Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:10:56 (6070)


[18:10]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vill oft verða svo að þó að mál séu þæfð mikið og lengi þá hverfa þau úr huganum. Ég man ekki betur en einmitt þetta mál --- og nú er horfið úr mínum huga ekkert síður en huga annarra þingmanna þrátt fyrir miklar umræður í fyrra --- ég man ekki betur heldur en þetta mál hafi einmitt verið þrautrætt í umræðum um staðfestingu samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og ef mig minnir rétt, og nú þori ég ekki að fullyrða meira en minni mitt hrekkur til, þá var niðurstaðan sú að það þyrfti ekki að prenta allt reglugerðaverkið sem við höfum samið um að öðlist lagagildi á Íslandi í hinu íslenska lagasafni þannig að í hinu íslenska lagasafni kæmi frv. þetta eins og það lítur út núna, ef það verður samþykkt óbreytt, það kæmi í lagasafnið. En reglugerðirnar, sem fá lagaígildi, yrðu ekki prentaðar með hinu íslenska lagasafni en yrði þá til sem einhvers konar viðhengi eða handbók nákvæmlega eins og þær tilskipanir sem liggja nú á borðum okkar í eitthvað 2.500 blaðsíðum þannig að til frekari áréttingar mætti þá slá upp í þeirri viðbót til frekari skýringar á hinu íslenska lagasafni. En ég ítreka: Nú brestur mig minni, virðulegi forseti, hvernig niðurstaðan var í þessu margþæfða máli í fyrra en ég held að ég fari hér rétt með enda samræmist uppsetningin á frv. þeim skilningi eða þeirri túlkun.