Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:25:43 (6198)


[18:25]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mikið meir. Það má sjálfsagt hafa á þessu ýmsar skoðanir og ég var ekkert að lýsa neinum heitum sannfæringum til eða frá hvaða fyrirkomulag ætti að hafa á þessu í minni fyrri ræðu en m.a. bara að benda á að það þyrfti að vera eitthvert samræmi í þessu. Þetta væru ekki mál sem ættu að ráðast af einhverjum persónulegum áhugamálum einstakra ráðherra og ekki einu sinni einstakra ríkisstjórna. Það þarf að skipa þessum málum almennt í stjórnsýslunni með einhverjum hætti. Það á ekki að svipta því til bara eftir því hvernig vindar blása pólitískt heldur þarf að vera einhver samfella í því.
    Út af því sem hæstv. ráðherra sagði með frv. sem hann gekkst við að hafa stöðvað í efri deild á síðustu dögum þingsins árið 1991 þá er rétt að hæstv. ráðherra hafi það í huga að Sjálfstfl. átti fulltrúa í þeirri nefnd sem undirbjó það frv. Það áttu allir þingflokkar og þeir náðu samkomulagi og skiluðu einróma tillögum. Það var hv. fyrrv. þm. og hæstv. fyrrv. ráðherra, Friðjón Þórðarson, núv. sýslumaður Dalamanna, sem sat í þeirri nefnd fyrir Sjálfstfl. og skrifaði án fyrirvara upp á nál. og frv. sem síðan var flutt. Og allir þingmenn Sjálfstfl. með tölu í neðri deild greiddu atkvæði með málinu. Það var því nokkuð mikil ábyrgð sem hv. þáv. þm., Halldór Blöndal, fyrirferðarmikill nokkuð í störfum efri deildar þessa vordaga, tók á sig að bera einn og sérstaklega ábyrgð á því að hindra að fram gengi þessi vilji sérstakrar nefndar og neðri deildar sem einróma hafði náð saman um afgreiðslu á málinu. ( JGS: Hvernig gat þingmaðurinn þetta einn?) Það er saga út af fyrir sig að segja af því hvernig þingmaðurinn fór að því. Ætli það hafi ekki verið þannig að það var komið fram á síðustu sólarhringa þingsins og mönnum var nokkuð í mun að fara að koma þinginu í sitt frí og styttist í kosningar þannig að í krafti þeirrar aðstöðu sem hv. þm. skyndilega komst í þá gerðist þetta eins og stundum vill verkast til.
    Ég er ekki viss um að þeir fáu sem ég held að gengið hafi sérstaklega undir hv. þm. í því að stöðva þetta sjái að þeir hafi unnið þar eitthvert þurftarverk í dag.
    Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi með pólitískan aðstoðarmann fyrrv. hæstv. samgrh., Mattíasar Á. Mathiesens þá er það rétt. Ég óskaði eftir því að hann hyrfi úr tilteknum nefndum sem hann sat í, sem hann sem pólitískur aðstoðarmaður ráðherra sat í sem slíkur. Þar er allt öðru til að dreifa heldur en því sem hér er til umræðu. Menn hljóta að sjá það í hendi sér að það er annað þar sem fer pólitískur aðstoðarmaður ráðherra sem situr sem slíkur við einhver störf þegar ríkisstjórnarskipti verða og hitt að menn sem tilnefndir eru af ráðherra gjarnan eða vonandi á faglegum forsendum í stjórnir, nefndir og ráð sem starfa í tiltekin kjörtímabil víkji sæti. Þetta er eina tilvikið. Og ég stend við það sem ég áðan sagði að öðru leyti sátu allir þeir sem skipaðir höfðu verið af Sjálfstfl. út þann tíma sem þeim bar lögum samkvæmt. Til að mynda sat Kjartan Lárusson, sem formaður ferðamálaráðs út það kjörtímabil sem eftir var þegar ég kom til starfa og ég hef ekkert yfir samstarfinu við hann að kvarta, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég velti því ekki einu sinni fyrir mér hvort hann væri stuðningsmaður Sjálfstfl. eða eitthvað annað. Formaður stjórnar ferðamálasjóðs, Hólmfríður Árnadóttir sat út sitt kjörtímabil. Sömu sögu er af því að segja, ég hafði ekkert yfir samstarfinu við hana að kvarta.
    Þannig var það yfir heilu línuna, hæstv. ráðherra. Ég stóð ekki í því að kalla menn inn á teppið og með misjöfnum aðferðum fara fram á að þeir segðu af sér áður en þeirra kjörtímabil var uppi en það skilst mér að eigi sér nú fordæmi.
