalaust við almenning á Íslandi hvernig því er háttað. Nú er þetta allt með skýrum hætti og á fund nefndarinnar komu eins og ég sagði áðan sérfræðingar í umferðaröryggi og töldu að ekki þyrfti að breyta íslenskum lögum. Hins vegar þarf að breyta reglugerðum. Á Evrópsku efnahagssvæði eiga drullusokkar t.d., þ.e. aurhlífar, að vera fullkomnari en annars staðar og á tveggja hásinga bílum þarf að vera aurhlíf eða drullusokkur aftan við hverja hásingu sem tvímælalaust er til góða. Sumt af þessu held ég að sé nú kannski smásmygli og ekki ástæða til að gera mikið veður út af. En allt getur þetta orðið til þess að bílar, t.d. amerísir bílar, verði dýrari. T.d. var upplýst fyrir okkur að einungis þrjár gerðir af Ford-bílum uppfylli þessa staðla. Ef menn vilja kaupa t.d. Ford Econoline, sem er vinsæll og dýr bíll, þá þarf að breyta honum talsvert mikið til þess að hann passi inn á Evrópsku efnahagssvæði.
    Mig langar til að lesa, með leyfi forseta, til glöggvunar fyrir þingmenn ofurlitlar glefsur úr hvernig bílar eigi að vera útbúnir og tek ég þá á bls. 10 í bók 2 t.d. lið 4.7.1.1. Það er um tilgreint sæti: sæti fyrir ökumann og ysta farþega fram í.
    ,,Bæði fóta- og fótleggjasamstæður eru færðar fram á við þannig að fæturnir eru í eðlilegri stöðu á gólfinu milli stjórnfetlanna ef nauðsyn krefur. Ef unnt er skal vinstri fóturinn vera um það bil jafnlangt vinstra megin við miðjuplan 3 DH-búnaðarins og hægri fóturinn hægra megin. Hallamálið sem sannprófar þverstillingu 3 DH-búnaðarins er sett í lárétta stöðu með því að endurstilla sætisflötinn ef nauðsyn krefur eða með því að stilla fótleggja- og fótasamstæður aftur á bak. Lína í gegnum miðunartakka ,,H``-punktsins skal áfram vera hornrétt á lengdarmiðjuplan sætisins.``
    Síðan kemur 4.7.1.2. ,,Ef ekki er unnt að halda vinstri fótlegg samsíða hægri fótlegg og vinstri fótur hvílir ekki á grindinni skal færa vinstri fót þar til hann hvílir á grindinni. Miðunartakkarnir skulu áfram vera í beinni línu.`` Þetta er alveg auðskilið. Síðan kemur um tilgreint sæti: sæti fyrir ysta farþega aftur í. Þetta eru 4.7.2.
    ,,Í aftursætum eða aukasætum skal staðsetja fótleggina eins og framleiðandi tilgreinir. Ef fæturnir hvíla síðan á gólfflötum sem eru í mismikilli hæð er fóturinn sem fyrst snertir framsætið viðmiðunin og hinn fóturinn er hafður þannig að hallamælirinn sem mælir þverstillingu sætisbúnaðarins sé láréttur.``
    Og í 4.13 segir: ,,Koma skal í veg fyrir að 3 DH-búnaðurinn renni fram á sætispúðanum með því að halda í T-laga stöngina og
    a. færa bakflötinn að sætisbakinu;
    b. beita og sleppa til skiptis láréttu álagi aftur á bak sem ekki er meira en 25 N á bakhallastöngina í hæð sem samsvarar um það bil miðju bollóðanna þar til mjaðmahornskvaðrantinn sýnir að stöðugri stöðu hefur verið náð eftir að álaginu er sleppt. Þess skal vandlega gætt að engu ytra álagi niður á við eða hliðarálagi sé beitt á 3 DH-búnaðinn. Ef enn frekari hallastilling 3 DH-búnaðarins er nauðsynleg skal snúa bakfletinum fram, setja hann aftur í lárétta stöðu og endurtaka aðferðina frá lið 4.12.``
    Þetta er sjálfsagt nokkuð auðskilið fyrir flesta. Ég verð að viðurkenna að ég geri mér ekki alveg fulla grein fyrir því hvernig ég á að haga mér aftur í bíl og ekki einu sinni fram í. Ég ek með einhverju frjálslegra lagi en ég veit að það er hægt að færa lappirnar til sitt á hvað, bæði til hægri og vinstri og láta þær lenda á grindinni ef því er að skipta.
    Þetta á allt saman að hvetja til viðskipta okkar við Evrópu og binda okkur þannig viðskiptaböndum þangað og reyna að koma nokkuð í veg fyrir það að við séum að sullast út um allan heim með kaup á traktorum, bílum eða öðru og uppfyllum þessa staðla.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira. Þó er eitt atriði sem mér finnst vera umhugsunarvert. Ég sagði í upphafi máls míns að við hefðum enga aðra leið en að samþykkja þá gerninga blindandi, sem hér er verið að krefjast af okkur að uppfylla, en með tilliti til þess að framtíð EFTA er nokkuð óráðin og með tilliti til þess að Alþingi ákvarðaði samhljóða 5. maí í fyrravor að sækja eftir að gera viðskiptahlið EES-samningsins að tvíhliða viðskiptasamningi, þá kann að vera að það sé skynsamlegt fyrir okkur að láta okkur hægt um samþykkt þess arna og sjá hvernig fer fyrir EFTA. Það er ekki alveg víst að við séum tilneydd að taka allar þessar tilskipanir að okkur, a.m.k. vona ég að svo sé.
    Ég mun, frú forseti, láta máli mínu senn lokið. Um þetta mál væri hægt að tala mög langt mál og raunar er það ekki vansalaust að vera að afgreiða svona hluti á hundavaði, en ég ætla að láta þetta nægja í bili.