Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:13:10 (6155)


[15:13]
     Petrína Baldursdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nokkur orð vegna þess sem hv. síðasti ræðumaður hv. 18. þm. Reykv., Guðrún J. Halldórsdóttir, sagði. Hún staldraði hér við markmiðin og var með athugasemdir við þau. Ég vil bara segja að ég tel mjög eðlilegt að þegar löggjafinn er að setja lög um, mér liggur við að segja allt, og ég tala nú ekki um eins og um leikskóla, um grunnskóla og það sem við erum að gera, að það séu sett fram háleit markmið sem við stefnum að að ná. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að það verður mjög erfitt að ná fram öllum þessum markmiðum. En við hljótum að verða að setja okkur markmið til að stefna að. Það held ég að fari ekkert á milli mála. Ef ég skildi rétt þá hafði hún áhyggjur af því eins og þessu atriði ,,að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna``, með leyfi forseta, vitna ég hér í frv. Ég held að þetta sé markmið sem leikskólakennarar treysta sér alveg til að ná, ,, . . .  að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barnanna``. Þetta leitumst við við með okkar starfi inni í leikskólanum að ná. Þetta er markmið sem við setjum okkur. Það eru hins vegar náttúrlega einmitt rannsókna- og þróunarstörf sem eiga kannski að meta það hvernig til tekst.

Og ,,að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun.`` Kannski er þetta svolítið löng og erfið setning og leiðinleg, ég skal ekki draga það í efa. En þetta er bara mjög góð setning að öðru leyti, inntakið í henni. Stærsti hluti íslensku þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og sveitarfélögin reka leikskólana, við leitumst við að efla kristilegt siðgæði barnanna --- ef einhver önnur trúfélög reka leikskóla þá koma þau sennilega til með að gera það í sínum anda og efla það siðgæði sem þau leggja mest út af í sinni trú.