Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:28:10 (6044)


[15:28]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Þær flóknu reglur sem hv. þm. las hér um framleiðslu á bílum eiga ekki við nema við hefjum framleiðslu á bílum og þá vita menn að það mun kannski auðvelda fyrir því að við setjum hér upp bílasmiðjur að það er búið að ganga í gegnum þá vinnu fyrir okkar hönd að setja þessar reglur. Það hefur kannski staðið því fyrir þrifum hér að við hæfum bílasmíði, settum slíkt á fót, að við höfum ekki vitað samkvæmt hvaða reglum við ættum að starfa. Nú liggur það alveg ljóst fyrir. Hitt kom hins vegar fram í nefndinni að aðeins ein bílgerð frá Ameríku sem hingað er flutt stæðist þetta líklega ekki enn þá en það var að mig minnir einhver gerð af Chevrolet. Ég man ekki betur en allir aðrir bílar sem hingað eru fluttir stæðust þessar evrópsku kröfur enda hlýtur það að vera kappsmál bílasmiðjanna í Bandaríkjunum að haga framleiðslu sinni þannig að þeir geti selt bílana í Evrópu. Ef við hins vegar ætluðum að framleiða bíla samkvæmt bandarískum stöðlum þá tel ég að einnig muni verða unnt að lesa upp í íslenskri þýðingu mjög flóknar reglur um það hvernig að því skuli staðið samkvæmt reglum sem um það gilda í Detroit eða annars staðar í Bandaríkjunum. Að fara út í svona hártoganir varðandi þessi atriði --- þetta eru reglur sem verið er að setja svo að sömu reglur gildi á öllu þessu svæði. Í utanrmn. kom fram að það var aðeins varðandi einhverja gerð af Chevrolet sem þetta kynni að valda einhverjum erfiðleikum hér en að öðru leyti gætum við flutt inn alla þá bandarísku bíla sem við höfum verið að flytja inn til landsins. ( PP: Einungis þrjár týpur af Ford . . . )