Fákeppni og samkeppnishindranir

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:23:22 (6089)


[15:23]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi svör og langt og ítarlegt plagg sem ég hef fengið og hæstv. ráðherra hafði ekki tíma til þess að lesa upp úr að fullu og öllu. Út af fyrir sig er það fagnaðarefni, í vissum tvíbentum skilningi þó, að fjölmörg erindi hafa borist Samkeppnisstofnun. Þau eru auðvitað til marks um það að viðskiptalífið er vel vakandi gagnvart þessum nýju ákvæðum samkeppnislaganna og menn eru að reyna að leita réttar síns og það er gott. Á hinn bóginn er það kannski vísbending um það hversu mikil tortryggni ríkir hér í garð þess að um fákeppnisástand sé að ræða og í raun og veru ónóga samkeppni til þess að tryggja eðlilega verðlagningu og eðlilega viðskiptahætti.
    Miðað við þennan upplestur virtust mér fljótt á litið flest málin tengjast því að menn væru sem sagt með óréttmætum hætti að bera sig saman eða um óleyfilegt samráð væri að ræða af einhverju tagi eða önnur slík atriði, en minna fara fyrir málum sem ættu rót sína að rekja beint til fákeppnisákvæða laganna og þá sérstaklega t.d. 17. og 18. gr. sem fjalla um óleyfilegan samruna fyrirtækja eða yfirtöku fyrirtækja í þeim tilgangi að ná eða styrkja markaðsráðandi stöðu sína.
    Það eru að mörgu leyti í mínum huga mikilvægustu greinar þessara laga en virðast ekki hafa haft margtæk áhrif enn þá, a.m.k. ekki miðað við þessi svör. Æskilegt og eðlilegt hefði verið að fá upplýsingar, sem e.t.v. koma að einhverju leyti í svörum við næstu fyrirspurn sem er málinu skyld, um hvort Samkeppnisstofnunin sjálf hafi tekið upp á sína arma að beita sér í slíkum tilvikum. Nú rekur mig minni til þess að fréttir hafi komið af því að markaðsráðandi risar á sviði samgangna og ferðaþjónustu hafi verið að kaupa sig dýpra inn í þann geira. Og eitthvað var í fréttum í vetur að ekki væri mikilli samkeppni fyrir að fara á sviði geisladiskaframleiðslu og hljóðritunar í landinu svo að dæmi séu tekin og hefði verið fróðlegt að fá að vita eitthvað ef fréttnæmt væri af slíkum hlutum.