Framleiðsla og sala á búvörum

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:54:11 (6175)



[16:54]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Þessi mál hafa ekki verið rædd í einstökum atriðum við stjórn Stéttarsambandsins í þeim skilningi að þau séu komin á það stig að hægt sé að hægt sé að gera sér grein fyrir því hvort forsendur séu fyrir því að taka sérstakt tillit til hinna svokölluðu sauðfjársvæða. Það hefur löngum og lengi verið rætt hvort ekki sé rétt að taka tillit til ástands á afréttarlöndum, heimahögum. Það hefur verið rætt um það hvernig hægt sé að rétta við sauðfjársvæðin og það hefur raunar líka verið athugað hvaða svæði liggi best við þéttbýli þannig að bændur geti að hluta til sótt fjölskyldutekjur sínar eða heimilistekjur til vinnu á slíkum stöðum. Þessi mál hljóta öll að koma til athugunar í þeim viðræðum sem fara í gang milli landbrn. og Stéttarsambandsins um leið og þetta frv. verður að lögum, ef Alþingi samþykkir frv., sem ég geri mér vonir um. En það er of snemmt á þessari stundu að segja neitt ákveðið til um það.