Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:53:25 (6162)


[15:53]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er varðandi ákvæðið í 8. gr. og það sem segir um hana í umsögn um frv. Það hefur komið nokkuð til tals hjá tveimur hv. þm. Það sem þarna er átt við það sem talað er um að við mat á könnun sem sveitarstjórn gerir um þörf fyrir leikskólarými í sveitarfélaginu, þá skuli höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins. Þarna er ekki átt við annað en það að sveitarstjórn verður að meta þetta atriði í samhengi við aðrar þarfir sem sveitarstjórnin þarf að sjá fyrir. Sveitarstjórnin þarf að forgangsraða sínum verkefnum innan þess ramma sem hún hefur á sviði fjármálanna. Það er það sem þarna er átt við.
    Hugleiðingar hv. þm. um hvort grunnskólinn eigi að vera verkefni ríkisins eða sveitarfélaganna eru út af fyrir sig athyglisverðar og ég skil hans rökstuðning. Ég met alveg hans skoðanir þó að ég sé þeim ekki sammála en það eru auðvitað rök út af fyrir sig að þar sem skólaskyldan er skuli hún kostuð af ríkinu. Þannig er það með grunnskólann. Mér þótti athyglisvert það sem hann sagði m.a. að framhaldsskólinn, ég skildi hann svo, kæmi þá kannski sterkar inn á svið sveitarfélaganna en hann gerir núna. Það held ég að verði einmitt þróunin þótt tíminn sé ekki nægilega þroskaður nú til þess að framhaldsskólinn komi fremur inn á svið sveitarfélaganna en hann gerir núna en nú er rekstur hans greiddur að fullu af ríkinu.
    Hv. þm. sagði að gallinn við þetta frv. væri sá að það breyttu engu þar sem ekki væri neitt peningalegt innihald í frv. eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það. Það er vissulega rétt og það er einmitt megingallinn á frv. sem varð að lögum 1991 þegar það voru lagðar mjög svo auknar skyldur á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar fylgdu. Það er í sjálfu sér ekki verið að leggja auknar skyldur á sveitarfélögin núna með þessu frv. Skyldurnar voru komnar á sveitarfélögin með lögunum frá 1991 þegar ekki fylgdi eins og ég sagði sérstaklega auknir tekjustofnar en við þessu hafa sveitarfélögin brugðist með því að setja sér metnaðarfull markmið með að koma upp leikskólum eins og þarf, en auðvitað tekur það tíma fyrir þau, misjafnlega langan eftir aðstæðum.
    Ég er alveg sammála hv. þm. Svavari Gestssyni að það þarf að setja þetta mál í menntunarlegt samhengi eins og hann orðaði það og það er auðvitað verið að gera það. Við erum að endurskoða kennaramenntunina í heild og við erum að endurskoða allt skólakerfið í landinu og þar með leikskólann og um það held ég að við þurfum ekki að deila að á því er full þörf.