Ágangur sjávar og hefting sandfoks við Vík í Mýrdal

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:16:21 (6107)


[16:16]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans þó ég sakni þess að málið skuli ekki afgreitt í ríkisstjórn því að staðreyndin er sú að þeir menn sem þar sitja ná því miður saman um fæst verkefni núna síðustu vikur og mánuði. En ég vænti þess að hæstv. ráðherra fylgi þessu fast eftir og afgreiði það í fyrramálið.
    Þó þetta sé ekki sú framtíðarvörn sem þarf að gera í Vík, þá held ég að ráðherrann hafi minnst á atriði sem er mikilvæg byrjun til að stöðva það að sandurinn og sjórinn eigi beina leið inn í þorpið. Auðvitað hlýtur framtíðin að vera sú að þarna verði byggður á um það bil 2 km kafla varanlegur garður þó að vandinn sé sá hversu djúpt er á fast og ekki auðvelt að ná í gott efni þar sem þyrfti sjálfsagt blágrýti í slíkan garð. Það hlýtur að vera sú eina framtíð sem við sjáum í þessum vörnum. Ég geri mér grein fyrir því að ef þær flóðavarnir sem hæstv. ráðherra hér kynnti ná fram, þá eru menn komnir þarna í verulegt varnarstarf sem veitir íbúunum öryggi.
    Kostnaðurinn af þessu er ekki hár. Ráðherra talaði ekki um nema 24 millj. Auðvitað sjáum við að það telst ekki mikið samanborið við kannski hönnunarkostnað á Þjóðleikhúsi, sem mig minnir að hafi verið eitthvað á annað hundrað millj. og enginn hikstaði, þótt settar séu 24 millj. í að verja þetta landsvæði og þær miklu eignir sem þar fólkið á.
    En ég vænti þess að hæstv. ráðherra fylgi þessu máli fast eftir og áfram verði unnið að þeirri framtíðarlausn sem þetta byggðarlag þarf á að halda.