Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:29:51 (6045)


[15:29]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þegar við ræðum um þessa þáltill. sem á að veita ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda viðbót og breytingu við EES-samninginn sem tekur yfir ekki færri en hátt í 500 gerðir sem svo eru kallaðar þá gefur það tilefni til þess að fara yfir þá aðstöðu sem Alþingi Íslendinga er búin í sambandi við aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þessi aðild var samþykkt sl. vor á Alþingi og Ísland er þjóðréttarlegur aðili að þessum samningi og bundin í löggjöf inn í gangverk hans. En það er vert að minnast þess að þessi samningur, svo bölvaður sem hann er, hefur þó í 127. gr. sinni ákvæði sem gerir aðilum að honum fært að segja samningnum upp. Það er auðvitað hægt að gera með ýmsum hætti. Ef menn meta það svo að fenginni reynslu og meiri hluti á Alþingi sér að sér í sambandi við aðild að þessu Evrópska efnahagssvæði eða hliðstæðri njörvun við Evrópusambandið þá er hægt að gera það með beinum hætti og formlegum en það er líka hægt að gera það með því að láta reyna á það hvort Alþingi tekur við ákvörðunum Evrópusambandsins, löggjöf þess og gerðum, samþykkir þær eða hafnar þeim. Ef það er gert þá kemur upp sú staða að það reynir á það hvort gagnaðilinn uni slíkri ákvörðun af hálfu Íslands, hvort Ísland með þeim hætti fer ekki út úr þessu samstarfi, verður óvært í samstarfinu. Það er hinn eini formlegi möguleiki sem Alþingi Íslendinga hefur til þess að andæfa gegn þeim ákvörðunum sem framkvæmdastjórnin í Brussel tekur, þeirri lagasetningu sem hún annast fyrir hönd Evrópusambandsins með samþykkt ráðherraráðs þess og það er einfaldlega að segja nei ef mönnum býður svo við að horfa.
    Ég vil ekki líta á það svo nú né eftirleiðis á meðan þessi samningur lifir. Af almennum ástæðum er það þátttaka aðildarríkja til að halda þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði uppi en ég lít svo á að Íslendingar hljóti á hverjum tíma að meta það og Alþingi Íslendinga hvort við eigum að losa okkur út úr þessu samstarfi, eigum við að segja okkur frá þessu samstarfi, svo sem samningurinn veitir heimildir til og að Alþingi láti ekki bjóða sér það að taka möglunarlaust og orðalaust við hverju sem er frá Evrópusambandinu sem er löggjafaraðilinn innan þessa samstarfs.
    Fátt er svo með öllu illt má segja og þessi pakki, sem hér er fram lagður og hefur verið kallaður EES-pakki II, segir mönnum nokkuð, sem ekki hafa sett sig til hlítar inn í gangverk þessa Evrópska

efnahagssvæðis, hvernig það virkar, hvernig ákvarðanir eru teknar og hver er aðstaða Íslands sem aðila að Evrópsku efnahagssvæði. Í rauninni er þetta ekki flókið því allt er þetta einhliða, allt er þetta á eina bók lært að því leyti að ákvörðunaraðilinn um nýjar gerðir, lög, reglugerðir, tilskipanir eða hvað við köllum þetta, einu nafni eru þetta kallaðar gerðir, ákvörðunaraðilinn um það er einn og aðeins einn --- þ.e. Evrópusambandið. Það breytir engu þó að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hafi tekið gildi að möguleikar EFTA-ríkjanna, einstakra ríkja og EFTA-ríkjanna í heild sinni til þess að hafna lagasetningu og koma í veg fyrir lagasetningu á vegum Evrópusambandsins er engin, er formlega séð engin. Það er eingöngu þessi bónarvegur sem okkur er opinn með þátttöku í svokallaðri ,,kómítólógíu``, nefndakerfi Evrópusambandsins þar sem við höfum formlega rétt til þess að senda fulltrúa inn á fundi, stjórnvöld EFTA-ríkjanna hafa formlega séð rétt til að setja fulltrúa þeirra inn á fundi í einum 2.000 nefndum í þessari ,,kómítólógíu`` eða nefndakerfi Evrópusambandsins til þess að fylgjast með og til þess að reyna að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar eru teknar. En atkvæðisrétt hafa menn engan þar, ekki nokkurn, og það er í rauninni enginn sem deilir um þetta því þetta er svo kristaltært og skýrt í samningnum sjálfum og þeim hnútum sem hann er bundinn.
    Þannig er það nú að þegar aðildarríki að Evrópsku efnahagssvæði þurfa að taka við öllum þeim gerðum, ákvörðunum sem Evrópusambandið hefur tekið --- Evrópubandalagið sem nú frá 1. nóv. sl. kallar sig ,,Europäische Union`` eða Evrópusamband, eins og farið er að kalla það hér --- hefur tekið frá 1. ágúst 1991 um það leyti sem í raun var gengið frá samningnum um Evrópskt efnahagssvæði milli EFTA annars vegar og Evrópubandalagsins á þeim tíma hins vegar. Þá er það svo að við höfum enn hinn formlega rétt á Alþingi, hinn formlega rétt til þess að hafna þessari tillögu en það er alveg jafnljóst til hvers slík höfnun mundi leiða. Hún leiddi á skömmum tíma til þess að Ísland væri gert brottrækt úr þessum söfnuði, við værum í raun að hafna áframhaldandi aðild að þessu svæði ef við segðum nei við þessum pakka. Samt hljótum við sem erum andsnúin þessum samningi að yfirvega það þegar við tökum afstöðu til málsins hér hvort ekki sé tímabært að láta reyna á það hér og nú á þessu vori á Alþingi Íslendinga að fara ekki lengra. Ekki vegna þess hvert er innihaldið í þessum nærri 500 gerðum sem eru í þessum pakka. Þær eru af ýmsum toga, misjafnlega alvarlegs eðlis, misjafnlega ákvarðandi, varða Ísland í misjöfnum mæli en þar eru þó mjög stór mál á ferðinni sem við getum vegið okkur til hagsbóta einhver þeirra og önnur á hinn veginn. Þannig að við gerum ekki upp hug okkar á grundvelli út af fyrir sig einstakra gerða af þessum nær 500 gerðum, heldur með mati á samningnum í heild og gildi hans fyrir Ísland með eða á móti. Ég tel alveg eins og í fyrravor að ástæða fyrir Ísland til að stöðva sig af á þessari leið sé jafngild nú og hún var þá og blasir raunar enn betur við en um var að ræða á þeim tíma.
