Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:29:24 (6186)


[17:29]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að það sé ástæðulaust fyrir hæstv. samgrh. að kippa sér upp við tóninn í þessari umræðu. Það er margt jákvætt í frv. Það er hentugt fyrir t.d. Eimskipafélag Íslands og vel getur verið að það verði hentugt fyrir þjóðarbúið líka, en það eru gallar á frv. og hæstv. samgrh. má ekkert vera að kippa sér upp við þó að menn taki eftir þeim. Það er þrengt að kosti þeirra litlu, þeirra samkeppnisstöðu er ekki gætt.
    Varðandi Flugleiðir, þá hafa þeir út af fyrir sig unnið merkilegt starf og ég veit að hæstv. samgrh. er ákafur hagsmunagæslumaður þess félags og þess félags sem á það félag að mestu. En hér hafa líka verið lítil flugfélög sem hafa skilað ágætu verki og verið þjóðarbúinu til hagsbóta og veitt þó nokkrum vinnu. Þeim hefur nú verið skákað út, a.m.k. að hluta, með skilyrðum um að eiga alltaf fyrirliggjandi rekstrarfé til þriggja mánaða fyrir fram og þar með hafa Flugleiðir náttúrlega styrkst í sinni einokunaraðstöðu hér.