Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:17:25 (6158)


[15:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrar konur sem hér hafa talað fagna þessu frv. sem er komið fram. Það sýnir sig að með þessu frv., ef að lögum verður . . .   ( SvG: Kom það mál að börnunum þá eða . . .  ) Vegna frammíkalls, virðulegi forseti, þá get ég upplýst að því miður þurfti ég að bregða mér frá hér í hálftíma og kannski hafa einhverjir karlmenn tekið til máls á meðan en það er mjög algengt að konur taki hér til máls um þessi mál þannig að ég hef ekki heyrt í öðrum síðan ég kom hér inn aftur. En ég vona svo sannarlega að bæði hv. þm. og fleiri karlmenn hér taki einnig til máls um þetta og hafi áhuga á málinu.
    En það eru ekki mjög gömul lög sem þetta frv. á að taka við af ef að lögum verður. Þau eru frá árinu 1991 þannig að ég fagna því að þessi mál skuli sífellt vera í endurskoðun. Það segir hér í athugasemdum við frv. að að samningu þessa frv. hafi komið allmargir því það hefur ekki verið eingöngu ráðuneytisfólk sem hefur verið að semja þetta frv. heldur verið fulltrúar frá hinum ýmsu aðilum, bæði Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Foreldrasamtökunum og Fósturfélaginu og síðan frá ráðuneytinu. Þannig að ég tel að hér hafi menn komið ýmsum þeim sjónarmiðum að sem nauðsynlegt er að fjallað sé um í slíku frv.
    Ég vil einnig lýsa ánægju minni með að hér skuli vera gert ráð fyrir ákveðinni tengingu við grunnskólann hugsanlega með sameiginlegri nefnd sem fjallaði um grunnskólann og leikskólann. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að tengja þessi skólastig betur saman en gert hefur verið. Það hefur verið vísir að því að tengja þau saman, ég þekki það sjálf sem grunnskólakennari að leikskólabörnin koma gjarnan á síðasta ári áður en þau fara í grunnsklólann til kynningar í þann grunnskóla sem þau síðan eiga að vera í og kynnast starfinu, fá jafnvel að taka þátt í ýmsum uppákomum þar. Ég hugsa að þetta sé samt erfiðara í framkvæmd í stórum sveitarfélögum þar sem er fleiri en einn grunnskóli. Þetta er ekki mikið vandamál í minni sveitarfélögum þar sem er einn leikskóli og einn grunnskóli. En hugsanlega þarf að skoða framkvæmdina á þessu í stærri sveitarfélögum.
    Markmið þau sem eru í 2. gr. þessa frv. eru mjög góð og samkvæmt því sem segir í athugasemdum með frv. þá eru þau nánast þau sömu og eru í núgildandi lögum og ég vil lýsa yfir ánægju með að ekki er nein afturför í því heldur jafnvel horft fram á við. Ég ætla ekki að fara neitt nákvæmlega í öll efnisatriði frv., það er búið að gera það mjög vel hér á undan mér. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir hennar framlag við þetta og einnig hefur hv. 18. þm. Reykv. farið mjög vel í gegnum þetta frv.
    Nokkrar greinar hef ég þó aðeins staldrað við sem ég vil koma á framfæri athugasemdum við. Það

segir í athugasemdum við frv. á bls. 6.:
    ,,Með þessari breytingu er felld niður aðkoma ríkisins í öllu er varðar fjárhagslegan stuðning við rekstur og byggingu leikskóla.``
    Síðan segir aftur á móti í athugasemdum frá fjmrn., með leyfi forseta:
    Fjárveiting til þróunarsjóðs leikskóla (liður 02 720 1.33) nemur 3,2 millj. kr. á fjárlögum 1994. Gert er ráð fyrir að hún haldist áfram en styrkir úr sjóðnum eru veittir árlega. Þá nemur fjárveiting til dagvistar fatlaðra forskólabarna (liður 02 750 1.40) 83,6 millj. kr. á fjárlögum 1994. Ekki er áformað að fjárveiting þessi breytist að sinni verði frumvarp þetta að lögum. Samið verður síðar við sveitarfélög um fjármögnun þessa verkefnis þegar grunnskólar og málefni fatlaðra færast til sveitarfélaga.``
    Mér finnst þarna nokkuð stangast á þar sem í athugasemdum segir að það sé felld niður aðkoma ríkisins í öllu er varðar fjárhagslegan stuðning við rekstur og byggingu leikskóla en jafnframt er síðan sagt að það muni halda áfram. Mér finnst reyndar mjög eðlilegt að þróunarsjóður leikskóla fái fjárframlag og það sé einnig veitt fé í dagvist fatlaðra forskólabarna. Það er þess vegna spurning til hæstv. menntmrh. hvernig hann útskýrir þetta misræmi hér.
    Þá er einnig í 8. gr. þessa frv. kveðið á um að sveitarstjórnir eða sveitarfélög skuli ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými og síðan gera áætlun til þriggja ára um uppbyggingu leikskóla. Það er í sjálfu sér eðlilegt að það standi en hins vegar segir hér um 8. gr. í athugasemdunum, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarfélög skulu ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými. Á grundvelli þess mats verði gerð áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og skal við gerð hennar höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins.``
    Það á sem sagt ekki að taka tillit til niðurstöðu könnunar á leikskólarýmisþörf og það á að taka aðallega tillit til og byggja áætlanir á heildstæðu mati á þörfum sveitarfélagsins, ekki á þörfum barnanna í sveitarfélaginu. Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé verið að taka meira tillit til beinna þarfa sveitarfélagsins í e.t.v. einhverjum þeim málum sem ekki snerta hagsmuni barnanna þar sem það er ekki tilgreint hér. Jafnframt hafa sveitarfélögin samkvæmt núgildandi lögum átt að uppfylla það að hafa leikskólarýmispláss fyrir börnin eða samkvæmt þeirri eftirspurn sem er og eiga að vinna að því að það náist á 10 árum. Þetta ákvæði er fellt niður núna í þessu frv. þannig að sveitarfélögin ráða því núna sjálf hve langan tíma þau taka í það að uppfylla þessa dagvistarþörf eða leikskólaþörf. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé verið að draga úr þessu markmiði, þ.e. hingað til hefur það verið að það ætti að nást innan tíu ára en nú er það opið hversu langan tíma sveitarfélögin taka sér til þessa og hver sé þá réttlætingin á því að horfið sé frá því að setja eitthvað fast markmið á það.
    Að öðru leyti sýnist mér þetta frv., eins og ég sagði í upphafi, sé af hinu góða og mjög gott að það skuli hér vera komið fram. Ég tel að það sé þörf á sífelldri endurskoðun á skólamálum og það sé ekki hvað síst þörf á því að endurskoða lög um leikskóla og setja sér þar markmið sem vinna á að því að lengi býr að fyrstu gerð. Það er mjög nauðsynlegt að þær skólastofnanir sem börnin fara fyrst í séu af þeirri gerð sem við viljum sjá þær.
    Að öðru leyti hef ég ekki sérstakt að athuga eða spyrja um svona á fyrsta stigi.