    Í því samhengi er hins vegar rétt að benda á --- og það finnst mér vera hluti af þessu máli sem hér er fram lagt og stöðu Alþingis gagnvart þeim pakka sem hér er lagður inn af ríkisstjórn Íslands --- þá staðreynd, virðulegur forseti, að starfandi hæstv. utanrrh. Íslands sá ástæðu til þess, ef ég hef mælt það svona nokkurn veginn rétt, að fylgja þessu máli úr hlaði, þessum nær 500 gerðum Evrópusambandsins í u.þ.b. fimm mínútna, kannski sjö mínútna, inngangsræðu. Það var virðingin sem Alþingi Íslendinga var sýnd í sambandi við það mál sem hér er fyrir lagt. Það var greinargerðin sem framkvæmdarvaldið, ríkisstjórn landsins, lagði hér inn, því auðvitað er þetta greinargerð utanríkisráðuneytis Íslands sem hér er á ferðinni. Það felst ekki neitt sérstakt mat hæstv. starfandi utanrrh. í þessu. Ég er ekki viss um að sá sem að jafnaði er í stólnum hefði haft þetta með mikið öðrum hætti heldur hafi hæstv. starfandi utanrrh. fylgt leiðsögn frá utanrrn. um það með hvaða hætti skyldi gerð grein fyrir þessu máli á Alþingi Íslendinga.
    Ég verð að segja það að þó að ekki þurfi að meta mál í tímalengd út af fyrir sig, það er hægt að koma að ýmsu þó ekki sé í löngu máli, þá tel ég að þessi framsaga fyrir málinu feli í sér afstöðu til þingsins, afstöðu til Alþingis Íslendinga gagnvart því máli sem hér er fyrir það lagt. Ég vil leyfa mér að gagnrýna það mjög eindregið að þannig skuli staðið að máli af hæstv. utanrrh. að virða þingið ekki þess að rekja í aðalatriðum, þó ekki væri með minni fyrirhöfn heldur en við er höfð þegar mælt er fyrir einu venjulegu stjfrv. á Alþingi, að ekki skuli vera haft fyrir því. Nei, hv. þm. fá í höfuðið og á borð sín bunka, sem eru sjáanlegir á borðum þingmanna, upp á fleiri þúsund blaðsíður sem tengjast þessu máli og þeir eru ekki virtir þess af þeim sem leggur málið fyrir að nokkur minnsta viðleitni sé til þess að gera grein fyrir því.
    En hver hefur, virðulegur forseti, verið aðdragandi málsins að því er varðar íslensku ríkisstjórnina? Í örstuttu máli vil ég nefna það. Frá því að Evrópskt efnahagssvæði tók lögformlega gildi um síðustu áramót var til hin svokallaða sameiginlega EES-nefnd þar sem ríkisstjórnir landa sem aðild eiga að Evrópsku efnahagssvæði eiga sína fulltrúa. Íslenska ríkisstjórnin á sinn fulltrúa, sem er utanrrh. Íslands eða fulltrúi hans, þess á milli sem ráðherrar hittast. Það er á þessum vettvangi frá því um áramót og raunar nokkru eftir áramót sem farið er að ræða um þennan pakka og hvernig hann skuli lagður fyrir, hvaða tillögur skuli gerðar og í rauninni er ekki annað gert á þessum vettvangi heldur en það að samþykkja að hnýta utan um þennan pakka og slengja honum inn á þjóðþingið. Sú ákvörðun er tekin 21. mars sl., að mig minnir.
    Hæstv. utanrrh. tíundaði að vísu eitt efni í sinni stuttu ræðu áðan þegar hann mælti fyrir þessu máli, ef ég man það rétt, þar sem Ísland hefði reynt að koma einhverjum fyrirvara inn gagnvart þessu máli öllu saman og það mun hafa verið í tengslum við starfsréttindi, undir þeim þætti sem varðar frjálsa för launafólks og hæstv. ráðherra nefndi það. Það virðist vera eina málið, eina atriðið þar sem íslensk stjórnvöld

komu einhverjum breytingum fram sem a.m.k. hæstv. utanrrh. sá ástæðu til að nefna sérstaklega. Þetta varðar tilskipun sem merkt er 89/48/EBE, því þaðan er hún komin, og fjallar um viðurkenningu á starfsmenntun á grundvelli a.m.k. þriggja ára háskólanáms og hinni nýju tilskipun, sem mun vera tilskipun 92/51/EBE, um almennt kerfi fyrir viðurkenningu starfsmenntunar og þjálfunar til viðbótar þeirri tilskipun sem ég tilfærði áðan. Um hana segir á blaðsíðu 11 í texta með þáltill., með leyfi forseta:
    ,,Nýju tilskipuninni er ætlað að koma á kerfi til viðurkenningar á starfsréttindum allra annarra. Hún tekur því til allra starfsréttinda sem fengin eru að loknu einhvers konar námi eða þjálfun, svo fremi sem námið nái ekki þremur árum í háskóla. Ísland setti fyrirvara við samþykkt tilskipunarinnar, þar sem talið var að ekki væru heimildir fyrir hendi til að krefjast þekkingar á íslenskum byggingareglum af iðnaðarmönnum sem hér vildu starfa sem launþegar. Evrópubandalagið féllst að lokum á`` --- þetta hefur verið mikið átakamál, hæstv. utanrrh., því Evrópubandalagið, eins og það heitir hér á þessum síðum, féllst að lokum á --- ,,að gerð yrði sameiginleg yfirlýsing um að þrátt fyrir ákvæði tilskipunarinnar taki bandalagið á sig að kynna sínum þegnum sem ætla að hefja störf sem launþegar í byggingariðnaði á Íslandi að ráðlegt sé og æskilegt að þeir kynni sér íslenskar reglur á þessu sviði. Ekki er búist við að mjög reyni á þessa sameiginlegu yfirlýsingu. Íslenskar byggingareglur eru mjög strangar hvað varðar ábyrgð meistara á byggingu og ekki fyrirsjáanlegt annað en að þær reglur dugi til að hættum sé forðað.`` --- Ef lesið er á milli línanna þá væntanlega þannig að það verði enginn sem treystir sér til þess að reyna á grundvelli þessara ákvæða að taka þátt í störfum í íslenskum byggingariðnaði. En þessu er lokið þannig: ,,Unnið er að því að kanna á hvern hátt sé best að koma upplýsingum um íslenskar byggingareglur á framfæri.``
    Málið er auðvitað ekki búið. Nú er eftir að ganga frá þessum upplýsingum og koma þeim út um víðan völl því þær verða auðvitað að vera alls staðar aðgengilegar þannig að menn geti kynnt sér þær sem ætluðu sér að fara frjálsa för á grundvelli EES-samningsins til Íslands og njóta viðurkenningar á grundvelli tilskipunar 92/51 frá Evrópusambandinu.
