Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:23:45 (6184)


[17:23]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það er grundvallaratriði í öllu þessu Evrópubixi að íbúar á Evrópsku efnahagssvæði hafa jafnan rétt við okkur hér. Á móti fáum við aftur rétt úti. Við getum alveg átt von á því að einhver erlend flutningafyrirtæki vilji stunda landflutninga hér á landi. Í frv. eins og sums staðar annars staðar er verið að reyna að halda til haga hagsmunum hins sterka og ég býst við að þetta frv. sé ágætt fyrir Eimskipafélag Íslands og þjóni hagsmunum þess ágætlega. Hins vegar er skilyrðið um fullnægjandi fjárhagsstöðu sett til þess að reyna að útiloka þá litlu og koma þeim út úr samkeppninni. Við höfum dæmin fyrir okkur úr fluginu þar sem ákveðið var að setja flugfélögum ákaflega strangar skorður um rekstrarfé sem fyrst og fremst var gert til að þjóna hagsmunum Flugleiða og losa þá við samkeppni smáflugfélaga og það hefur gengið bara bærilega og náð tilgangi sínum. Þetta gerir sýnilega einyrkjunum, sem ekki hafa mjög sterka fjárhagsstöðu, ókleift að stunda þessa flutninga.
    Það þýðir ekkert að vera að nöldra mikið yfir þessu frv. Þetta er eitt af því sem við undirgengumst að gera með því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og það gerðum við illu heilli í fyrra. Þar af leiðandi eru hendur okkar bundnar í þessu efni og við getum ekkert annað heldur en kyngt því að taka upp þessar reglur ef við á annað borð ætlum að vera aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Það getur vel verið að það sé komið að þrotum og verði ekki til frambúðar, en hendur okkur eru bundnar. Alþingi er ekki frjálst að sinni löggjöf lengur. Það er afleiðing af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og það þýðir ekkert annað en bíta á jaxlinn og uppfylla þær skyldur sem meiri hluti Alþingis ákvað að við tækjum á okkur þrátt fyrir það hvernig stjórnarskráin hljóðar um að löggjafarvaldið skuli vera hjá Alþingi.