Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:24:12 (6042)


[15:24]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég lít ekki á almennar öryggiskröfur sem almennt eru viðurkenndar og byggjast á sérfræðilegum niðurstöðum sem viðskiptahindranir. Ég hneigist frekar að því að í þessum heimi sem við búum í, þar sem tækniframfarir eru mjög örar og auðvelt er að búa til tækjabúnað sem getur verið hættulegur og skaðlegur lífi manna, þá sé með þessum almennu reglum verið að gera mönnum kleift að nýta sér þessa tækni án þess að þeir þurfi að óttast um líf sitt og limi eða sína nánustu svo vikið sé sérstaklega að öryggi barna.
    En ég ætlaði ekki að gera hv. þm. upp þá skoðun að hann væri orðinn hlynntur EES-samningnum og mér dettur það ekki í hug en hins vegar erum við sammála um það að Alþingi tók pólitíska ákvörðun 5. maí sl. sem gerir það að verkum að um þetta mál eigi ekki að vera stórpólitískar deilur. Ég tók það fram, ég veit ekki hvort hv. þm. var í salnum eða ekki, og þakkaði einmitt gott samstarf í utanrmn. að þessu máli á undanförnum vikum og mánuðum sem ég taldi að byggðist á þessu pólitíska mati en ekki á því að andstæðingar samningsins hefðu áttað sig á gildi hans. En ég vona að þeir læri eins og aðrir að meta það sem gott er og þess verði ekki langt að bíða að hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsi því yfir að hann sé ánægður með þetta og telji að þetta hafi verið framfaraspor þótt hann hafi verið á móti því þegar það var stigið.