    Ég nefni hér þennan rismikla fyrirvara sem íslensk stjórnvöld settu í sameiginlegu EES-nefndinni gagnvart öllum bunkanum, sem hefur verið sýndur í þessum ræðustól og blasir hér við mönnum upp á um 3.000 blaðsíður til viðbótar öllu því sem komið var áður og mun senn fylla 49 bækur, að mér er sagt, og er í undirbúningi í vandaðri sérútgáfu með hliðstæðum hætti og þær bláskinnur sex sem hér eru framreiddar í tengslum við þetta mál. Það er því ástæða til þess fyrir þá alþingismenn, sem eru að lesa þetta í sínum takmarkaða tíma að fá endurhannaða burðargrind samkvæmt evrópskum staðli undir þennan fróðleik allan saman til að kynna sér og svara sínum kjósendum fyrirspurnum um hvaðeina sem varðar samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og þær gerðir sem á bak við hann liggja.
    Síðan er í þáltill. verið að rekja, og það skal ekki vanþakkað, og reyndar flokka nokkur meginatriði í þeim gerðum sem eru í þessum pakka en það var jafnframt tekið fram af talsmanni utanrmn., hv. 3. þm. Reykv., að ekki væri talið að um stóra þörf væri að ræða á að breyta íslenskri löggjöf vegna þessara gerða allra saman. Við skulum aðeins skyggnast á bak við það mat, sem ég vil ekki vefengja, ég hef ekki haft aðstöðu til þess að fara yfir þetta sjálfur, hvorki í utanrmn. né þess utan því að málið er nýtt á borðum okkar þingmanna, en ástæðurnar eru tíundaðar með svofelldum orðum, með leyfi forseta, á bls. 2 í greinargerð þáltill.:
    ,,Í langflestum tilfellum er verið að ganga frá framkvæmd þeirra meginreglna sem felast í samningnum sjálfum og samþykkt þeirra felur því ekki í sér nema óverulegar breytingar á íslenskri löggjöf.``
    Hér sjá menn að það er í rauninni hægt að taka við þessum gerðum öllum saman og þær öðlast gildi sem hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði án þess að gera þurfi verulegar breytingar á íslenskri löggjöf vegna þess að það er búið að byggja utan um þetta allt saman með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og þeim örfáu lagagreinum sem hér voru samþykktar sem lög á Alþingi til staðfestingar samningnum. Þannig er þessu fyrir komið. Evrópubandalagið getur tekið ákvarðanir, m.a. af þeim toga sem hv. þm. Páll Pétursson tíundaði hér úr ræðustól um hvernig mönnum beri að haga sér í bifreiðum við akstur og annað af öllum mögulegum toga, menn geta fengið slíkar ákvarðanir frá Evrópusambandinu án þess að það reyni á að taka það sérstaklega fyrir og lögfesta það á Alþingi vegna þess að menn hafa skapað pláss fyrir þetta með samþykkt samningsins sem slíks.
    Í því sambandi er vert að hafa í huga, virðulegur forseti, með þínu leyfi, 119. gr. samningsins sem tekur á þessum viðbótarpakka eins og öðru sem á eftir að koma frá Brussel: ,,Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.`` Og þessi samningur er lögfestur og ekki metin þörf á því þegar menn eru komnir inn í þetta Evrópska efnahagssvæði að binda þetta lögum að landsrétti heldur er hér verið að leita eftir þjóðréttarlegri heimild fyrir stjórnvöld til þess að ganga frá þessu og meta það síðan með sínum embættismönnum hvað kunni að vera ástæða til að leggja síðar fyrir Alþingi Íslendinga og leita lagabreytinga vegna þessara ákvæða.
    Í þessum pakka er að finna, og ég nefni það hér m.a. vegna þeirrar lítilsvirðingar sem hæstv. utanrrh. sýndi okkur í sambandi við það þegar hann mælti fyrir þessum málum, fjöldamörg veigamikil atriði sem snerta framleiðslustarfsemi á Íslandi, viðskipti af öllum mögulegum fjárhagslegum toga og félagslega þætti, málefni sem varða umhverfisvernd, sem varða opinber innkaup, vátryggingastarfsemi, flutningastarfsemi og annað ótalið og sem koma til með að varða okkur Íslendinga mjög miklu, fjölda fólks í landinu,

jafnt framleiðendur sem starfsmenn og almenning. Ég hefði talið að það væri ástæða til þess að reyna á Alþingi Íslendinga með þeirri miðlun sem hér fer fram að koma a.m.k. aðalatriðunum úr þessum boðskap skilmerkilega á framfæri í gegnum þingið. En það er ekki metið svo af utanrrn. og hæstv. ráðherra að nýta það tækifæri sem hann hefur til þess að reyna að koma upplýsingum á framfæri við þing og þjóð í tengslum við þetta mál.
    Við skulum taka dæmi, virðulegur forseti, og ég reyni þá að velja efnislega af þeim enda sem skiptir mjög miklu og það er kafli sem gerð er grein fyrir í þáltill. um opinber innkaup. Ég leyfi mér að vitna til texta á bls. 5 og 6 í þessari bók sem fylgir með þáltill. undir fyrirsögninni ,,Opinber innkaup`` og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á sviði opinberra innkaupa hafa verið settar nokkrar nýjar tilskipanir sem eru hluti af viðbótarpakkanum.
    Í tilskipun 92/13/EBE um samræmingu laga- og stjórnsýslufyrirmæla varðandi beitingu reglna bandalagsins við opinber innkaup yfirvalda sem reka vatnsveitur, orkuveitur, flutninga- og fjarskiptafyrirtæki eru settar reglur um eftirlit með opinberum innkaupum þessara aðila. Reglunum er ætlað að tryggja að ekki eigi sér stað mismunun á framangreindum sviðum og koma í veg fyrir brot á settum reglum. Áður höfðu verið settar sambærilegar reglur á öðrum sviðum þannig að hér er í rauninni eingöngu verið að víkka út gildissvið eldri reglna. Framvegis verða því allir opinberir aðilar háðir eftirliti.
