Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:38:16 (6190)


[17:38]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var í fyrsta lagi spurður að því hvort ég byggist við því að þetta frv. yrði afgreitt nú á þessu vori. Mér þætti mjög gott ef nefndin treysti sér til þess að afgreiða frv. þar sem það opnar fyrir nýja möguleika fyrir íslenska flutningaaðila erlendis og er þess vegna til hagsbóta fyrir íslenska rekstraraðila. Þetta frv. var flutt um leið og það var tilbúið og það er skýringin á því að það er ekki fyrr fram komið. Í öðru lagi hef ég ekki hér við höndina önnur svör við spurningu hv. þm. um það hvaða rétt aðrar þjóðir hafi hér á landi en þá almennu viðmiðun sem er í þessum samningum, að úthlutun á kvótum var alfarið byggð á tölfræðiútreikningum sem miðuðu við flutninga aðildarríkjanna undanfarin ár. Þetta er í athugasemdum við 3. gr. Eftir ítrekaðar viðræður tókst okkur Íslendingum að fá úthlutað tíu leyfum sem síðan fjölgar um 30% á ári hverju til ársins 1998. En á miðju því ári falla allar kvótatakmarkanir niður og við tekur frelsi í innanlandsvöruflutningum. Ég hef því miður ekki svör við því hvernig þessir kvótar skiptast niður á lönd Evrópubandalagsins. Það er ekki að finna hér í frv. og mér hefur láðst að afla mér upplýsinga um það.
    Að síðustu verð ég að gera þá játningu að þegar kemur að hleðslumörkum, öxulþunga og öðru slíku, þá er ég ekki mjög vel að mér um þau fræði og get ekki annað um þau sagt en að það er markmið okkar Íslendinga að byggja vegakerfi okkar þannig upp að það sé sambærilegt og um það gildi sömu reglur og innan hins Evrópska efnahagssvæðis.