Kaup á slökkvibílum fyrir Flugmálastjórn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:04:00 (6103)


[16:04]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvað hafi ráðið úrslitum um að Flugmálastjórn gekk til samninga við erlendan framleiðanda um raðsmíði fimm slökkvibíla til afhendingar á árunum 1992--1995. Því svarar Flugmálastjórn svo:
    ,,Þegar ákveðið var að Flugleiðir hf. mundu endurnýja innanlandsflugflota sinn úr Fokker 27 yfir í Fokker 50 var ljóst að eldvarnarflokkur flugvalla þeirra sem Flugleiðir hf. fljúga til, mundi hækka um einn flokk samkvæmt ICAO Annex 14 þar sem Fokker 50 er þrem metrum lengri en Fokker 27.
    Á árinu 1991 var hafinn undirbúningur að þessari breytingu með því að gerð var verðkönnun meðal nokkurra helstu framleiðenda slökkvibíla í nágrannalöndunum. Ekki var Flugmálastjórn á þeim tíma kunnugt um að neinn íslenskur framleiðandi væri fyrir hendi vegna framleiðslu slökkvibíla. Fimm erlendir aðilar sýndu málinu áhuga og gerðu verðtilboð. Að vel athuguðu máli var samið við norskan aðila, O.C. Akselsen Fabrikker, í samvinnu við austurríska fyrirtækið Resenbauer, enda lægstu tilboð.
    Samningur við O.C. Akselsen Fabrikker var síðan undirritaður 23. júlí 1991 og kom fyrsti bíllinn til landsins í maí 1992.``
    Í öðru lagi er spurt: ,,Var innlendum framleiðendum gefinn kostur á sambærilegum samningum?`` Eins og áður er getið var Flugmálastjórn ekki kunnugt um neinn innlendan aðila á þessu sviði á þeim tíma.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Kemur til álita að slíta samstarfinu við hinn erlenda framleiðanda og gefa innlendum aðilum kost á að framleiða þá bíla sem á að afhenda á næstu árum?`` Flugmálastjórn svarar því svo:
    ,,Það er skoðun Flugmálastjórnar að ekki komi til álita að slíta samstarfinu við hinn erlenda framleiðanda, enda tilboðið miðað við magn, þ.e. fleiri en einn slökkvibíl, og kann þessi erlendi framleiðandi hugsanlega að eiga skaðabótakröfu á Flugmálastjórn ef samstarfinu verður slitið. Þess ber þó að geta að það eru ákvæði í samningnum um að fjárveitingar til kaupanna verði að vera fyrir hendi hverju sinni.``
    Ég hef ekki neinu við þetta að bæta frá eigin brjósti að öðru leyti en því að mér finnst ábending hv. þm. athyglisverð og rétt að athuga það hvort unnt sé að beina þessum pöntunum í annan farveg. Það er sjálfsagt að athuga það mál.