Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:50:55 (6195)


[17:50]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það eru smáhugleiðingar í tengslum við þetta frv. sem hæstv. samgrh. er að mæla fyrir. Það er rétt að rifja upp þá staðreynd að það nálgast óðum með hverjum deginum sem líður þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar og vonandi verða þau ekki fleiri. Það er nokkuð umhugsunarvert að á síðustu starfsdögum þingsins á þriðja starfsári ríkisstjórnarinnar er hæstv. samgrh. að mæla fyrir þessu tiltölulega hógværa frv. um breytingu á lögum um skipulag ferðamála í ljósi þess m.a. að hæstv. ráðherra hafði um það allsver orð á fyrstu starfsdögum sínum, ef ég man rétt, að eitt af forgangsverkefnum í þessu embætti mundi verða að endurskoða heildarlöggjöf um skipan ferðamála og gera þar mikla bragarbót og það yrði lagt fram á haustþingi. Síðan er nokkuð vatn til sjávar runnið. Hæstv. ráðherra hefur ekki sóst sem skyldi í þessum efnum og hér næstum þremur árum síðar er þetta tiltölulega --- ég ætla ekki að segja ómerkilega en tiltölulega hógværa plagg á ferðinni þar sem er eingöngu verið að breyta veigalitlum atriðum að mínu mati sem undir skipulagsmál ferðaþjónustunnar falla.
    Þetta stafar af ýmsu og hæstv. ráðherra hefur m.a. í svari við fyrirspurn á síðsta þingi gefið þá skýringu að sökum ósættis milli sín og hæstv. fjmrh. um ýmis atriði sem lúta að starfskjörum ferðaþjónustunnar, þá hafi hann ekki komist lönd né strönd í því ætlunarverki sínu að bæta starfsskilyrði ferðaþjónustunnar. Og þetta er svo sem kunnugt því að þvert á móti hefur hæstv. samgrh. orðið að láta það yfir sig ganga að ferðaþjónustunni hefur verið íþyngt með auknum álögum, aukinni skattheimtu, á hans starfstíma. Ber þar auðvitað hæst upptöku virðisaukaskatts á mikilvæg svið ferðaþjónustunnar.
    Þetta er bagalegt vegna þess að eitt eru allir sammála um, og þar á meðal ræðumaður, af því sem segir í greinargerð að það hafa verið og eru að ganga yfir miklar breytingar á högum ferðaþjónustu. Það hefur mönnum verið ljóst um nokkurra ára skeið, sömuleiðis þörfina á því að endurskoða ofan í grunninn lög og starfsreglur sem mynda starfsgrundvöll greinarinnar. Menn voru komnir vel á veg með þetta verk á þingi því sem starfaði veturinn 1990--1991 í kjölfar nefndarstarfs þar sem fulltrúar allra flokka höfðu náð samkomulagi um frv. til laga sem fól í sér heildarendurskoðun lagaákvæða um skipulag ferðamálasjóðs og fleiri slíka þætti. En það frv. var illu heilli stöðað þar sem það var til 2. umr. í seinni deild á vordögum 1991 og fyrir því stóð hæstv. núv. samgrh. M.a. með þeim rökum að það frv. gengi ekki nógu langt til þess að bæta starfsskilyrði ferðaþjónustunnar.
    Þau örlög hljóta því að vera hæstv. samgrh. nokkurt umhugsunarefni að standa nú í þeim sporum þremur árum síðar að hafa engu komið fram af því sem hann ætlaði sér í sambandi við málefni ferðaþjónustunnar og mæla svo hér fyrir jafnléttvægu máli og þetta í raun og veru er sem fyrst og fremst felur í sér lítils háttar ,,manúeringar`` eða tilfærslur varðandi skipun ferðamálaráðs sjálfs.
    Þá er að víkja, hæstv. forseti, lítillega að því sem lagt er til í frv. Í fyrsta lagi er þetta sérstaka áhugamál hæstv. samgrh. sem hann boðaði hér strax að hann telji að skipan í ráð og nefndir af þessu tagi eigi að vera ótímabundin eða þá þannig úr garði gerð að þær fylgi ráðherrum og það sé opið til handa hverjum ráðherra sem í embætti kemur að hreinsa út alla þá sem þar hafa starfað á undan og skipa nýja menn í staðinn. Nú er þetta skipulag út af fyrir sig og sjónarmið út af fyrir sig. Og þetta er reyndar með ýmsum hætti í okkar stjórnsýslu. Sumar nefndir og sum ráð eru kosin í kjölfar alþingiskosninga, þegar þeim er lokið hverju sinni, en þá yfirleitt til fjögurra ára. Þannig er tryggt að á nýju kjörtímabili endurspeglist ný viðhorf og ný hlutföll, t.d. á Alþingi eða í ríkisstjórn, í mönnun slíkra starfa.
