Framleiðsla og sala á búvörum

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:42:17 (6172)


[16:42]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir var lagt fram á síðasta þingi með örlítið öðru orðalagi. Eins og ég mun gera grein fyrir þá var það komið til 2. umr., einungis var eftir að greiða atkvæði. Ég vil láta í ljós óskir og vonir um að, þó það sé svo seint fram komið nú, þá muni landbn. taka því greiðlega og afgreiða það svo það geti orðið að lögum nú á þessu vori.
    Eins og frv. var lagt fram á síðasta þingi var fyrri málsliður þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landbúnaðarráðherra er heimilt að semja við Stéttarsamband bænda um önnur fráviksmörk greiðslumarks en um getur í 3. mgr. fyrir landsvæði þar sem sérstök ástæða þykir til gróðurverndar eða uppgræðsluaðgerða . . .  `` Hér er stungið inn: ,,fyrir landsvæði eða einstök lögbýli``.
    Við teljum að þetta sé greiðara og betra og gefi meiri möguleika til að ná árangri. Tilgangurinn með þessu frv. er að sjálfsögðu tvíþættur. Annars vegar sá að stuðla að því með jákvæðum hætti að verja svæði sem eru viðkvæm gróðurfarslega og hvíla landið. Bændum verði tryggt að þeir haldi framleiðslurétti á sínum jörðum og hér er talað um að þeir geti að hluta til eða að öllu leyti horfið frá sauðfjárbúskap en í stað þess tekið upp störf við gróðurvernd og uppgræðslu og haldið þá beingreiðslunum.
    Þetta mál hefur verið rætt við stjórn Stéttarsambands bænda og hún er hlynnt því að málið verði tekið upp með þessum hætti. Síðan er hér bætt við setninguna: ,,að höfðu samráði við umhverfisráðherra.`` Verður setningin þá ,, . . .  þar sem sérstök ástæða þykir til gróðurverndar eða uppgræðsluaðgerða að höfðu samráði við umhverfisráðherra.``
    Ég geri nú að vísu ekki ráð fyrir að umhvrh. geri athugasemdir þótt landbrh. meti það svo að einhvers staðar sé þörf á sérstökum aðgerðum til gróðurverndar eða til að græða upp land. Þannig að þessi setning er þess vegna ekki nema til fyllingar og má raunar minna á að skírskotað er til umhvrh. á öðrum stað í búvörulögunum sem virðist hafa verið samkomulag sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar ákvörðun var tekin um að Borgaraflokkurinn fengi þetta ráðuneyti. Við sjálfstæðismenn vorum eins og ég býst við að hv. þm. muni andvígir þeirri breytingu og töldum ekki þörf á sérstöku umhvrn.
    Hér er enn fremur gert ráð fyrir því að framleiðendur sem náð hafa 67 ára aldri eða hafa skerta starfsgetu vegna örorku geti náð sambærilegum samningum og bændur á svæðum sem eru viðkvæm gróðurfarslega.
    Ég hygg að þessi breyting geri hvort tveggja í senn að rýmka um kvótareglurnar eins og þær eru núna og gefa visst svigrúm sem gæti orðið okkur leiðbeinandi til framtíðar um það hvernig við getum losað um þau höft sem nú eru á búvöruframleiðslunni.