Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:38:01 (6131)


[13:38]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega svo í þingsköpum að það er heimilt að vísa máli til þingnefndar á hvaða stigi máls sem er. Hins vegar eftir að umræðum er lokið við 3. umr. eins og hér er um að ræða, þá hefur það í raun og veru ekkert upp á sig efnislega vegna þess að þingnefnd getur engu breytt um málið, hún hefur ekki leyfi til þess að flytja brtt. við mál sem er komið jafnlangt í afgreiðslu og það mál sem hér er um að ræða. Það er jafnframt rétt að benda á að allar þær brtt. sem samþykktar hafa verið í þessu máli eru frá sjálfri nefndinni þannig að frv. eins og það lítur út núna er nákvæmlega eins og hv. heilbr.- og trn. vildi hafa það og lagði til. Sú tillaga sem hér er fram komin er því óþörf og mun engu breyta um meðferð málsins.
    Ég hlýt jafnframt að benda á það eins og ég hef áður gert í umræðum um þetta atriði að þess eru mýmörg dæmi að málum sé breytt við 2. og 3. umr. með miklu róttækari hætti efnislega séð heldur en hér er um að ræða. Ég hef í fórum mínum ýmis dæmi um það, m.a. frá þessu þingi þar sem við 3. umr. um mál, svokallaða bandorma, hafa verið teknar inn breytingar á öðrum lögum en þeim sem áður voru inni í bandorminum. Það er því rangt að þetta sé eitthvert nýmæli. Hér er um að ræða smábreytingu á frv. sem að vísu skarast við önnur lög en er efnisleg afleiðing þess sem áður var í frv. þannig að hér er ekki um að ræða neitt það stórmál sem látið er í veðri vaka, þvert á móti.
    Ég mun ekki hafa afskipti af því hvort þetta mál fer aftur til hv. heilbr.- og trn. en ég bendi á að það hefur enga efnislega þýðingu fyrir málið. Ég sé að hv. formaður nefndarinnar hefur kvatt sér hljóðs og það er rétt að hann tjái sig um það hvað honum finnst um það efni, en ég bendi á að það skiptir engu efnismáli hvort svo verður eða ekki.