Áfengislög

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:00:48 (6122)


[17:00]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er um tvenns konar breytingar á áfengislögum að ræða og ég hafði raunar átt von á því að hæstv. dómsmrh. kæmi með tillögur um jafnvel fleiri breytingar á áfengislögum á þessu vori. Þar á ég sérstaklega við að það hefur verið pottur brotinn varðandi áfengisauglýsingar og ýmsir innan áfengisvarnageirans hafa bent á að þarna þyrfti að hnykkja betur á og mig langar til þess að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé fyrirhugað að taka eitthvað á þeim málum eða hvort það á að halda málum óskýrum og þar með í óviðunandi horfi áfram.
    En varðandi þessi tvö efnisatriði þá finnst mér alveg sjálfsagt og eðlilegt að gera þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. þessa frv. þar sem eru tekin af öll tvímæli um að það sé ekki hægt að skýla sér á bak við einhvers konar skort á ásetningi ef menn eiga bruggtæki sem þeir hafa verið að nýta til þess að framleiða ólöglegt áfengi sem hefur yfirleitt verið beint í sölu til unglinga, og það jafnvel ungra barna og unglinga. Ef á einhvern hátt er hægt að taka af tvímæli um það að brugg sé ólöglegt og bruggtæki eigi að gera upptæk þá er að sjálfsögðu rétt að styðja það. Mér finnst það ekkert vafamál út af fyrir sig. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að þarna sé verið að taka á neinu öðru en því vandamáli sem er fyrir og lögregluembætti víða um land þekkja þetta vandamál mætavel og vita það að hér hafa menn getað skotið sér á bak við óljós lagaákvæði. Ég hef því ekki nokkrar efasemdir um að þarna er stigið rétt skref.
    Varðandi seinni breytinguna vil ég setja ákveðinn fyrirvara um það að þarna sé endilega verið að taka á málum með þeim hætti sem heppilegast væri. Ég vil hins vegar alls ekki loka á þetta og ég geri ráð fyrir að koma að þessu máli í nefnd þannig að ég hef þá tækifæri til þess að afla mér frekari upplýsinga því að þær eru mjög af skornum skammti hér í greinargerð eða athugasemdum við þetta frv. Ég held nefnilega að tækifærisleyfin séu ekki bara vandamál skattyfirvalda heldur einnig vandamál þeirra sem láta sig áfengisvarnir einhverju skipta og það sé e.t.v. ástæða til að líta á einhverjar aðrar leiðir en afslætti til þess að ná þeim takmörkum eða ná því takmarki eða þeim markmiðum sem þarna er leitað eftir og ástæða er til að reyna að ná. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra aðeins frekar út í það með hvaða hætti þetta rímar saman við áfengisvarnarstefnu, sem ríkisstjórnin hefur tekið undir í orði og alla vega einhverjir ráðherrar

ríkisstjórnarinnar einnig á borði, og fá frekari skýringar hans á því hvort hér er einungis verið að líta á skattahliðina eða hvort menn hafa einnig áfengisvarnir í huga þegar hugsað er um þann mikla fjölda tækifærisleyfa sem vissulega er veittur. Ég er alveg sammála þeirri hugsun að það væri æskilegt að fækka þeim en kannski ekki alveg á sömu forsendum eins og getið er um í þessu frv.