Merkingar varðandi orkunotkun heimilistækja

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:50:17 (6083)


[18:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. sagði áðan að það væri ekki hagur orkufyrirtækjanna að draga úr orkusölu. Það hefur samt stundum verið hagur þeirra líka að geta dregið úr orkusölu þegar orkan er ekki alveg næg, t.d. þegar rafmagnstruflanir verða. Vegna þess að hann vitnaði hér í að við hefðum fengið mjög margt gott með EES og reyndar nefndi hann upphefð sem ég vil ekki taka mér í munn að við höfum öðlast með EES, þá hefur enginn neitað því að ýmislegt gott hefur leitt af EES því að ýmis lagasetning sem við höfum verið neydd að taka inn vegna þess samnings hefur verið gott mál og ekkert við því að segja og við höfum aldrei neitað því að ýmislegt gott í lagasetningu hafi leitt af þessum samningi. En gallarnir eru samt sem áður í miklum meiri hluta.
    Hvað varðar það að hér þurfi nauðsynlega að koma þessum skýringum á til notenda, t.d. með ísskápa, hvað þeir noti mikið af rafmagni, til þess að neytendur geti dregið úr orkunotkun, þá get ég nú upplýst hæstv. ráðherra um það vegna þess að það er ekkert mjög langt síðan að ég keypt mér nýjan ísskáp, að það fylgja yfirleitt öllum ísskápum ákveðnir leiðbeiningarpésar þar sem m.a. kemur fram hvað hver og ein tegund af ísskáp notar mikið af rafmagni. Það er tilgreint alveg nákvæmlega í kílóvöttum þannig að það fer ekkert á milli mála ef fólk er að kynna sér hlutina getur það bara lesið leiðbeiningarpésa sem fylgja og fengið þar að vita hversu mikið hver ísskápur eyðir og sama gildir um ýmis önnur heimilistæki.