Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:10:37 (6180)


[17:10]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér sjáum við enn eitt frv. sem tengist EES-samningnum. Ég velti fyrir mér varðandi 2. gr. frv., þar sem eru talin upp skilyrði fyrir því að hljóta leyfi, hver eigi að meta það, hvaða stjórnvöld. Er það samgrn. eða einhver sérstök nefnd eða hverjir eru það sem eiga að meta t.d. það að hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu og fullnægja skilyrðum með starfshæfni?
    Í 5. gr. frv. er talað um að samgrh. geti sett reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og síðan er talið upp, eins og sett var inn í mörg frv. sem tilheyra samgöngumálum á síðasta þingi, að samgrh. sé leyfilegt að setja reglugerð að því leyti sem það sé nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiði af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í hv. samgn. höfum við reynt að taka út þessar klausur og gefa ráðherra heldur almenna reglugerðarheimild frekar en tiltaka sérstaklega að hann hafi reglugerðarheimild fyrir lögum sem leiða af þessum samningi.
    Hæstv. samgrh. nefndi það áðan að þetta opnaði möguleika á því að flutningsaðilar gætu látið bíla flytja vörur sínar áfram. Hvað okkur varðar þá hlýtur það að bjóða upp á að aðilar sem eru að flytja vörur með skipum milli landa, ef það eru vörur frá hinu Evrópska efnahagssvæði, geti látið, við skulum segja bíla, um borð í skipin og haldið síðan áfram að flytja vöruna með bílunum. Ég velti því aðeins fyrir mér hvort þetta frv. bjóði upp á það að Eimskip fari að reka flutningabíla, flytja með sér og reka flutningabíla í ákveðnum löndum og þá einnig á Íslandi og hvort það geti ekki haft í för með sér að flutningsaðilar hér á landi sjái fram á það að hér verði tekin af þeim umtalsverð verkefni.
    Í athugasemdum við 3. gr. frv. segir að eftir ítrekaðar viðræður, bréfaskriftir og fundi hafi niðurstaðan orðið sú að Íslendingum hafi verið úthlutað tíu leyfum á árinu 1994, þeim eigi síðan að fjölga um 30% á ári til ársins 1998. Það ár falla allar hömlur á þessu flutningum úr gildi. Það segir jafnframt hér að eitt slíkt leyfi gildi fyrir einn vöruflutningabíl í tvo mánuði og mér er spurn: Er ekki hægt að láta leyfin gilda lengur? Þarf sífellt að vera að gefa út leyfi á tveggja mánaða fresti?
    Ég ætla ekki að taka frv. svo nákvæmlega fyrir. Ég hef tækifæri til þess að fjalla um það nánar í samgn. sem fær málið til umfjöllunar, en ég velti því fyrir mér hvort þetta hafi ekki þau áhrif að hagsmunum vörubifreiðaeigenda sem hafa annast flutninga hér sé verulega ógnað með þessu frv.