    Settar hafa verið nýjar reglur um opinber vörukaup og framkvæmdir sem afnema núgildandi tilskipanir á þessu sviði. Hér er þó ekki um eiginlegar efnisbreytingar að ræða heldur er fyrst og fremst verið að sameina í eina tilskipun annars vegar þær tilskipanir sem gilt hafa um opinber vörukaup og hins vegar um opinberar framkvæmdir.``
    Hins vegar segir litlu síðar: ,,Mun meiri breytingar felast í tilskipun 93/38/EBE um reglur um innkaup stofnana sem sinna vatnsveitum, flutningum og fjarskiptum. Hún kemur í stað tilskipunar 90/531/EBE um sama efni en gildissviðið er víkkað þannig að hin nýja tilskipun tekur einnig til þjónustuviðskipta stofnana í þessum geira. Áður hafði verið sett tilskipun um þjónustukaup annarra opinberra aðila. Var það gert með tilskipun 92/50/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um þjónustu.`` --- Hún er eins og talan ber með sér frá 1992 þannig að hún er væntanlega einnig undir þessum hamri hér. --- ,,Þessi tilskipun gerir ráð fyrir því að boðin séu út á Evrópumarkaði innkaup á þjónustu þegar verðmæti hennar fer yfir 16 millj. kr. án virðisaukaskatts. Hún er hluti af viðbótarpakkanum og felur tvímælalaust í sér eina veigamestu breytinguna á sviði opinberra innkaupa þar sem áður hafa engar slíkar reglur gilt.``
    Virðulegur forseti. Talsmenn þessa fyrirkomulags færa að sjálfsögðu þau rök fyrir því að þetta sé nú allt af hinu góða, að þess sé gætt að það svindli enginn á þessum reglum, að allsherjarsamræmis sé gætt í þessum efnum frá Krít í suðri norður til okkar á Íslandi. Hvarvetna á þessu svæði þar sem menn fara yfir 16 millj. kr. í innkaupum á þjónustu og verðmæti þeirra fer yfir þessa upphæð, þá þarf að bjóða þetta út á Evrópumarkaði með öllu því sem fylgir, þýðingum, auglýsingum og öðru þess háttar, væntanlega þýðingum á ekki bara hinu eina opinbera máli EFTA sem er enska eins og menn kannast við, heldur á málum allra Evrópusambandsríkjanna 12 og kannski verða þau fleiri áður en langt um líður, sem við þurfum að tryggja að eigi aðgang að öllum framkvæmdum, þjónustuviðskiptum sem fara yfir 16 millj. kr. hjá opinberum aðilum. Mér finnst því að það hefði verið þörf á því, hæstv. utanrrh., að nota örfáar mínútur af tíma Alþingis til þess að vekja athygli á þætti eins og þessum sem hér er hugmyndin að ganga frá þjóðréttarlega með samþykkt þessarar tillögu og gera bindandi sem ófrávíkjanlegan hluta af samningnum um EES þó ekki væri nema til að minna menn á þá gleðitíð sem í vændum er í krafti þessa ákvæðis.
    Ég vil í þessu sambandi, virðulegur forseti, nefna að mikið er talað um það í þjóðfélaginu um þessar mundir að menn þurfi að reyna að halda utan um atvinnumöguleikana í landinu. Það liggja inni á Alþingi einmitt tillögur um það að opinberir aðilar þurfi að gæta þess í sínum innkaupum að skipta við innlenda aðila og væntanlega eru menn einnig þar með undir við innkaup á þjónustu á vegum opinberra aðila. Þetta er auðvitað gamlagróin hugsun hjá þeim sem eru að líta á sinn heimavöll og vilja yrkja sinn garð. En hér eru þær takmarkanir njörvaðar niður sem um er að ræða og sem menn eru að gangast undir sem koma í veg fyrir þessa gömlu hugsun. Og í rauninni er þá, virðulegur forseti, nánast grátbroslegt að á sama tíma og menn ganga inn í þetta völundarhús Evrópusambandsins með öllum krókum og kimum þess, þá eru menn að ræða um það hvernig megi nú pukra hér úti í horni norður á Íslandi og reyna að fylgja því, sem margir telja að ættu að vera sjálfsagðir hlutir, að við höldum utan um okkar. Íslenskt, já takk. En það er að sjálfsögðu krafa eða það er ósk, íslenskt, já takk, sem gengur þvert á hugmyndafræði þessa samnings og þess sem að baki býr. Menn eru að biðja um það. Við erum að taka svipað skref og gert var á Alþingi árið 1000 að sagt er með kristnitökunni, taka við boðskapnum, en áskilja okkur að um sinn megi menn a.m.k. blóta á laun, eitthvað í þessa veru, en auðvitað á móti þeim sið sem verið er að innleiða og kjarnanum í þeim boðskap sem verið er að innleiða sem er það að láta mælistiku fjárhagslegrar hagkvæmni ráða því hvar á þessu svæði í allri Vestur-Evrópu, að frátöldu Sviss og Liechtenstein kannski enn þá, sé ódýrast fyrir þann flokk manna sem farið er að kalla neytendur nú um stundir, hvar sé ódýrast fyrir þennan stórflokk manna sem mér skilst að sé hér á Íslandi líka, telur sig á stundum allfyrirferðarmikinn, sem kallast neytendur. Það er það sem á að ráða ferðinni. Það er grundvöllurinn í þessari hugmyndafræði burt

séð frá því hvað varðar atvinnustig og allt þess háttar, burt séð frá því hvað varðar umhverfi því að það er allt saman undir borði í þessu máli og óskuldbindandi það sem varðar umhverfismálin. Það er allt á öðru farrými. Nei, það sem ræður ferðinni er græðgisjónarmiðið ef svo má segja, græðgisjónarmiðið sem er að setja mannkynið, með hinn ríkari hluta í fararbroddi, á vonarvöl á plánetunni jörð. Það er þessi hugmyndafræði sem Alþfl. gengur fremstur í flokki með hér á landi. Ég held að hann telji sig eiga ef ekki einkarétt á hinum vígreifa flokki neytenda, þá eigi hann þar a.m.k. mjög góðan hljómgrunn í þeim flokki, enda er það sú hugmyndafræði sem hann gengur fram með, sama hvort um er að ræða landbúnaðarafurðir eða annað. Allt skal það falla undir þennan mælikvarða, þessa stiku óháð því hvað varðar atvinnustigið í þessu landi því að öllum þeim mælistikum hefur í raun verið kastað fyrir róða með því að innleiða þennan boðskap og veita honum allan forgang hér undir merkjum fjórfrelsis sem er að finna í þessum samningi. En hæstv. utanrrh. og iðnrh. sem er að munda sig í það núna að koma hér með frv. um jöfnunartolla inn á þingið hafði ekki fyrir því að rekja fyrir okkur hver væri kjarninn í þessum gerðum, hvað það væri sem einhverju verulegu máli skipti fyrir okkur. Nei, nei. Hann flýtti sér úr stólnum, hann hvarf úr stólnum eftir að hafa birst hér í einar 5--7 mínútur til að mæla fyrir þessu máli, kasta því hér inn á völlinn.
    Það segir í greinargerð með þessu máli um þjónustu- og fjármagnsviðskipti að þessi viðbótarpakki muni hafa mikil efnahagsleg áhrif á þjónustusviðinu. Það eigi m.a. og ekki síst við um tryggingar- og verðbréfaviðskipti þar sem einum sameiginlegum markaði verði komið á með fjárhagslegu eftirliti heimaríkis og frelsi til að veita og fá þjónustu hvar sem er á svæðinu. Þannig er hægt að rekja hvert stórmálið á fætur öðru sem er undir í þessum pakka sem menn eru svona rétt að reyna að koma sér að að leysa utan af þessar stundirnar.
