Úttekt á hringamyndun

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:27:29 (6091)

[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Þegar samkeppnislög voru til meðferðar á Alþingi í fyrravetur og efh.- og viðskn. lagði í það mál mikla vinnu, þá var eitt af því sem talsvert var til skoðunar almennar samkeppnisaðstæður í þjóðfélaginu og spurningin um það hvort almennt séð væri fyrir hendi nægjanlega virk samkeppni og nógu fjölbreytilegur markaður á öllum helstu sviðum viðskipta til þess að forsendur væru í raun undir frjálsu fyrirkomulagi verðlagningar í viðskiptum og viðskiptaháttum. Það varð að samkomulagi í framhaldi, m.a. af brtt. sem ég hafði lagt fram við frv. ríkisstjórnarinnar, að bæta við lögin ákvæði til bráðabirgða sem skyldi koma til framkvæmda á árunum 1993 og 1994 og lúta að sérstakri úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja. Eins og segir í þessu ákvæði II til bráðabirgða, með leyfi forseta:
    ,,Samkeppnisráð skal á árunum 1993 og 1994 gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringmyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum.
    Samkeppnisráð skal skila niðurstöðum sínum til viðskrh. er síðan leggi þær fyrir Alþingi í skýrslu.``
    Þetta var mikilvægt ákvæði og mikilvægur hluti af því samkomulagi sem tókst um afgreiðslu samkeppnislaganna og var þessi brtt. sem að lokum var flutt af hv. nefnd við 3. umr. samþykkt með öllum atkvæðum nema einu en hv. þm. Björn Bjarnason treysti sér ekki til að styðja þetta ákvæði eins og víðfrægt varð. Í ljósi þess að nú er rúmlega ár liðið síðan þetta ákvæði tók gildi og talsvert liðið á seinna úttektarárið, en ég minni aftur á að til þess var ætlaður tíminn 1993 og 1994, þá hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurningu:
    ,,Hvað líður úttekt þeirri á stjórnunar- og eignartengslum og einkennum hringamyndunar í viðskiptalífinu sem samkeppnisráði ber að framkvæma, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í nýjum samkeppnislögum?``
    Ég er með þessu einnig að minna á þetta verkefni og undirstrika nauðsyn þess að í þetta sé ráðist og þessu verkefni lokið á tilskildum tíma. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að fá þessar upplýsingar, þessa vinnu unna, og fá þau gögn hingað inn á Alþingi.