Samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:54:26 (6100)


[15:54]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Þau eru út af fyrir sig fullnægjandi svo langt sem þau ná, þ.e. svarið við fyrstu spurningunni var í raun tæmandi. Það kom fram hverjir annast þessa upplýsingagjöf og sömuleiðis í grófum dráttum svarið við annarri spurningunni hverjir fá álitsgerðir sjóðsins í hendur. Mér var að sjálfsögðu kunnugt um það sem ráðherra á sinni tíð að ráðherrar fengu þessi álit eða drög að skýrslu eftir heimsókn hverju sinni og síðan einhver þrengri hópur ráðherra og ráðuneytisstjóra hinar endanlegu skýrslur.
    En svarið við þriðju spurningunni er komið út á það þokusvæði sem lengi hefur verið mönnum nokkur ráðgáta víða um heim, ekki bara á Íslandi, og það er sú leynd sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hjúpað sig gagnvart endanlegri ráðgjöf sinni, eftirliti sínu, með fjárhag ríkja. Það er ekkert leyndarmál að sjóðurinn liggur undir verulegri tortryggni víða um heim sem beinist að því að hann hafi í miklu ríkari mæli hönd í bagga með fjármálastjórn nokkurra ríkja heldur en hann vill vera láta og gefur uppi. Svipuð umræða hefur svo sem farið fram hér á Íslandi um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi jafnvel á köflum sett íslenskum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar eða mælt fyrir um hvernig menn skyldu haga sér í sambandi við ýmsar stærri fjárfestinga- og peningamálaákvarðanir. Það var inn í þetta þokumistur sem ég hafði sérstaklega áhuga á að lýsa og þar kom svo sem ekki mikið fram annað en að þetta væri í starfsreglum sjóðsins og því beint til aðildarríkjanna að virða þetta.
    Ég teldi fullkomlega ástæðu til þess að fara betur yfir þessi mál og kryfja það til mergjar hvort það sé að öllu leyti eðlilegt að þessar upplýsingar séu svona meðhöndlaðar.
    Varðandi hinar tölulegu staðreyndir og annað því um líkt, þá er það sjálfgefið að þær komi fram, en þegar kemur að hinu pólitíska mati og áliti og hinu svokallaða eftirlits- eða ráðgjafarhlutverki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá er sem sagt þokan jafnsvört og fyrr eftir þessi svör hæstv. viðskrh.