    Um svokallaðan VIII. viðauka, sem heitir Staðfesturéttur og er eitt af þessum nýmælum sem tengist Evrópsku efnahagssvæði og Evrópusambandsréttinum sem hér er verið að innleiða, segir, með leyfi forseta:
    ,,Á sviði staðfesturéttar er að finna tilskipun 93/96/EBE um búseturétt stúdenta, sem kemur í stað tilskipunar 90/366/EBE um sama efni. Nýja tilskipunin kemur í kjölfar dóms dómstóls Evrópusambandsins sem ógilti fyrri tilskipun þar sem hún var ekki byggð á fullnægjandi lagaheimild.``
    Ég er ekki að nefna þetta vegna þess að efnislega skipti þessi tilskipun kannski miklu máli heldur vegna þess að hún er til orðin vegna dóms sem fellur hjá dómstóli Evrópusambandsins og þar erum við stödd í 6. gr. samningsins sem kveður á um það, eins og menn muna hér á þingi sem fjölluðu um málið á sínum tíma, að með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni beri við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa o.s.frv.
    Þetta birtist okkur m.a. hér í þessari litlu tilskipun um búseturétt stúdenta sem er hér undir og hefur verið sett af Evrópusambandinu eftir að dómur hafði fallið í dómstól Evrópusambandsins.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tíunda mikið meira sem varðar efni þessa pakka. Ég ætla mér ekk að fara hér í hlutverk framkvæmdarvaldsins sem ekki hafði fyrir því að mæla fyrir þessu máli efnislega heldur kastaði því bara fram inn í sal Alþingis á 5 mínútum en það er hér margt að finna og þegar við verðum búnir að fara í gegnum síðurnar 3.000 sem bárust að 5 / 6 hlutum inn í sali þingsins í gær, þá verðum við auðvitað margs vísari um innihaldið. Það væri auðvitað fróðlegt að ganga í skrokk á settum starfandi utanrrh. til þess að spyrja hann út úr í þeim fræðum en ég ætla ekki við þessa umræðu að fara út í þau efni.
    Eitt af því sem tengist þessu máli eru þau nýmæli í íslensku máli sem er að finna og þau eru mörg. Eitt lítið orð vil ég nefna af þessum síðum en það er orðið ,,nýaðferðartilskipun`` og er að finna á bls. 4 í þriðju efnisgrein þar sem segir, með leyfi forseta, um tiltekna tilskipun:
    ,,Koma þær í stað mismunandi reglna sem voru í einstökum nýaðferðartilskipunum um notkun slíks merkis.`` Þ.e. svonefnt CE-merki sem á nokkrar blaðsíður í þessum bláu skræðum sem hér komu fram í gær. Og það er áreiðanlega hægt að finna margt af þessum toga. Þá ætla ég ekki með þeim orðum að lítilsvirða þá viðleitni sem er uppi við að snúa þessu gullaldarmáli Evrópusambandsins á forneskjumál hér norður frá. Það er viðleitni sem ég vil síst af öllu að niður falli þó að deila megi um hvernig til tekst hverju sinni og gæti nú verið þörf á því að eitt næsta verk sem væri hægt að sjá okkur fyrir hér á Alþingi væri ný orðabók, væri nýtt orðasafn með skýringum á þessum hugtökum þar sem þau væru þá jafnframt tíunduð a.m.k. á máli Evrópusambandsríkjanna allra svo að við gætum spreytt okkur á því að læra þau ef við þyrftum að nota þau í því samhengi.
    Virðulegur forseti. Það var nefnt hér af hv. þm. Páli Péturssyni í ræðu áðan að það væri kannski ekki þörf á því að flýta sér mjög hratt við að afgreiða þessa þáltill. hér vegna þeirrar stöðu sem EFTA væri statt í, EFTA-ríkjahópurinn gagnvart Evrópusambandinu, því að að forminu til er það sá hópur talandi einni röddu, hin styrka stoð Fríverslunarbandalags Evrópu, sem stendur undir þessari byggingu, þessu húsi hins Evrópska efnahagssvæðis á móti Evrópusambandinu. Þá er hv. þm. auðvitað að vísa til þeirrar óvissu sem nú ríkir um veru einstakra EFTA-ríkja í hópnum sem hluta af þessari styrku stoð vegna þeirra samninga sem gengið hefur verið frá af fjórum EFTA-ríkjum nú fyrir nokkrum vikum um inngöngu þeirra í Evrópusambandið. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það hér þó að tilefni sé ærið til þess og það tengist auðvitað þessu máli og mati á þessu máli hér. Hver er staða EFTA og hvað er líklegt að gerist í því

uppgjöri sem fram undan er í þjóðaratkvæðagreiðslum fjögurra ríkja en ríkisstjórnir þeirra hafa samið um inngöngu í Evrópusambandið? Þetta mun hafa verið tilefni, ég var þá ekki á þingi fyrir nokkrum vikum heldur varamaður minn, vangaveltna og talsverðra umræðna þegar rædd var skýrsla frá utanrrh. um stöðu Íslands, kannski nokkuð einmanalega veru Íslands í EFTA innan tíðar ef svo færi að Norðurlöndin þrjú og Austurríki, almenningur þar samþykkti þá samninga sem gerðir hafa verið um inngöngu ríkjanna í Evrópusambandið. Ég held að ég geti vel tekið undir þá ábendingu hv. 1. þm. Norðurl. v. að þarna geti verið tíðinda að vænta og þess vegna ekki ástæða til þess að flýta sér við afgreiðslu þessa máls sem við ræðum hér. Það getur auðvitað farið á hvorn veginn sem er með það uppgjör sem þarna er um að ræða, en ég held að menn eigi engan veginn að gefa sér það hér og nú að það verði niðurstaðan í þessum löndum að meiri hluta til að almenningur þar staðfesti í þjóðaratkvæðagreiðslu inngönguna í Evrópusambandið.
