Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:57:39 (6163)


[15:57]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum. Þegar frv. að þessum lögum, nr. 83/1993, var lagt fram á síðasta þingi, 116. löggjafarþingi, þá var gert ráð fyrir að það tæki til allra almennra tilskipana um gagnkvæma viðurkenningu, menntun og starfsþjálfun sem fylgja EES-samningnum. Hins vegar þótti þingmönnum óvarlegt að samþykkja frv. nema tekið væri fram til hvaða tilskipunar það tæki. Gildissvið frv. var þess vegna þrengt í meðferð þingisns þannig að lögin taka aðeins til tilskipunar 89/48/EBE sem fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur a.m.k. í þrjú ár. Breytinguna, sem hér er lagt til að gerð verði, þarf að gera til þess að lögin taki einnig til tilskipunar 92/51/EBE sem tekur gildi í sumar en sú tilskipun fjallar um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE.
    Breytingarnar sem frv. felur í sér frá gildandi lögum um þetta efni frá síðasta þingi eru þess vegna eingöngu fólgnar í því að það er bætt inn í lögin með þessu frv. hinni nýju tilskipun, þ.e. 92/51/EBE í 1. gr. laganna.
    Í 2. og 3. gr. frv., í 2. og 4. gr. laganna, er eina breytingin sú að orðið ,,tilskipun`` verður í fleirtölu þar sem nú er vísað til tveggja tilskipana í stað einnar áður.
    Ég vísa að öðru leyti til athugasemda með frv., bæði nú og frá síðasta þingi, og legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til hv. menntmn. að lokinni 1. umr.