Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:38:57 (6201)


[18:38]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skil ekki af hverju hv. þm. talar með þessum hætti. Sá maður sem í hlut á kom á fund minn eftir að ég varð samgrh., það er best að skýra frá því, sagði að hann hefði verið --- það er nú svo að það er ekki heimilt að ráða með formlegum hætti aðstoðarmenn --- sami maður hefur einungis heimild til að ráða með formlegum hætti einn aðstoðarmann ráðherra. Hins vegar var þessi ágæti maður ráðinn sem aðstoðarmaður ráðherra þó hann héti deildarstjóri í samgrn. eftir því sem hann sagði mér eftir að ég varð ráðherra. Og ef einhver hefur bullað í þeim efnum þá er það sá ágæti maður. Ég skal ekki rekja það samtal frekar, þetta mál liggur svona fyrir. Það skiptir engu máli hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kemur hingað upp og segir að ég hafi farið með ósannindi í þessum efnum. Það veit allur þingheimur, það vita þeir sem fylgjast með að hann starfaði sem pólitískur aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, leit á sig sem slíkan en ráðningarkjörin voru eins og venja er til þegar sami maður fer með tvö ráðuneyti.
    Mér finnst á hinn bóginn þessi umræða vera komin nokkuð út fyrir það málefni sem við erum að tala um. Við vorum að tala um það hvort það sé rétt eða skynsamlegt að pólitískt skipaðir menn haldi áfram að standa í trúnaðarstörfum eða ráðgefandi störfum eftir ráðherraskipti. Við erum hér að tala um ferðamálaráð. Það stendur svo á að ég hef nýskipað í ferðamálaráð. Ef lögin verða óbreytt þá stendur sú skipun til fjögurra ára þannig að ég er ekki að fara hér fram á það hér að fá heimild til að hygla neinum pólitískt.