    Hins vegar er mjög fátítt að ganga þannig frá þessum hlutum að sviptingar í stjórnmálunum án tillits til kosninga, til að mynda fall og tilkoma ríkisstjórna þess vegna oftar en einu sinni á kjörtímabili geti haft það í för með sér að hreinsað sé út úr öllum starfsnefndum, stjórnum og ráðum af þessum toga. Þá vakna náttúrlega áleitnar spurningar um það hvort sé meira virði einhver stöðugleiki í starfsemi svona stofnana eða það að einstakir ráðherrar eða stjórnmálamenn komi fram pólitískum vilja sínum varðandi mönnun slíkra embætta. Ég hef miklu meiri efasemdir um það að fara út á þá braut sem hæstv. ráðherra er hér að leggja til að þetta eigi að vera þannig lagað opið að sviptingar af því tagi geti kostað mannabreytingar, jafnvel gagngerar mannabreytingar og algerar þess vegna bara með eins árs millibili ef sviptingarnar á skákborði stjórnmálanna kalla það til. Þá held ég að hljóti að koma upp sú hlið mála að það sé ekki endilega farsælt fyrir starfsemi ráða, stjórna eða nefnda af þessum toga að vera undir slíkt seld. Ég tel að sérstaklega eigi að horfa til þess að svona ráð séu faglega skipuð en ekki þröngt í pólitískum skilningi og spurningin sé um það að menn séu faglega hæfir til að gegna þeim störfum sem þeir hafa verið settir í burt séð frá því hverrar pólitískar skoðunar sá var sem það gerði að skipa þá eða hvaða pólitíska lit viðkomandi aðilar hafa. Mér finnst það heldur ógeðfelld hugsun að fyrir þá sök eina að vera annaðhvort skipaður af pólitískum ráðherra eða hitt að hafa einhverja tiltekna stjórnmálaskoðun, þá séu menn ónothæfir til faglegra eða stjórnmálalegra starfa af þessu tagi. Það finnst mér heldur ógeðfelld hugsun og hitt miklu nær að horfa á hina faglegu hlið.

    Svo er líka spurning hvort það á að vera þannig, ef menn kynnu að fallast það sem hér er lagt til af ráðherra, að fulltrúar ráðherra fylgdu starfstíma hans, eigi þá að ganga yfir alla hina líka, alla aðra sem tilefndir eru af öðrum aðilum. Það kann að vera sjónarmið að rétt sé að landshlutasamtök, hagsmunaaðilar eða fyrirtæki geti jafnframt skipt sínum mönnum út eftir því sem þeim þykir þurfa, en ég er ekki endilega viss um að slíkur hringlandi sem þá kann að verða á mönnun fyrirbæra eins og ferðamálaráðs í þessu tilviki sé af hinu góða.
    Að lokum tel ég svo að í þessu þurfi að vera eitthvert samræmi innan stjórnsýslunnar. Það getur ekki gengið að hjá einum ráðherra sé þetta svona, fylgi kjörtímabilinu eða sé til fjögurra ára í senn, en hjá öðrum sé það stefnan að þetta sé ævinlega opið og ráðherra geti hverju sinni þegar hann sest í stólinn hreinsað út úr öllum nefndum og ráðum. Það er alveg ljóst að hæstv. núv. samgrh. hefur þetta sem djúpa sannfæringu. Hann hefur flutt hér hvert málið á fætur öðru, trekk í trekk til, þess að reyna að hreinsa út stjórnir og fá umboð til að kjósa nýjar og þá væntanlega mannaðar sjálfstæðismönnum í staðinn en hefur lítið komist áfram með þau mál. En það hefur ekki borið á þessu með sama offorsi af hálfu annarra hæstv. ráðherra. Mér er satt best að segja ekki kunnugt um að aðrir en hæstv. samgrh. hafi þessa skoðun. Hann rekur því hér einhverja prívatlínu og fylgir henni fram af mikilli tilfinningu og talar gjarnan um trúnaðarbrest í þessu sambandi eins og finna má einhvers staðar í þessum textum. Þar með er það bersýnilega gefið í skyn það geti ekki ríkt eðlilegur trúnaður eða eðlileg samskipti milli manna ef þeir eru ekki í einum og sama stjórnmálaflokki. Það finnst mér heldur lélegt.
