Afurðalánaviðskipti ríkisbankanna

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:38:13 (6095)


[15:38]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Viðskrn. skrifaði ríkisviðskiptabönkunum, Búnaðarbanka íslands og Landsbanka Íslands, og óskaði eftir svörum við fyrirspurnum hv. þm. beint frá bönkunum. Það barst bréf frá Búnaðarbanka, dags. 18. febr., undirritað af tveimur bankastjórum og frá Landsbanka, dags. 21. febr., einnig undirritað af tveimur bankastjórum. Á þessum svörum byggi ég þau svör sem hér hafa verið saman tekin sem eru stutt og e.t.v. ekki fullnægjandi en engu að síður það sem fram kemur í gögnum bankanna og á öðru er ekki hægt að byggja.
    Í fyrsta lagi er spurt um hvaða skilyrði ný sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að uppfylla til að komast í lánaviðskipti við ríkisbankana. Í svari bankanna beggja kemur fram að engar sérstakar reglur gilda um afurðalán heldur sé ávallt lagt mat á rekstur og efnahag viðkomandi fyrirtækis. Bankarnir skoða áætlanir og rekstrarumhverfi, svo og markað fyrir vöruna svo og sölufyrirtæki, þ.e. hver annast söluna, sölusamninga, ef einhverjir eru, reynslu fyrirtækis og stjórnenda o.s.frv.
    Í öðru lagi er spurt hvort slík fyrirtæki þurfi að leggja fram aðrar tryggingar en afurðir og þá hversu verðmiklar. Í svari Landsbankans kemur fram að svo þurfi að vera en eðli og upphæðir þessara viðbótartrygginga fari eftir atvikum. Búnaðarbankinn svarar á líka vegu en tekur þó fram að venjulega sé krafist um 20--30% viðbótartrygginga en það getur þó verið meira. Það virðist því ljóst vera að báðir ríkisbankarnir krefjist tryggingar fyrir afurðalánum umfram verðmæti afurðanna sjálfra.
    Spurt er hvort öll sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í viðskiptum við ríkisbankana uppfylli áðurgreind skilyrði og tryggingar. Þessu telja bankarnir sig ekki geta svarað nema annar þeirra, Landsbankinn, vísar á endurskoðanda sem skipaður er af viðskrh. og á að fylgjast með viðskiptum ríkisbankanna. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að við uppgjör ársreikninga stærstu viðskiptabankanna þriggja fyrir liðið ár munu hafa verið afskrifaðar kröfur upp á yfir 5 þúsund millj. kr. Ég veit ekki hversu stór hluti af þeim afskrifuðu kröfum er vegna lána til sjávarútvegsfyrirtækja en ég tel líklegt að allverulegur hluti sé af þeim sökum. Það er því ljóst að þrátt fyrir þær tryggingar sem bankarnir hafa haft fyrir þeim viðskiptum sem þeir hafa átt við þessi fyrirtæki, þar á meðal tryggingar umfram verðmæti afurða í afurðalánum, hefur það ekki nægt til þess að koma í veg fyrir umtalsvert tap bankanna á viðskiptum við sum fyrirtækjanna.
    Í fjórða lagi er spurt hvort það sé stefna ríkisbankanna að taka ekki ný sjávarútvegsfyrirtæki í afurðalánaviðskipti. Þeirri spurningu svarar Búnaðarbankinn afdráttarlaust neitandi og tekur fram að ný fyrirtæki hafi verið tekin í viðskipti við þann banka á þessu ári. Landsbankinn bendir hins vegar á að 70% allra fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu sé í viðskiptum við hann og það hafi verið gerðar ítrekaðar athugasemdir við þetta háa hlutfall. Af þeim sökum sé bankinn tregur til að taka í viðskipti nýja aðila úr greininni, en eins og kunnugt er eru lánsviðskipti við sjávarútvegsfyrirtæki metin í hæsta áhættuflokk. Til að geta stundað þau og verið samt innan BIS-reglna, sem bönkunum er gert að starfa eftir, verður bankinn að eiga í eigið fé jafnmiklar upphæðir og hann ver til lána til slíkra fyrirtækja til að standast þær reglur sem honum eru settar.
    Í fimmta lagi er spurt hvernig ríkisbankarnir stuðli að nýsköpun í atvinnulífi um allt land og þá sérstaklega í sjávarútvegi. Bankarnir svara því á líkan veg og taka fram að um lánafyrirgreiðslu til nýsköpunar gildi engar sérstakar reglur. Slíkar lánsumsóknir séu metnar eins og hverjar aðrar.

    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan mega afhenda hv. fyrirspyrjanda gögn frá bönkunum, þ.e. þau svarbréf sem bankarnir sendu viðskrn. þannig að hann sjái frá fyrstu hendi hvernig hvor banki um sig svaraði fyrirspurnum hans.