    Það á auðvitað eftir að ræða mikið áður en gengið verður til atkvæða og kosningadagurinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna er ekki enn ákveðinn í öllum ríkjunum. Hann hefur verið bundinn að mér skilst í Svíþjóð sem 13. nóv. nk., líklega að kosið verði í Finnlandi á sama tíma og innan fárra daga mun forsætisráðherra Noregs kynna sinn hug félagasamtökum og pólitískum flokkum í Noregi varðandi kjördag í Noregi vegna þessa máls. Flestir eiga von á því að tillaga Gro Harlem Brundtland verði í þá veru að Norðmönnum verði ætlað að ganga að kjörborði á eftir Svíum og Finnum af refskap þeirra sem vilja fá jákvæðar undirtektir í Noregi við málið og meta það svo að líkurnar séu meiri ef sú niðurstaða liggur fyrir að Svíar og Finnar, báðar þessar þjóðir, a.m.k. Svíþjóð þá sérstaklega sem Norðmenn horfa til verði búin að segja já að meiri hluta til og þar með orðinn aðili að Evrópusambandinu. En um þetta skulum við ekki fullyrða mikið á þessari stundu. Ég vil aðeins segja það sem mitt mat að ég tel það vera fremur ólíklegt hvað sem gerist í Svíþjóð og hvenær sem kosið verður í Noregi að það fáist meiri hluti í því landi fyrir inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Það kann svo að vera að það verði svipað upp á teningnum eins og gagnvart Danmörku að því er varðaði inngönguna í Evrópusambandið, staðfestinguna á Maastricht-samningnum í fyrra, að það verði haldið áfram að hnoða og beita þjóðina brögðum til þess að reyna að þröngva henni inn með endurteknum atkvæðagreiðslum, en um það skal ég ekkert fullyrða hvað mönnum er í huga þar. Það kann að vera að það sé erfiðara um vik og ég geri ráð fyrir því að það sé erfiðara um vik að búa til einhver leiktjöld fyrir Norðmenn, eitthvað viðlíka því sem gert var gagnvart Dönum með hinu svokallaða Edinborgarsamkomulagi sem notað var sem tilefni til að endurtaka þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem stuðningsmenn Evrópusambandsins höfðu sitt fram.
    Fyrir okkur Íslendinga skiptir það auðvitað mjög miklu máli hver niðurstaðan verður. Ég er algerlega ósammála því sjónarmiði sem heyrst hefur, ég vil segja nánast úr ólíklegum áttum, hjá stjórnmálamönnum á Alþingi Íslendinga, að það ætti að vera á óskalista okkar að niðurstaðan verði já að meiri hluta til hjá hinum Norðurlöndunum sem eiga að taka ákvörðun um þetta. Að þau gangi inn í Evrópusambandið sé okkur Íslendingum í hag, en þau sjónarmið hef ég heyrt frá ýmsum stjórnmálamönnum hérlendis, þar á meðal frammámönnum í flokkum, m.a. frá varaformanni Framsfl., ef til vill bráðum formanni þess flokks, sem hefur haft um það mjög ákveðin orð að það ætti að vera hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að niðurstaðan verði þessi á hinum Norðurlöndunum.
    Ég er allt annarrar skoðunar að þessu leyti og vona eindregið að niðurstaðan í þessum löndum verði á annan veg. Þó ég sé ekki að meta það út frá veru Íslands í Evrópsku efnahagssvæði út af fyrir sig, sem ég er andvígur, þá tel ég þó að veran þar sé skárra hlutskipti fyrir okkur Íslendinga um sinn heldur en að haldið verði áfram og tekið verði hér á dagskrá, eins og utanrrh. Íslands margklifar á þessa dagana, að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.
    Síðast í gær, eða var það í dag, virðulegur forseti, var að finna í Morgunblaðinu grein frá hæstv. utanrrh. og hefur hann reyndar skrifað margar að undanförnu. Þær eru tölusettar fleiri en fingur annarrar handar í flokksblaði ráðherrans, Alþýðublaðinu. Ég hef ekki borið saman þá texta við það sem birtist í Morgunblaðinu, en geri ráð fyrir að það sé svona svipaður boðskapur á ferðinni í þessum málgögnum báðum. En í þeirri grein sem hæstv. utanrrh. skrifar 7. apríl í Morgunblaðið er ekkert verið að liggja á því hvert halda skuli að hans mati. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, af því að þetta er nýlega hér fram komið á þrykk, að vitna í boðskapinn frá hæstv. utanrrh., ef forseti leyfir, í þessu efni, því það skiptir máli þegar við erum að skoða það sem hér liggur fyrir hvert á að vera framhaldið af hálfu þeirra sem fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands bera þessa tillögu hér fram. Þar segir hæstv. ráðherra:
    ,,Í skýrslu minni til Alþingis árið 1992 lagði ég til að hafin yrði úttekt á kostum og göllum aðildar Íslands að Evrópusambandinu og benti á að með því að sækja ekki um aðild væri tekin ákvörðun um að hafna aðild, a.m.k. að svo stöddu. Slíka ákvörðun þyrfti ekki síður að rökstyðja en aðrar. Ekki varð þó úr því að Stjórnarráðið allt væri virkjað til slíkrar athugunar, þrátt fyrir að áfram hafi verið að því unnið, m.a. innan utanríkisþjónustunnar, að bera saman stöðu EES-samningsríkja við stöðu aðildarríkja Evrópusambandsins.``
    Litlu síðar í greininni segir ráðherrann:
    ,,Því hefur verið haldið fram að ekkert hafi breyst með aðildarsamningum Norðurlandanna þriggja og ekkert hafi komið fram sem réttlæti að spurningin um aðild að Evrópusambandinu verði tekin á dagskrá. Það er mín skoðun að flestar forsendur okkar hafi breyst verulega.`` --- ,,Það er mín skoðun að flestar forsendur okkar hafi breyst verulega.`` Síðan fjallar ráðherra um þetta í greininni og segir litlu síðar:
    ,,Ljóst er einnig að margt bendir til að aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgi enn í nánustu framtíð. Þannig má ætla að þróun sambandsins verði enn frekar í þá átt að Evrópusambandið verði allsherjarsamtök Evrópuríkja á sviði efnahags- og öryggismála.``
    Þetta er gyllingin, þetta er beitan, sem hér er kastað fram af hæstv. ráðherra ,,að Evrópusambandið verði allaherjarsamtök Evrópuríkja á sviði efnahags- og öryggismála.`` --- Það er líklega komið í staðinn fyrir CSCE eða RÖSE-ráðstefnuna og allt sem henni fylgir ef taka ætti þennan málflutning alvarlega. Í framhaldi segir:
    ,,Viljum við að Ísland standi utan slíks samstarfs eitt Evrópuríkja?`` --- Eitt Evrópuríkja. Hæstv. utanrrh. er á slíkri ferð í þessu máli að hann sér greinilega Rússland einnig þarna með í samfloti og dregur upp þessa mynd fyrir alþjóð í greininni. Áfram segir ráðherrann:
    ,,Það dylst engum að breyting er fram undan á eðli norrænnar samvinnu ef svo fer sem horfir með aðild allra Norðurlanda nema Íslands að Evrópusambandinu. Jafnvel harðsnúnir andstæðingar aðildar Íslands að EES og Evrópusambandinu viðurkenna það. Sú breyting var í sjálfu sér fyrirsjáanleg, en fæsta grunaði að svo stuttur tími liði þar til hún yrði að veruleika.``
    Ég er að reifa þetta hér, virðulegur forseti, vegna þess hve nátengt þetta er spurningunni um framhaldið á þróun samskipta Íslands við Evrópusambandið og átökum um þetta mál hér á Íslandi, spurningunni um framhaldið sem við höfum spáð mörg hver, sem andstæð erum EES-samningnum, að ekki yrði langt að bíða að reynt yrði að ýta skútunni inn í hina varanlegu höfn sem menn sjá fyrir sér, talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu, og það dylst engum hvert Alþfl. er að fara í þessum efnum. Það kemur mér ekkert á óvart. Það sáu auðvitað allir inn í hugskotin og þurfti ekki margra vitna við sem lásu skýrslu utanrrh. 1992 í þessu sambandi. Hins vegar hljóta menn að velta því fyrir sér hvernig á málum hefur verið haldið á þeim tíma sem síðan er liðinn, af hæstv. utanrrh., sem um skeið reyndi að bregða yfir sig huliðshjálmi í þessu máli, sem hann hefur nú kastað af sér og er kominn til dyranna eins og við raunar bjuggumst við að leyndist undir þeim huliðshjálmi ráðherrans.
