Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:17:40 (6054)


[17:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég fagna framkomu þessarar þáltill. og hef reyndar beðið eftir því í allan vetur að hún liti dagsins ljós. Ég held að það hafi við skoðun á sl. hausti fljótlega orðið ljóst að það væri rétt að við gerðumst aðilar að þessu samkomulagi um Svalbarða af ýmsum ástæðum. Það má út af fyrir sig segja að það hefði verið eðlilegt að við værum með frá byrjun eða því sem næst þar sem þarna á nálægt svæði í hlut og eðlilegt að Íslendingar sem norræn þjóð sem á hagsmuna að gæta í norðurhöfum værum með. Einnig hafa komið til nýrri hlutir sem snúa að fiskveiðihagsmunum okkar og spurningu um mögulega þátttöku í auðlindanýtingu á þessu svæði sem gera það að verkum að það er enn frekar en ella ástæða til að við gerumst aðilar.
    Það hefur verið farið vandlega yfir þetta mál og nefnd sem sjútvrh. skipaði til að endurskoða ákvæði laga um veiðar utan landhelgi sem hefur fengið það verkefni að líta á þetta hefur mælt með því við stjórnvöld að það verði gert. Þar koma til m.a. þeir nýlegu hagsmunir sem við Íslendingar eigum að gæta á þessum slóðum.
    Ég er því sannfærður um að það er rétt skref að við gerumst aðilar og á því held ég að við getum á engan hátt tapað en mögulega unnið okkur nokkur réttindi eða styrkt stöðu okkar í framhaldinu með

því.
    Varðandi svo það atriði að með því að gerast aðilar að samningnum um nýtingu náttúruauðlinda á Svalbarða og út að 4 mílum, eins og sá samningur gerir ráð fyrir, séum við ekki að viðurkenna þá aðgerð Norðmanna að lýsa einhliða yfir fiskverndarlögsögu út að 200 mílum og taka sér innan þeirrar lögsögu öll réttindi þá er ég sömuleiðis alveg harður á því að það er rétt að láta það koma fram strax að í þessari aðild okkar að samningnum felst ekki viðurkenning á þeirri gjörð Norðmanna. Það er annars eðlis að Norðmenn lýsi einhliða yfir fiskverndarlögsögu út að 200 mílum og hitt að samningsaðilarnir fólu Norðmönnum tiltekið hlutverk á hinu sameiginlega landsvæði, Svalbarða, föstu landi og landhelgi út að fjórum mílum vegna þess að samningurinn gengur út á jafnrétti samningsaðilanna til nýtingar á náttúruauðlindum á svæðinu eftir sem áður. Þannig má segja að Norðmenn séu á grundvelli Svalbarðasamningsins eins konar verktakar sem annast tiltekið hlutverk fyrir hönd allra samningsaðilanna, fara með fullveldishlutverkið en réttindi þjóðanna eru jöfn.
    Um leið og við Íslendingar gerumst aðilar að Svalbarðasamningnum þá getum við, ef okkur býður svo við að horfa, haldið norður til Svalbarða með sveit af jarðfræðingum fundið þar t.d. kolalög og bankað upp á hjá bergmeistara og sagt: Hér erum við Íslendingar mættir. Við ætlum að taka til við að nýta þessi lög. Og við höfum jafnan rétt til þess og aðrar samningsþjóðir að gera það. Ef þarna er um ónýtta möguleika að ræða þá ber bergmeistaranum að úthluta okkur þarna svæði til námavinnslu. Þetta dæmi sýnir að það er um gjörólíka réttarstöðu að ræða innan þess svæðis sem Svalbarðasamningurinn sjálfur tekur til og hins vegar fiskverndarlögsögunnar sem Norðmenn lýstu yfir. Þar er um einhliða réttartöku Norðmanna að ræða. Það er ekki nema ein þjóð, Finnar, sem hefur lýst yfir stuðningi við þann gjörning en mun fleiri þjóðir, tvær eða þrjár a.m.k., hafa mótmælt því að Norðmenn geti einhliða tekið sér þarna réttindi, þ.e. Rússar, Bretar og Spánverjar að ég hef heyrt.
