Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:33:59 (6057)


[17:33]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. sem talaði áðan að alveg frá fyrstu tíð var það afstaða utanrrh. að við hefðum í fyrsta lagi enga heimild samkvæmt íslenskum lögum til að stöðva veiðar íslenskra fiskiskipa í Smugunni og í öðru lagi þá væru þær veiðar stundaðar í fullum samhljómi við alþjóðasáttmála, þ.e. úthafsveiðar sem við Íslendingar hefðum fullan rétt á.
    Það er líka rétt hjá hv. þm. að það voru ekki allir ráðherrar sömu skoðunar í upphafi. En á vegum ríkisstjórnarinnar var gerð lögfræðileg úttekt á málinu sem var birt og sú niðurstaða sem þar varð var niðurstaða ríkisstjórnarinnar þannig að ríkisstjórnin sem slík var aldrei tvísaga í því máli. Og það er algerlega rangt sem hv. þm. Páll Pétursson hélt fram að þessar veiðar hafi verið stundaðar gegn andmælum ríkisstjórnarinnar. Það eru hrein ósannindi, eins mikil ósannindi og hægt er að flytja fram í einu máli.