Merkingar varðandi orkunotkun heimilistækja

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:40:00 (6081)


[18:40]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla hvorki að ræða um skynsemi né hávaða. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þetta frv. og eins það síðasta sem hæstv. viðskrh. mælti fyrir er sett upp með allt öðrum hætti en það sem ég var að ræða áðan. Hér er sá háttur hafður sem ég taldi að væri eðlilegur að við reyndum að búa til löggjöf sem hentaði íslenskum aðstæðum og Íslendingum sem þurfa að vita hvaða lög eiga að gilda hér á landi. En bæði þetta frv. og það síðasta er til þess að fullnægja samt sem áður skyldum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í athugasemdum við frv. sem flutt var í fyrra um neytendalán kom fram að verið væri að fullnægja tilskipunum um það á sama hátt og er nú um þetta frv. sem er hér til umræðu um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja. Mér virðist því að það geti verið ákvörðunaratriði ráðuneyta hverju sinni hvaða hátt þau hafa á þessu að fullnægja því sem við höfum skuldbundið okkur til að lögtaka hér á landi eða öðruvísi get ég ekki skilið þennan mismun.