Samningur um líffræðilega fjölbreytni

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 16:44:47 (6046)

[16:44]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Með þessari till. til þál. sem hér liggur fyrir fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings frá 5. júní 1992, um líffræðilega fjölbreytni. Markmið samningsins er þríþætt:
    1. Að vernda líffræðilega fjölbreytni.
    2. Að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda.
    3. Að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær.
    Almennar skuldbindingar samningsins fela í sér m.a. að sérhver samningsaðili skuli:
    1. Þróa áætlanir, löggjöf, aðferðir og önnur stjórntæki til að stuðla að verndun og sjálfbærri notkun líffræðilegrar fjölbreytni.
    2. Stjórna og hafa eftirlit með notkun og losun erfðabreyttra lífvera.
    3. Kanna þær athafnir sem kunna að hafa skaðleg áhrif á vernd og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni.
    4. Þróa neyðaráætlanir og koma á fót neyðarvörnum til að koma í veg fyrir alvarleg áföll fyrir líffræðilega fjölbreytni.
    5. Veita fjárhagslega aðstoð og miðla tækni til þróunarlanda til að gera þeim kleift að sinna skuldbindingum sínum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.
    6. Að tilkynna samningsaðilum um yfirvofandi hættu og aðgerðir innan lögsögu þeirra sem gætu haft alvarleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni þeirra.
    Samningurinn hefur einnig að geyma sértækari ákvæði:
    1. Um aðgang ríkja að erfðafræðilegum auðlindum innan lögsögu annarra ríkja.
    2. Um aðgang að og miðlun tækni sem varðar vernd og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni eða nýtingu erfðafræðilegra auðlinda.
    3. Um upplýsingaskyldu um hugsanleg skaðleg áhrif lífvera sem fluttar eru til annarra samningsaðila.
    Í samningnum er gert ráð fyrir að deilum verði vísað til sáttameðferðar nema deiluaðilar komi sér sjálfir saman um annað. Ákvæði samningsins eru í samræmi við íslenska löggjöf og stefnu Íslands á sviði náttúruverndar eins og nánar er kveðið á um í athugaemdum við tillöguna.
    Ég vil, frú forseti, leyfa mér að leggja til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.