Merkingar varðandi orkunotkun heimilistækja

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:37:19 (6080)


[18:37]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér kemur enn eitt frv. sem er lagt fram til þess að fullnægja skilyrðum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég get ekki varist því að nefna hérna það sem stendur í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun heimilistækja og annars er varðar rekstur þeirra.``
    Stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Ég hefði haldið að það þyrfti ekki að setja það sérstaklega í lög að tryggja það að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Ég hefði haldið að bæði orkufyrirtæki og þeir sem nota orkuna reyni að nýta hana á skynsamlegan hátt.
    Hvað varðar það að þetta sé til þess að auðvelda fólki að taka ákvörðun um það hvort það kaupi heimilistæki vegna hávaða eða annarra slíkra atriða þá sýnist mér að þarna sé forræðishyggjan nokkuð mikil þar sem ég held að menn og konur séu fullfær um það sjálf að ákveða hvort þau kaupi heimilistæki fyrir hávaða sakir eða ekki. Ég get nefnt það sem dæmi að hrærivélar til heimilisnota eru mjög misjafnlega hávaðasamar og ég hefði haldið að húsmæður þessa lands og þeir sem yfirleitt þurfa að nota þau tæki séu fullfær um að ákveða það sjálf hvort þau kaupi þær vegna hávaða eða ekki. Mér sýnist þetta frv. vera eitt af þeim sem við eiginlega þyrftum ekkert að hafa hér yfir okkur en það er eins og annað sem leiðir af hinu Evrópska efnahagssvæði að það er hvað eftir annað verði að taka til umræðu og eyða tíma í að fjalla um frumvörp til laga sem eru nánast hin fáránlegustu fyrirbrigði. Vel má vera að eitthvað í þessu frv. sé til bóta en svona í fljótu bragði sýnist mér þetta sem ég hef nú verið að segja vera það sem upp úr stendur.