Aðstoð við bændur vegna harðinda á síðasta ári

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:20:50 (6109)

[16:20]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fsp. til landbrh. á þskj. 731 sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvað miðar vinnu til að undirbúa aðstoð við bændur vegna harðinda sl. sumar samkvæmt heimild í 6. gr. fjárlaga? Hvað reiknar ráðherra með hárri upphæð til verksins og eftir hvaða reglum á úthlutunin að fara fram?``
    Þessi heimild var samþykkt við gerð fjárlaga um síðustu áramót. Það er nokkuð um það að bændur spyrji eftir því hver hafi verið meiningin með þessari sérstöku samþykkt, hvað líði uthlutun á þessum fjármunum og hvaða upphæðir ríkisstjórnin hafi haft í huga þegar farið var fram á þessa heimild við gerð fjárlaga.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en vænti greinargóðra svara frá hæstv. ráðherra.