Áfengislög

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:05:10 (6123)


[17:05]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á áfengislögum er að ýmsu leyti ágætt, þ.e. hugsunin í þessu, en ég get nú ekki annað en lýst yfir vonbrigðum mínum með aðferðina, sem er hér verið að leggja til að verði beitt, því að mér finnst að það sé varla hægt að bjóða upp á það í lagatexta að tala um það það gera áhöld upptæk sem eigi að nota með ólögmætum hætti. Hvernig á að sanna það? Verður það þannig sannað að viðkomandi aðilar meðgangi það að þeir ætli að nota þessi tæki til að eima áfengi? Ég spyr að þessu og síðan að þessi tæki verði gerð upptæk án tillits til þess hvort þau hafi verið notuð til áfengisgerðar eða ekki. Mér finnst þetta kannski ganga út í öfgar hvernig menn ætli að taka þarna á málum og ég spyr: Er ekki hægt að ná alveg sama árangri með því að gera þeim aðilum sem framleiða slík tæki skylt að merkja þau og tilkynna um framleiðslu þeirra, hverjum tækin hafa verið seld og fylgjast þannig með því ef einhverjir eru að framleiða tæki af þessu tagi? Mér finnst einhvern veginn ekki geta gengið í lagasetningu að menn séu að gefa sér það að það eigi að nota tæki í ólöglegum tilgangi þegar fyrirsjáanlegt er að sannanir fyrir því verða ekki fyrir hendi, ef menn t.d. gera upptæk tæki sem eru í smíðum hjá framleiðanda, þá verða engar sannanir þar fyrir hendi um að það eigi að nota þessi tæki til einhverrar ólöglegrar starfsemi.
    Ég verð aftur að segja það um 2. gr. frv. að ég er henni alveg sammála. Ég tel að það sé rétt að þessi möguleiki sé til afsláttar, en ég spyr: Er ekki rétt að það sé líka settur einhver rammi utan um það hve mikill afsláttur geti þarna verið á ferðinni? Er ekki hætta á ferðum ef það verður farið að ganga mjög langt í því að hafa vín ódýrara til þessara aðila sem hafa miklar vínveitingar með höndum? Og ég spyr að því hvort það hafi ekki komið til tals að setja einhvern ramma inn í lögin um það með hvaða hætti megi nýta sér þessa afslætti. En aðalástæðan fyrir því að ég kom í ræðustól að spyrja hæstv. ráðherra: Hafa aðrir möguleikar en þessir sem lagðir eru til í 1. gr. frv. verið skoðaðir nægilega vel? Og ég beini því til hv. nefndar sem tekur þetta mál til meðferðar að þar verði tekið til umræðu hvort þetta sé rétta aðferðin við að stöðva bruggun á áfengi. En ég tek það sérstaklega fram að ég er fylgjandi því að reyna að ná tökum á framleiðslu á ólöglegu áfengi.