Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:45:07 (6064)


[17:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér þykir það nokkuð athyglisvert að hæstv. iðnrh. varð svo hrifinn og orðlaus við þessa síðustu ræðu að hann nýtti sér ekki möguleika sína til andsvara frekar og lét þar við sitja sem skilið var við af hálfu hv. þm. Páls Péturssonar um formennskumál í Alþfl. innan fárra daga.
    Það sem ég vildi bara koma betur að án þess að ég ætli að fara að gera það að miklu umtalsefni hér, enda held ég í sjálfu sér ekkert frjó umræða og ekki endilega í þágu hagsmuna okkar Íslendinga að vera að rifja það neitt mikið upp hvernig þessir atburðir gerðust á sl. sumri og hausti þegar íslensk skip fóru til veiða í fyrstu upp í Smuguna. Þá er það samt þannig að rétt skal vera rétt og úr því að þetta er á annað borð komið eitthvað inn í þingtíðindin þá vil ég bara láta a.m.k. fyrirbyggja að ég misskiljist neitt í þessum efnum.
    Það er auðvitað spurning um orðalag og í raun og veru orðaleikur hvort menn tala eins og hæstv. ráðherra gerði áðan að það sé með öllu ósatt að þær veiðar hafi verið stundaðar gegn andmælum íslensku ríkisstjórnarinnar. Það má út af fyrir segja að það sé rétt þar sem ríkisstjórnin sem slík gerði aldrei neina slíka samþykkt ef það er það sem hæstv. ráðherra á við, heldur er þá frekar verið að vitna til fyrstu viðbragða einstakra forustumanna í ríkisstjórninni. Staðreynd málsins er sú og því hefur ekki verið á móti mælt að fyrstu viðbrögð sjútvrh. voru þau að leggjast gegn þessum veiðum, ráða frá þeim og lýsa andstöðu við þær. Í öðru lagi hefur því ekki verið mótmælt að reglugerðardrög voru tilbúin sem á grundvelli laganna um veiðar Íslendinga utan landhelgi hefðu stöðvað för íslenskra skipa því að íslenskir útgerðarmenn eru löghlýðnir og hefðu ekki farið þar gegn nýsettri reglugerð sem bannaði slíkt. Í þriðja lagi hefur því ekki verið mótmælt að samkvæmt fréttum fjölmiðla af fyrsta ríkisstjórnarfundi eftir að veiðarnar hófust, þá var umræðuefnið og ágreiningsmálið fyrst og fremst það hvort það væri lagaleg staða til að stöðva veiðarnar.
    Það var ekki fyrr en á síðari stigum þegar málin tóku að þróast að þau sjónarmið komu fram í dagsljósið jafnvel innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar að það væri beinlínis ekki í okkar þágu og okkar hagsmuna að stöðva þá för og það ætti að stunda þarna veiðar og það væri réttmætt. Fyrstu fréttir af vettvangi ríkisstjórnar voru um það að ekki væri samstaða um það í ríkisstjórninni hvort lagagrundvöllur væri fyrir hendi til að gefa út reglugerð og stöðva veiðarnar.
    Svona snýr málið við mér eins og ég kann það og ég hygg að ég kunni það nokkuð vel, m.a. vegna þess að ég lét taka saman ljósrit og útskrift af allri umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum fyrstu vikurnar af tilteknum ástæðum núna fyrir nokkru síðan og fór yfir það þannig að ég treysti mér í umræður við hvern sem er um atburðarásina þessa daga. Ég fylgdist líka grannt með málinu sökum áhuga míns á þessu sviði.
    Þetta held ég að séu staðreyndir í málinu og þá er hitt svona meira orðaleikur hvernig menn kjósa að túlka það eða hvað menn kjósa að kalla það. Aðalatriðið er það að málin þróuðust síðan og hafa þróast í rétta átt og í góðan farveg og þá eigum við að sjálfsögðu fyrst og fremst að fagna því en ekki vera að elta ólar við eða tína það upp hvernig menn kannski í tímaþröng brugðust við í fyrstu umferð.
    Svo vil ég segja sömuleiðis út af því sem hv. þm. Páll Pétursson sagði um samskipti okkar við Noreg. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þm. að við sækjum það ekki undir Noreg hvort við gerumst aðilar að Svalbarðasamningnum eða ekki. Það hefur vonandi aldrei staðið til að láta þá ráða neinu um það. Vissulega vakti það nokkra tortryggni hvernig hæstv. utanrrh. meðhöndlaði málið. Hann sendi forsætisráðherra Noregs einkabréf sem ekki hefur fengist birt sem tengdist þessu máli og eru heldur óvenjuleg samskipti, sérstaklega þar sem í hlut á annars vegar þjóðhöfðinginn, eða forsætisráðherra, og hins vegar utanrrh. Þetta var gert með þeirri réttlætingu að í hlut ættu tveir krataforingjar sem störfuðu saman í einhverjum norrænum krataklúbbi. Það er engin afsökun fyrir því að stytta sér leið í diplómatískum samskiptum og auðvitað voru þetta nokkuð óvenjuleg nótuskipti sem þarna áttu sér stað að utanrrh. skyldi í þessu viðkvæma máli fara að stíla einkabréf á forsætisráðherra Noregs, m.a. vegna þess að það mætti misskilja það í þá veru sem hv. þm. Páll Pétursson ýjaði hér að, að menn hefðu talið sig þurfa með einhverjum hætti að sækja þetta undir Noreg.
    Svo er auðvitað ekki. Aðildin gerist á grundvelli þess í fyrsta lagi að Alþingi og ríkisstjórn að ákveða það og í öðru lagi senda inn tilkynningu til Parísar, til Frakka sem eru vörsluaðilar samningsins. Norðmönnum kemur það ekki við. Við höfum sjálfstæðan og fullan rétt til þess að gerast með tilkynningu aðilar að samningnum.
    Hitt er ljóst og það er fagnaðarefni að menn hafa jafnframt orðið sammála um það að gera það alveg ljóst, það kemur fram í greinargerð með þáltill. og ég treysti því að það verði jafnframt tilkynnt Noregi með formlegum hætti. Ég hef skilið það svo að það felist í málinu að aðild okkar þýði ekki að við föllumst á einhliða réttartöku Norðmanna til fiskverndarlögsögu út að 200 mílum. Ég lít svo á að það sé sú niðurstaða sem samkomulag er um og úthafsveiðinefndin mælti með að sá fyrirvari yrði settur fram í formi formlegrar orðsendingar af Íslands hálfu til Norðmanna samtímis því sem við gerumst aðilar að samningnum með tilkynningu sem fer til Parísar.