Samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:56:49 (6101)


[15:56]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða reglur um trúnað sem framkvæmdastjórn sjóðsins hefur sett sér og aðildarríkin fallist á og virt. Það er hins vegar hverju aðildarríki í sjálfsvald sett hvort stjórnvöld þess taka upp á því að birta þetta eða ekki. Ég hef nú séð nokkrar slíkar skýrslur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ég get fullyrt af því sem ég hef séð að þar er engin óeðlileg afskiptasemi á ferðinni. Þar er mjög eðlileg niðurstaða dregin af þeim tölum og upplýsingum sem gefnar eru og með engum hætti reynt að taka ráðin af íslensku ríkisstjórninni eða segja henni fyrir verkum. Ég tel sjálfsagt að sama hafi verið reynsla hv. þm. þegar hann var ráðherra og tók við slíkum skýrslum og ég efast um það að hann geti nefnt nokkur dæmi frá þeim árum þar sem segja mætti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi með einhverjum hætti haft óeðlileg afskipti af íslenskum efnahagsmálum eða stjórn þeirra.
    Ég segi það hér að ég sé ekki að það sé neitt öðruvísi meðhöndlun í þessari umfjöllun starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur en maður sér í ritum fjölmargra annarra fjölþjóðlegra stofnana sem fjalla um efnahagsmál eða koma að íslenskum efnahagsmálum með einum eða öðrum hætti og vil þá t.d. nefna OECD. Þær upplýsingar sem þaðan komu eru ekki trúnaðarmál heldur birtar. Þær valda oft talsverðu fjaðrafoki í pólitíkinni á Íslandi en ég held að enginn telji að með þeim sé OECD að hafa óeðlileg afskipti af stjórn íslenskra efnahagsmála og slíku er ekki fyrir að fara að mínu áliti hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.