Afurðalánaviðskipti ríkisbankanna

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:45:46 (6097)


[15:45]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins staðfesta það sem flestallir þingmenn ef ekki allir hafa sjálfir reynt, að þess eru dæmi og ekki mjög fá að ný fyrirtæki séu ekki tekin í afurðalánaviðskipti. En ég bendi mönnum engu að síður á það sem kemur fram og er nokkur frétt að báðir þessir ríkisbankar, og sjálfsagt allir bankarnir, gera kröfur um meiri tryggingar til þess að taka fyrirtæki í afurðalánaviðskipti heldur en tryggingar í afurðunum sjálfum. Búnaðarbankinn tekur það sérstaklega fram að þar sé gert ráð fyrir því að 20--30% trygging sé veitt umfram tryggingarnar í afurðunum.
    Frekar get ég út af fyrir sig ekki um þetta sagt. Þetta er að sjálfsögðu vandamál vegna þess að bankastjórnirnar taka þessa ákvörðun sjálfar og hafa fullt umboð til þess. En því er ekki að leyna að þessir erfiðleikar koma í veg fyrir það að menn geti nýtt sér þau atvinnufæri og þá möguleika sem menn hafa, takmarkaða þó, í byggðum víðs vegar um landið.