    Ég ætla ekki af tilefni þessarar tillögu og tilefni þessa máls að ræða frekar eða leiða getum að stöðu annarra flokka á Alþingi að því er varðar spurninguna um aðild að Evrópusambandinu, þó einnig væri það umræðunnar virði. Auðvitað met ég það sem andstæðingur þess að siglt verði inn í faðm Evrópusambandsins svo lengi sem flokkar beita sér gegn því. Það vil ég gera svo lengi sem hald er í slíku. En auðvitað velta menn fyrir sér hvað býr að baki þeirri afstöðu sem sá stóri flokkur, Sjálfstfl., kynnti á dögunum í sambandi við umræður um þetta mál. Það eru þingmenn í hópnum sem ekkert liggja á skoðun sinni í þessu máli og greinilega voru að sækja mjög í sig veðrið og leita atfylgis utan þings til að fá stuðning við sjónarmið sín, hliðstæð sjónarmið og utanrrh. kynnir í þessu máli, en niðurstaðan að sinni varð önnur hjá Sjálfstfl.
    Við hljótum einnig að horfa til flokksins sem var tvískiptur, klofinn í herðar niður í afstöðunni til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í fyrravor þegar gengið var til atkvæða í þeim efnum. Hvar er sá flokkur staddur í rauninni og hvar verður sá flokkur staddur eftir að um garð verða gengin þau forustuskipti sem fram undan eru fyrir lok þessa mánaðar í þeim flokki. Auðvitað tökum við eftir því að krónprinsinn í Framsfl. er farinn að tala um einhverja þriðju leið. Hann er farinn að tala um þriðju leiðina. Hann er ekki að halda á lofti samþykktinni sem varð þó niðurstaða að hans tillögu ásamt núv. formanni Framsfl., í fyrravor, um að leitað skuli tvíhliða samnings við Evrópusambandið hið fyrsta og reynt að ganga úr skugga um það. Ætti raunar að vera búið, ef ég man rétt, samkvæmt þeirri samþykkt, að láta reyna á það, a.m.k. að banka upp á og reyna að hlera undirtektir við að fá gerðan slíkan tvíhliða samning. En nú er allt í einu varaformaður Framsfl. farinn að tala um einhverja þriðju leið í málinu. Hvaða ból er það sem hér verið að verma? ( Gripið fram í: Getur þú svarað?) Það eru nú ekki margir framsóknarmennirnir hér til svara við þeirri spurningu og ég ætla ekki að fara að kalla þá til að sinni, best að forustuskiptin gangi um garð og hæstv. starfandi utanrrh. kveði upp sinn dóm um húsbóndaskiptin í Framsfl., sem hann hefur nú á valdi sínu. ( Gripið fram í: Jahá.) Sem hann hefur nú á valdi sínu. Það vill svo sérkennilega til að það er hæstv. ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála, starfandi utanrrh., sem getur ráðið þessu og það ræðst ekkert lítið í íslenskri pólitík. ( SvG: Er þetta EES-mál kannski?) ( Gripið fram í: Já, Það tengist því.) Ja, það er nú það. Það tengist alveg greinilega framhaldi þessara mála hver verður niðurstaða hæstv. starfandi utanrrh. í sambandi við stöður í Seðlabanka Íslands, sem nú eru boðnar jafnt námsfólki sem öðrum og úr stórum og gjörvilegum hóp að velja til að fylla í þær. Þannig að það er víst engin vöntun á því. ( Viðskrh.: Það heyrir nú undir samkeppnislöggjöfina frekar en EES.) Hér ætlar hæstv. utanrrh. að taka málið upp, þó ekki væri nema úr sæti sínu. En ég treysti honum til að koma hér í stólinn á eftir og lýsa frekar inn í hug sinn í þessu máli.
    Virðulegur forseti. Mig langar aðeins í framhaldi af þessu aðeins að koma að atriðum sem snerta Evrópskt efnahagssvæði, þann samning og samningsgerðina og þann veruleika sem menn eru að vakna upp við í framhaldi af því að samningurinn er genginn í gildi. Þá er vel til fundið að vitna í stuttu máli, með leyfi forseta, í dagblaðið Tímann, frá 25. febr. sl., þar sem segir á 7. síðu:
    ,,Afstaða ASÍ til EES kann að gjörbreytast. Utanrrn. kúvendir í túlkun sinni á samningnum. Félagsmálin ekki lengur hluti af EES-samningnum.``

    Og textinn er svohljóðandi undir þessum fyrirsögnum:
    ,,Svo kann að fara að afstaða Alþýðusambandsins til Evrópska efnahagssvæðisins gjörbreytist ef samvinna í félagsmálum er ekki hluti af EES-samningnum eins og utanrrh. heldur fram og sendiherra Íslands í Brussel. Að mati ASÍ er þessi skilningur utanrrn. á samningnum allt annar en þegar formaður Alþfl. var að kynna mönnum kosti EES-samningsins. Frá þessu er greint í Vinnunni, tímariti ASÍ. Þar kemur m.a. fram að þessi afstaða utanrrh. kunni að kollvarpa þeim grunni sem afstaða ASÍ til samningsins byggðist á og hefur miðstjórn ASÍ samþykkt að Evrópunefnd samtakanna fari fram á viðræður við ráðherra um þetta mál.``
    Virðulegur forseti, ég leyfi mér að skjóta því hér inn að nokkuð seint er í þennan rass gripið, nokkuð seint. Því hafi utanrrh. á sínum tíma tekist að koma því inn í kollinn á einhverjum í forustu Alþýðusambands Íslands að jaðarmálefnin væru með einhverjum hætti bindandi hluti þessa samnings þá hefur honum tekist að blekkja allrækilega og þarf raunar ekki annað en að grípa inn í greinargerð með þessu máli sem hér liggur fyrir þar sem þetta er rækilega tíundað að því er varðar jaðarmálefnin. Um það segir, með leyfi forseta:
    ,,Í bókun 31 við EES-samninginn er gerð grein fyrir þessu samstarfi en það byggist einkum á samstarfssamningum og stefnuyfirlýsingum sem ekki eru bindandi fyrir aðildarríkin.`` --- Þarna er um að ræða samstarf sem varðar félagsmál, umhverfismál, neytendavernd og hagskýrslu.
    Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að það er ekki aðeins svo að íslenska þjóðin hafi ekki fengið að segja álit sitt á þessu máli heldur virðist sem stór félagasamtök, sem þó ekki með bindandi hætti --- því það má forusta Alþýðusambandsins eiga og þing þess að það slóst ekki í kór þeirra sem kölluðu eftir samþykkt þessa samnings --- ekki með ákvarðandi hætti, alls ekki, og að því leyti hafa þau samtök ekki verið blekkt í heild sinni að því er þetta varðar. En það sýnir þó með ljósum hætti hversu kynning þessa máls var ófullkomin að það skuli hafa verið sjónarmið og viðhorf og skilningur manna í fjölmennum almannasamtökum að þeir hefðu einhverjar tryggingar í höndum, að með þessum samningi væru ákvæði sem þeir mátu jákvæð á sviði félagsmála, atvinnuréttar o.s.frv., væru ákvarðandi og bindandi hluti þessa máls.
    Ekki meira um þau efni, virðulegur forseti. En ég vil undir lok míns máls, því ég ætla ekki að teygja mitt mál mikið lengur í sambandi við þetta, þó af nægu sé að taka, aðeins vekja athygli á þeirri gífurlegu ósamkvæmni sem er nú staðfest í sambandi við þá mynd sem dregin var upp af talsmönnum inngöngu Íslands í Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma að því er varðaði hagsbætur í venjulegum skilningi þess orðs fyrir íslenskt þjóðfélag í framhaldi af gjörð þessa samnings, bæði að því er varðaði atvinnu og beinar efnahagslegar, fjárhagslegar hagsbætur. Það lágu fyrir margar skýrslur, m.a. ein frá Þjóðhagsstofnun í september 1991, um íslenskan þjóðarbúskap og Evrópska efnahagssvæðið, þar sem tíundað er hver ágóðinn verði, reiknað á ýmsar mælistikur vergrar þjóðarframleiðslu, landsframleiðslu o.s.frv. Og hæstv. utanrrh., í eftirminnilegri ræðu sem hann flutti hér í janúar í fyrra og var haldinn fyrir alþjóð, fór á slíkt flug að hann margfaldaði hagsbæturnar og las út úr þessari skýrslu, vegna þess að hann sleppti fyrirvörum sem þar eru settir í sambandi við hinar stjarnháu upphæðir í hagsbótum reiknað fyrir íslenskt þjóðarbú, bara á næstunni, ef þessi samningur næði fram að ganga.
    Það fer nú að líða að því, virðulegur forseti, að það verði þörf á því að fara yfir þetta mál, yfir þessa útreikninga, yfir þessi gylliboð, yfir þessa glansmynd sem dregin var upp fyrir þjóðina í sambandi við þá gullöld og gleðitíð sem hefjast mundi fljótlega eftir að þessi samningur hefði tekið gildi. Það á auðvitað ekki bara við um alkemista, gullgerðarmenn í hagfræðingastétt á Íslandi, sem voru látnir sýsla við það að taka saman efni í þessa spádóma. Auðvitað á það við um hugmyndafræðingana að baki Evrópusambandinu sjálfu, þ.e. innri markaði þess, og þarf ekki lengra að leita heldur en í Cecchini-skýrsluna margumtöluðu á sínum tíma, sem tengdist náið töfraártalinu 1992 þegar allt ætti að snúast á annan veg fyrir Evrópu að því er varðaði atvinnustig, hagsæld, möguleika til nýsköpunar og hvað þetta allt saman hét.
    Við erum komin fram á árið 1994 og við erum komin inn í Evrópskt efnahagssvæði, innri markaður Evrópusambandsins er orðinn meira en ársgamall frá því hann átti að vera genginn í gildi. Hver er myndin að því er varðar hag alþýðu í Evrópu, hag almennings í Evrópu, jafnvel hag fyrirtækjanna í Evrópu sem einnig eru þáttur þessa máls? Hvar eru hagsbæturnar af þeirri kerfisbreytingu sem þarna var verið að knýja fram, því frelsi fyrir fjármagnið og fjármagnsflutninga, sem er blóðgjafinn í Evrópsku efnahagssvæði og innri markaði Evrópusambandsins, sem tengdur er inn á hið Evrópska efnahagssvæði, inn á svæði EFTA-ríkjanna einnig? Ég held að það þurfi að fara að taka upp smásjána til að leita að þessum hagsbótum.
    Ég vænti þess að það komi að því og þurfi kannski ekki að líða svo mjög langur tími að við hér á Alþingi Íslendinga, að meiri hluta til, komumst að annarri niðurstöðu heldur en tekin var á vordögum 1993 í sambandi við inngöngu í hið Evrópska efnahagssvæði. Spurningin um það hvort við höfum afl og þor til þess að rífa okkur út úr því neti sem við vorum flækt í með samþykkt þessa samnings, teljum okkur hafa burði til þess að stökkva af lestinni á þeirri ferð sem hún er á, því færibandi sem færir okkur 500 gerðir sem afurð Evrópusambandsins á um það bil tveimur og hálfu ári, á eftir að skila áfram löggjöf eða bindandi ákvæðum inn á þjóðmálavettvang Íslands, inn í íslenskt Stjórnarráð, var flutt inn á Alþingi, hvort við höfum þor til þess að breyta til. Úr því mun auðvitað framtíðin ein skera.

    En það er kominn tími til þess að byrja endurmatið, að byrja að meta væntingarnar, loforðin, skoða veruleikann á bak við glansmyndina og velta fyrir sér öðrum leiðum til þess að fást við þau geigvænlegu vandamál sem þetta kerfi er að leiða yfir löndin í formi atvinnuleysis og sívaxandi misskiptingar í kjörum. Ég vona að þessi stund sé ekki jafnlangt undan eins og margur kann að halda um þessar mundir.