Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:38:30 (6170)


[16:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í sjálfu sér þjónar engum tilgangi í þessu tilfelli að þræta stöðugt um það liðna. Það var út af fyrir sig slæmt að hæstv. ráðherra skyldi ekki einu sinni geta látið hjá líða í annars málefnalegri umræðu um samstöðumál að taka upp þennan staðlaða kafla sinn sem hann hefur flutt hér hvað eftir annað.
    Ég er ekkert viss um þegar við lítum á feril þessarar ríkisstjórnar varðandi landbúnaðarmál og berum saman við þá síðustu að það halli nú mikið á. Staðreyndin er sú að meðan þessi ríkisstjórn hefur setið hefur ekki náðst innan ríkisstjórnar samstaða um eitt einasta brýna, stóra hagsmunamál íslenskra bænda. Þar hefur verið stöðugur eldur og ófriður. Ég sæi það fyrir mér að við þær aðstæður hefði til að mynda tekist að gera nýjan búvörusamning eins og tókst þó í síðustu ríkisstjórn og var þó sami hæstv. utanrrh., án þess að ég ætli að fara að verja hann sérstaklega. Enda er það staðreyndin að það sem hefur gerst í þeim málum í tíð núv. ríkisstjórnar er að það hefur bara verið talað. Hæstv. ráðherra er búinn að tala um það bráðum í þrjú ár að það þurfi að endurnýja búvörusamninginn. En það er ekkert gert.
    Þannig að ég vil beina því til hæstv. ráðherra að hann líti nú á verk núv. ríkisstjórnar, þegar við ræðum um landbúnaðarmálin, en horfi ekki stöðugt til fortíðar sem því miður virðist verða það sem eftir standi þegar eftirmæli þessarar ríkisstjórnar verða gerð, að hún hafi fyrst og fremst horft til fortíðar en vanrækt algerlega það sem snýr að framtíðinni.