Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:58:55 (6066)

[17:58]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér er flutt víkur að nokkru nýmæli sem eru fjárhagsleg hagsmunafélög sem ekki hafa átt sér samsvörun í íslenskri löggjöf nema ef vera skyldi að takmörkuðu leyti þó í reynd sjálfseignarstofnanir og sameignarfélög þar sem ekki eru til lög um fyrra félagsformið en lög um hið síðara.
    Tilgangur frv. er að skapa lagaramma fyrir félagaform sem fyrst og fremst er ætlað til að greiða fyrir samstarfi fyrirtækja þannig að þau geti nýtt sér kosti hins Evrópska efnahagssvæðis. Fyrir því eru viss lagaleg vandamál og þess vegna er þetta frv. flutt til að tryggja framgang reglugerðar sem sett hefur verið og ætlað er að gilda á EES-svæðinu um samstarf fyrirtækja.
    Hagsmunafélag eins og hér er rætt um er einkum frábrugðið fyrirtæki eða félagi að því er varðar tilganginn með starfsemi félagsins. Hann er aðeins sá að greiða fyrir eða þróa þá atvinnustarfsemi sem félagsaðilar stunda og getur þannig ekki verið um að ræða viðbótarstarfsemi heldur verður að vera starfsemi sem er í beinum tengslum við atvinnurekstur þeirra félaga á svæðinu sem aðild eiga að evrópsku hagsmunafélagi. Félagið má t.d. ekki stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi gagnvart þriðja aðila. Þannig er félagsformi þessu eingöngu ætlað að auðvelda sameiginlega hagsmunagæslu fyrirtækja í samstarfi á hinu Evrópska efnahagssvæði. Dæmi um slíkt félagasamstarf gæti t.d. verið samstarf Flugleiða og SAS um ferðamál. Þeim væri sem sé heimilt að stofna hagsmunafélag til þess að greiða fyrir samvinnu sinni í ferðamálum og ferðaþjónustu. Það hagsmunafélag má ekki sinna öðrum viðfangsefnum en þeim viðfangsefnum sem aðildarfélögin stunda. Það má ekki stunda atvinnustarfsemi gagnvart þriðja aðila heldur er þarna eingöngu um að ræða leið til að greiða fyrir samvinnu aðila.
    Þetta frv. er út af fyrir sig fylgifrv. frv. til laga um hlutafélög og frv. til laga um eignarhlutafélög sem ég mælti fyrir fyrir ekki svo löngu síðan. Þá tók ég fram að þau frumvörp væru flutt nú til kynningar og til að undirbúa afgreiðslu þeirra en það væri ekki gert ráð fyrir því að frumvörpin hlytu afgreiðslu á þessu vorþingi. Þess vegna, frú forseti, vil ég gjarnan spara langt mál í framsögu með þessu frv. því að mín meining er sú að það fái sömu meðhöndlun í hv. efh.- og viðskn. sem væntanlega fær frv. eins og hin tvö, þetta verði lagt fram til skoðunar og glöggvunar, e.t.v. sent til umsagnar ef hv. nefnd telur það skynsamlegt en það sé ekki stefnt að því að reyna að afgreiða málið á þessu þingi heldur verði tekinn rýmri tími til að skoða þetta frv. og önnur frumvörp sem ég hef þegar getið um og eru fylgifrumvörp með þessu frv. eða öllu heldur er þetta frv. fylgifrv. með frv. til laga um hlutafélög sem er meginefni þeirrar lagabreytingar sem verið er að stefna að og tengist Evrópsku efnahagssvæði. Það er nauðsyn á því að reynt sé að afgreiða þessi frumvörp fyrir nk. áramót. Það ætti að vera hægt að gera það á haustþingi, einkum og sér í lagi ef einhver vinna er lögð í það núna í vor og vonandi í sumar að skoða þessi mál og gefa umsagnaraðilum tækifæri til að fjalla um þau.
    Ég vil því að svo stöddu ekki hafa fleiri orð um þetta mál, frú forseti, en legg til að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.