    Ég t.d. hef í sjálfu sér ekkert yfir þeim sjálfstæðismönnum að kvarta sem ég tók í arf hafandi tekið við embætti í samgrn. eftir alllanga dvöl sjálfstæðismanna þar á stóli, þeirra nafnanna Matthíasar Bjarnasonar og síðar Matthíasar Mathiesens. Það voru flestar stjórnir, nefndir og ráð hvort sem heldur voru fulltrúar ráðherra í hótelum eða flóabátum eða einhverju öðru slíku úti um landið og miðin tilnefnd af ágætum sjálfstæðismönnum í héraði og í mörgum tilvikum tilnefndi ég þessa menn áfram ef þeir höfðu staðið sig vel og ekkert til saka unnið. Það kostaði engan trúnaðarbrest milli mín og þeirra þó að við værum ekki í sama stjórnmálaflokki. Ég tilnefndi formann ferðamálaráðs fráfarandi alþingismann úr öðrum stjórnmálaflokki, hv. fyrrv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, og það gekk ágætlega og kom aldrei niður á trúnaði í okkar samskiptum að hún var á sama tíma starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Kvennalistans. Auðvitað eiga því menn ekki að taka svona rökum sem einhverjum borðliggandi og sönnuðum hlutum að menn geti ekki átt eðlilegt samstarf og það ríkt trúnaður á milli þeirra um fagleg málefni þó að þeir séu í sitt hvorum stjórnmálaflokknum.
    Ég taldi óhjákvæmilegt og nauðsynlegt við þessa umræðu, hæstv. forseti, að leyfa þessum sjónarmiðum aðeins að koma fram. Mér finnst þetta satt best að segja óskaplegur þrengslahugsunarháttur, ógurlegur þrengslavegur sem hæstv. samgrh. er alltaf að þrælast í þessum efnum. Hæstv. ráðherra fer sjaldan Hellisheiðina en oft Þrengslin,
    Um efnislegar breytingar svo að öðru leyti þá er hér lagt til að fjölgað sé í framkvæmdastjórn ferðamálaráðs úr fimm í sjö og að því er best verður séð er það til þess eins að hæstv. samgrh. geti tilnefnt tvo menn í staðinn fyrir einn áður í framkvæmdastjórn ferðamálaráðs. Að vísu fær Reykjavíkurborg að fljóta með og fær fastan fulltrúa í framkvæmdastjórn. Fyrir því geta svo sem verið rök, að þetta langstærsta sveitarfélag landsins eigi að vera þarna inni, með sömu rökum og þá Flugleiðir sem langstærsta fyrirtæki í ferðaþjónustu eigi að vera þarna með fasta fulltrúa, en maður fer að velta svolítið fyrir sér hlutföllum sem þá eru orðin í framkvæmdastjórninni. Svo að dæmi sé tekið er með þessari formúlu búinn til fræðilegur meiri hluti þriggja aðila í ráðinu. Það er Flugleiða, Reykjavíkurborgar og fulltrúa samgrh., sem þá yrðu tveir. Ég bara varpa þessu fram sem fræðilegum möguleika án þess að hafa um það fleiri orð.
    Ég hefði haldið að það stæði í sjálfu sér starfsemi ferðamálaráðs ekki fyrir þrifum að þar væri frekar fámennari framkvæmdastjórn en fjölmennari og spurning hvort það auðveldar störf hennar endilega að vera að færa þá tölu upp úr fimm í sjö þegar að því er best verður séð er tilgangurinn sá og sá einn að opna leið fyrir tvo en ekki einn fulltrúa samgrh. í ráðið. Það hljóta þá líka að vakna spurningar um hlutföll og það jafnvægi sem áður að bestu manna yfirsýn ríkti með skipan þessara fimm tilteknu fulltrúa eins og að því var áður staðið í framkvæmdastjórn ferðamálaráðs.
    Eitt atriði enn vil ég nefna og það eru ákvæði 8. gr. sem lúta að tryggingum ferðaskrifstofa. Þar vil ég á hinn bóginn taka eindregið undir efni frv. Það er löngu tímabært að breyta þeim þröngu reglum sem eru í gildandi lögum um tryggingar ferðaskrifstofa. Það varð fljótlega ljóst að eldri lagaákvæði voru í raun og veru alveg úrelt og úr takt við aðstæður að allar ferðaskrifstofur án tillits til stærðar, án tillits til þess hvort þær væru með hundruð manna á sínum vegum erlendis eða væru að taka fámenna hópa í ferðalögum um Ísland þyrftu allar að setja sömu tryggingarupphæðina, 8 eða 10 millj. kr. ef ég man rétt. Þarna þarf meiri sveigjanleika þannig að stórar ferðaskrifstofur sem eru með umfangsmikinn rekstur og jafnvel, eins og ég segi, hundruð manna á sínum vegum erlendis setji þannig tryggingar að fullnægjandi öryggi sé búið því fólki sem ferðast á þeirra vegum, þar með talið að hægt sé að ná þeim farþegum heim ef viðkomandi aðili kemst í rekstrarþrot og á hans vegum eru hundruð manna strandaglópar á erlendri grund.
