Ágangur sjávar og hefting sandfoks við Vík í Mýrdal

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:18:52 (6108)


[16:18]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna hv. þm. lýsir yfir vonbrigðum sínum yfir því að málið skuli ekki hafa verið tekið upp í ríkisstjórn. Ég gaf á því alveg eðlilegar skýringar. Það hefur enginn dráttur orðið á þessu máli síðan ég ræddi við forsvarsmenn Víkur, þeir hafa fylgst með málinu og það er í fullum gangi.
    Ég vil í annan stað segja að því miður er ekki grjót þarna neins staðar nálægt. Það verður að fara töluvert austur á bóginn, ég kann ekki örnefni, austur á Mýrdalssand til þess að finna fullnægjandi grjót. Ég man ekki hvað það er kallað. Í öðru lagi er mjög djúpt niður á fast. Það er verið að tala um tugi metra.
    Ég vil bæta því við að það er talið að eyðingin í Vík stafi e.t.v. af því að þær lægðir sem komið hafa yfir landið ná nú lengra út á hafið en áður sem þýðir það að ölduhæð verður meiri þó svo vindhæð sé sú sama og áður. Ég vil líka segja, að Hafnamálastofnun er með í athugun hvort hætta sé á því eða komið hafi fram að hafdýpið sé að grafa sig nær landinu. Það voru gerðar dýptarathuganir á sl. sumri sem verða athugaðar næsta sumar og á næstu árum til að fylgjast með því hvernig dýpið er úti fyrir ströndinni.