    Nú er það svo að aðildin að samningnum felur á hinn bóginn ekki sjálfkrafa í sér réttindi til að mynda og alls ekki innan fiskverndarlögsögunnar. Það liggur nokkuð ljóst fyrir. Þess vegna er rétt að vekja ekki um of væntingar manna um það að út á aðildina eina fáum við veiðikvóta eða annað því um líkt. Sérstaklega ekki ef í hlut eiga tegundir sem mundu teljast að líffræðilegu mati bestu manna fullnýttar fyrir. Þá kann það að reynast nokkuð torsótt að reyna að komast inn í hlutdeild á nýtingu þeirra. En ég er þeirrar skoðunar og hef látið hana koma fram og vil gera það hér að varðandi t.d. aðrar auðlindir, hvort sem er innan 4 mílna eða út að 200 mílum, þá sé réttarstaða samningsaðilanna í ljósi þess jafnræðis sem á að ríkja milli þeirra um nýtingu náttúruauðlinda á svæðinu slík að menn eigi að geta komið til sögunnar og hafið nýtingu á þeim möguleikum sem eru ónýttir.
    Eðlilegast væri ef um einhvers konar útfærslu út frá Svalbarða út að 200 mílum er að ræða að sú útfærsla væri á sama þjóðréttargrunni og samningurinn sjálfur byggir á, þ.e. að það skuli ríkja jafnræði milli þjóðanna. Auðvitað er verið að færa út frá Svalbarða og þess vegna eðlilegt að þjóðréttarstaðan væri sambærileg út frá landinu, einskismannslandinu sem fært er út frá. Ég held að það sé alveg borðleggjandi að lögfræðilega þá sé staða Norðmanna til að taka sér með einhliða aðgerðum réttindi af þessu tagi mjög veik og það er ástæða fyrir því að þeir hafa ekki látið slíkt mál fara í hart.
    Þess vegna hef ég t.d. verið þeirrar skoðunar að ef íslensk rækjuskip vildu fara til veiða við Svalbarða um leið og við höfum gerst aðilar að Svalbarðasamningnum, þar sem um er að ræða stofn sem ekki er fullnýttur og ekki hefur verið settur kvóti á, þá eigum við skýlausa kröfu á því að gera það um leið og við erum orðnir samningsaðilar og ættum kannski að geta gert það hvort eð er. Ég tel ekki óskynsamlegt og ekki óeðlilegt að Íslendingar létu samhliða aðildinni eða í kjölfarið fljótlega reyna á möguleika sína t.d. í slíkum tilvikum.
    Um samskiptin að öðru leyti og tengingu þessarar ákvörðunar við til að mynda veiðar á hinu alþjóðlega hafsvæði í Barentshafi þá er flóknara mál að fara út í þá hluti og tíminn leyfir ekki yfirferð um það enda mun væntanlega koma til þess þó síðar verði að það verði hér til umræðu.
    En ég vil í lokin aftur fagna því að þessi tillaga er hér fram komin. Ég tel tvímælalaust að hana eigi að afgreiða hið snarasta og fagna því að ríkisstjórnin hefur haft snör handtök eftir að ákvörðunin var tekin um að þýða skjöl og leggja þau fram. Ég vona sömuleiðis að aðildarskjöl séu tilbúin þannig að það megi vinda bráðan bug að því um leið og Alþingi hefur afgreitt tillöguna að ganga endanlega frá okkar aðild. Ég tel mjög mikilvægt að hún verði orðin staðreynd vel fyrir vorið þannig að réttarstaðan verði komin í það horf þegar, það er alveg óþarft að segja ef, íslensk skip halda til veiða í norðurhöfum á nýjan leik.