Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:32:33 (6188)


[17:32]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er nú svona með smekkinn á flugfélögunum. Við alþingismenn erum í þeirri sérkennilegu stöðu ef við erum á ferð á vegum Alþingis þá er okkur ekki heimilt að fljúga með öðrum flugfélögum heldur en Flugfélagi Íslands á þeim leiðum sem Flugfélag Íslands á annað borð flýgur. Ef næstu 24 tíma er væntanleg vél frá Flugfélagi Íslands þá er okkur ekki heimilt að taka fram hjá Flugfélagi Íslands og ferðast t.d. með SAS.
    Nú sat ég um árabil í flugráði svo hæstv. samgrh. þarf ekkert að kenna mér um það efni. Ég veit að flugstjórar Flugleiða sem þar sátu með mér og deildarstjórar hjá Flugleiðum höfðu mjög, mjög þungar áhyggjur af slæmri fjárhagsstöðu samkeppnisflugfélaganna. Það getur skeð að það hafi ekki gerst í ráðherratíð hæstv. samgrh. að flugfélög hafi þurft að leggja upp laupana vegna þess að þau hafi ekki rekstrarfé en það hefur verið barningur hjá þeim sumum. Ég nefni Helga Jónsson t.d. sem stóð í myndarlegum flugrekstri, að vísu í fjárhagserfiðleikum, og þetta varð honum m.a. að fótakefli.