Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:34:18 (6189)


[17:34]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég bar fram tvær spurningar til hæstv. ráðherra áðan og fékk ekki svör. Ég ætla nú að bera þessar spurningar fram aftur.
    1. Er það hugmynd ráðherrans að það verði reynt að afgreiða þetta mál fyrir þinglok?
    2. Hvernig á að fara með réttindi útlendinga til að reka vöruflutninga á Íslandi?
    Það er einkennilegt að setja frv. á borð þingmanna þar sem það er tíundað hvernig hægt er að flytja vörur erlendis en ekki neitt um það með hvaða hætti á að taka á því ef útlendingar yrðu nú svo bjartsýnir að ætla að fara út í vöruflutninga á Íslandi. Ég sé ekki annað en að það geti alveg eins gerst og allt annað. Mér finnst a.m.k. fráleitt annað en að menn hafi það nokkurn veginn ljóst og skýrt með hvaða hætti eigi þá að bregðast við því. Mér finnst að það hljóti að eiga að vera í einhverju samræmi við það sem Íslendingar fá möguleika til að gera í löndunum í kringum okkur eða þessir viðsemjendur okkar. Það verður að vísu ekki feitan gölt að flá því eins og ég sagði áðan er ekki um að ræða nema möguleika til að reka tvo flutningabíla í tíu mánuði næsta árið og kannski þrjá þarnæsta ár og þeir kæmust kannski upp í 7--8 bíla áður en þetta tímabil rennur út. Á meðan þetta fæst ekki þá virðist mér af frv. að þeir sem vildu flytja vörur frá Íslandi verði að keyra bílana tóma til baka. Auðvitað verða menn ekki samkeppnisfærir í flutningum ef þeir þurfa að keyra bílana tóma til baka.
    Ég er svo sem ekkert að efast um að menn hafi reynt að fá betri samninga heldur en þetta en þetta er nú það sem menn hafa í höndunum og ég tel fulla ástæðu til að það sé gert skýrt frá hendi hæstv. ráðherra hvernig hann ætlar sér og hvaða tæki hann telur sig hafa í höndunum til að stjórna því ef útlendingar vilja taka upp vöruflutninga innan lands.
    Síðan langar mig til upplýsingar að spyrja um 1. gr. frv. því þar segir, með leyfi forseta: ,,Lög þessi gilda um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með vöruflutningabifreið eða tengivagni umfram þá hámarkshleðslu . . .  `` Hver er þessi hámarkshleðsla? Hvaða mörk eru á þessu? Hvað er hér á ferðinni? Ég þykist vita að þarna sé verið að greina á milli annars vegar einhverra breytilegra flutninga og hins vegar þungaflutninga sem eru stundaðir í miklum mæli. En það er gott til upplýsingar að fá að vita hvað hér er á ferðinni.