    Að öðru leyti er ekki mikið um þetta að segja. Ég held að allir átti sig á því hvernig þetta mál liggur. Það er rétt að vekja athygli á því að það fyrirkomulag sem var við lýði þegar hæstv. núv. samgrh. kom að þessum verkefnum var eitthvað sem var uppdiktað af mér sem forvera hans einum og sér. Þetta voru einfaldlega þau vinnubrögð og þær reglur sem viðgengist höfðu og viðgengist hafa um langan aldur í allri stjórnsýslunni, að stjórnir, nefndir og ráð eru gjarnan skipuð til fjögurra ára senn og þá ræður hending því hver situr í stóli ráðherra þegar kjörtímabilið er uppi. Og það liggur auðvitað í hlutarins eðli að við skulum segja að það gerist á miðju kjörtímabili að þá verða sömu aðstæður uppi aftur að fjórum árum liðnum og þá er ráðherra búinn að sitja í tvö ár, hann skipar menn og þeir sitja í fjögur ár. Þau tvö ár sem eftir lifa kjörtímabilsins og önnur tvö í viðbót. Hvað með það? Þannig gerist það ósköp einfaldlega að mönnun þessara þátta stjórnsýslunnar er á öðru spori en kosning til Alþingis og skipan ríkisstjórna. Ég er ekki viss um nema það sé að mörgu leyti skynsamlegt og farsælt að það sé þannig vegna þess að auðvitað gengur það ekki að taka allt og snúa því á haus í hvert skipti á fjögurra ára fresti eða þess vegna skemmri tíma ef stjórnir falla eins og stundum gerist. Það þýðir auðvitað ekki að byggja stjórnsýsluna í landinu upp þannig. Við erum væntanlega að tala hér í flestum tilvikum um faglegar áherslur og faglega skipaða aðila.
    Ég ætla ekki hæstv. núv. samgrh. annað en það að skipa menn sem hafa faglegt erindi inn í ferðamálaráð eða stjórnir, nefndir og ráð af öðrum toga. Þó ég að vísu gruni hann um að skipa helst ekki annað en sjálfstæðismenn. En það er hans húskross og heimavandi að sjá hvergi hæfa menn í öðrum flokkum. En ég er ekki að draga í efa út af fyrir sig að hæstv. ráðherra leiti að fólki sem hafi einhverja burði og eitthvert erindi faglega séð inn í viðkomandi störf eða við skulum a.m.k. vona að svo sé. Þá finnst mér ekkert sjálfgefið og alls ekki rökstutt að það sé endilega nauðsynlegt að allt það fólk skuli hverfa frá þeim störfum samstundis um leið og hæstv. ráðherra lætur af embætti.
    Síðan nokkur orð um það sem hæstv. ráðherra vék að úr minni ræðu. Það sem ég sagði um fjárveitingar til ferðamálaráðs var þetta: Þær hafa staðið í stað í krónum talið þessi þrjú ár sem hæstv. ráðherra hefur setið. Fjárveitingar til ferðamálaráðs, ég held ég muni rétt að það séu u.þ.b. 68 millj. kr. sem þær voru á árinu 1991. Það er bagalegt, m.a. vegna þess sem ég benti á að verulegur hluti af útgjöldum ferðamálaráðs er bundinn í erlendri mynt. Hann er kostnaður við rekstur skrifstofanna í Þýskalandi og í Bandaríkjunum og vegna gengisfellinganna þá hafa íslenskar krónur rýrnað mjög í þeim skilningi að þær duga fyrir minni útgjöldum á erlendri grund eins og gengisskráningu er nú háttað, það gefur auga leið.
    Þetta hefur gerst á sama tíma og tekjustofninn sem að vísu hefur því miður aldrei tekist að fá að fullu, þ.e. 10% af sölutekjum Fríhafnarinnar, hefur stóraukist á þessum árum. Þess vegna hefði ef allt hefði verið með felldu átt að takast að lyfta þessum tekjustofnum. Um hið sérstaka landkynningarátak sem hæstv. samgrh. efndi til með Flugleiðum og fjármagnaði með nokkuð sérstökum hætti svo ekki sé meira sagt með því að skera niður rekstrarframlög til allra stofnana samgrn. þó að þær sinni alls óskyldum verkefnum. Mönnum er spurn: Hvers á Vita- og hafnamálastofnun að gjalda að fjárveitingar til hennar skuli vera skornar niður til að standa straum af landkynningu í ferðamálum? Þá er auðvitað það að segja að það er góðra gjalda vert og fagnaðarefni að þarna sé verið að reyna eitthvað. En hæstv. ráðherra hefði að sjálfsögðu átt að að afla fjár til síns hluta verkefnisins með öðrum hætti en þessum. Það átti þá ósköp einfaldlega að hækka fjárveitingar til ferðamálaráðs um 40 millj. kr. og láta ferðamálaráð síðan taka fyrir ríkisins hönd þátt í þessu kynningarátaki. En eins og danskurinn segir þá er ,,meningen god nok`` og að sjálfsögðu tek ég undir að það er fagnaðarefni að þessir peningar náist fram þó að þetta sé nú kannski hálfgerðar sjónhverfingar því mér er ekki kunnugt um í sjálfu sér að vinir mínir hjá Flugleiðum hafi hækkað í sínum áætlunum það sem þeir ætluðu til landkynningarmála. Ætli það sé ekki þannig að þeir hafi bara ósköp einfaldlega eyrnamerkt einhverjar 50 millj. kr. að vera mótframlagið að nafninu til á móti því sem kom frá hæstv. ráðherra. Um samskiptin við Olíufélagið þá er sömuleiðis gott um það að segja. Ferðamálaráð tók þetta upp á síðasta ári og hvatti til ferðalaga um eigið land í samstarfi við Olíufélagið og það er hið besta mál. Nú virðist samgrn. hafa yfirtekið þetta verkefni og það er eins og ferðamálaráð sé þar horfið út úr sögunni sem mér finnst sérkennilegt því ferðamálaráð er þrátt fyrir allt framkvæmdastofnun á þessu sviði en aftur er hugsunin góð og ekkert nema gott um það að segja og þarna er þó viðleitni sem gengur til réttrar áttar.