    Á hinn bóginn er auðvitað fráleitt að minni háttar ferðaþjónustuaðilar eða þjónustuaðilar innan lands þurfi að setja jafnháar tryggingar þó að þeir kjósi að standa innan þess ramma laganna sem fjallar um skipulagðar ferðaskrifstofur. Hvort sem það er endilega besta aðferðin til þess að opna þetta upp að færa

þetta yfir í reglugerðarvald ráðherra, þá er í öllu falli ljóst að það er þörf á að breyta þessum ákvæðum. Frv. frá vorinu 1991 gerði ráð fyrir því að það væri gert, reyndar þá með miklu ítarlegri hætti þar sem ferðaþjónustuaðilarnir voru flokkanir upp og meira í takt við raunveruleikann búnir til mismunandi flokkar þeirra sem eru að starfa á þessu sviði, en ekki bara þessi einfalda skilgreining í ferðaskrifstofur þar sem allir eru settir undir sama hatt. Ákvæðum sem að þessu lúta mætti að skaðlausu breyta og reyndar væri full þörf á því en ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá það gerast sem hluta af heildarendurskoðun lagaákvæðanna á þessu sviði.
    Mikið meira, hæstv. forseti, er svo ekki um þetta að segja af minni hálfu. Þetta frv. sætir ekki miklum tíðindum nema síður sé. E.t.v. er helst hægt að segja að það sæti tíðindum vegna þess hversu magurt það er eftir þennan langa starfstíma hæstv. ráðherra, að hann skuli ekki hafa meira fram að færa sem lýtur að breyttu skipulagi og úrbótum í málefnum ferðaþjónustunnar heldur en það sem hér er lagt til, að hringla lítillega með skipulag ferðamálaráðs. Því miður held ég að ferðaþjónustunni hafi alls ekki verið sýndur sá sómi sem rétt væri og skylt í ljósi þess að hún er þrátt fyrir allt ein af örfáum ef ekki bara eina virkilega vaxandi útflutningsgrein Íslendinga, hefur á hverju ári undanfarið skilað auknum verðmætum, auknum gjaldeyri inn í þjóðarbúið og er nú á góðri leið með að verða í öðru sæti hvað hreina gjaldeyrisuppsprettu fyrir íslenska þjóðarbúið áhrærir. Það er t.d. dapurlegt að á þessum tíma skuli auknar álögur hafa verið lagðar á ferðaþjónustuna í tíð núv. ríkisstjórnar og þrátt fyrir vöxt hennar og þar með auðvitað þörf fyrir meira fé til fyrirbyggjandi aðgerða og starfrækslu upplýsingamiðlunar, reksturs ferðamálaráðs o.s.frv., hafa fjárveitingar staðið í stað í krónutölum öll árin sem hæstv. samgrh. hefur farið með þau mál. Það er mjög dapurlegt. Þrátt fyrir það að talsverður hluti af starfsemi ferðamálaráðs er í erlendri mynt og hefur þar af leiðandi rýrnað sem nemur gengisfalli íslensku krónunnar í tíð þessarar ríkisstjórnar, en hvorki meira né minna en þrjár meiri háttar gengisfellingar hafa eins og kunnugt er gengið yfir í hennar tíð. Þetta þýðir t.d. þar sem gengi mynta hefur jafnframt styrkst eins og í Bandaríkjunum að framkvæmdafé til reksturs ferðaskrifstofa ferðamálaráðs í New York hefur líklega rýrnað um fjórðung eða svo á þessum tíma vegna þess að það er óbreytt í krónutölu frá því sem það var á árinu 1991, þrátt fyrir gengisfellingarnar og aukna þörf sökum vaxtar í greininni. Þetta er nú harla dapurlegt.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en ég ítreka og undirstrika það sem ég hef áður sagt að mér finnst þetta heldur mögur uppskera hjá hæstv. ráðherra eftir næstum þrjú ár í þessu embætti.